Þróunar- og markaðsstarf Primex leitt af konum

Nýsköpunarfyrirtækið Primex á Siglufirði vinnur að þróun á mörgum spennandi vörum. Primex framleiðir m.a. náttúrulegt fæðubótarefni sem gagnast fólki sem vill létta sig. Eigendur gæludýra sem hafa bætt of miklu á sig geta einnig leitað í smiðju Primex til að létta dýrin. Hráefnið í vörur Primex er unnið úr rækjuskel, sem til skamms tíma var litið á sem umhverfisvandamál, en í dag er öldin önnur. Möguleikar til verðmætasköpunar eru margir en Primex hefur m.a. komið að þróun bakteríuhamlandi efnis í sáraumbúðir í samstarfi við bandarískt fyrirtæki. Bandaríski herinn hefur notað umbúðirnar síðan í Íraksstríðinu og fullyrt er að þær hafi bjargað fjölda mannslífa.

Ólafur Helgi Marteinsson, framkvæmdastjóri Primex, veitti  innsýn í starf fyrirtækisins á Sjávarútvegsdeginum sem fór nýverið fram. Hráefni til vinnslunnar kemur frá flestum rækjuvinnslum á Íslandi en úr rækjuskel vinnur Primex kítín, kalk, prótein og efni sem nefnt er astaxanthin. Úr kítíni er síðan búið til kítósan sem er notað í alls kyns vöruflokka, t.d. fæðubótarefni, snyrtivörur og bætiefni í matvælaframleiðslu.

Yfirlit um framleiðslu fyrirtækisins og vörumerki má sjá glöggt í meðfylgjandi glærukynningu en Primex hefur farið þá leið að vinna með stórum og öflugum fyrirtækjum við vöruþróun. T.d. eru megrunarlausnir Primex fyrir gæludýr þróaðar með bandarísku fyrirtæki og seldar í verslunum Walmart og Ólafur segir unnið að því að koma einnig sárageli fyrir dýr í sölu hjá keðjunni.

undefined

 

Á fæðubótarmarkaðnum notar Primex vörumerkið LipoSan Ultra en það er sérstök og einkaleyfisvarin formúla fyrir fæðubótarefni sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að geti stuðlað að lækkun líkamsþyngdar. LipoSan bindur fitu sem neytt er í meltingarveginum og hindrar upptöku hennar.

Ólafur viðurkennir að þótt Primex eigi þekktustu vörumerkin í kítósanheiminum þá sé Primex lítið fyrirtæki sem þurfi á öflugum samstarfsaðilum að halda. „Við höfum ekki þá peninga sem til þarf, til þess að vinna beint og undir okkar merkjum á neytendavörumarkaði. Því höfum við valið þá leið að vinna með stórum og öflugum aðilum. Stundum þróum við með þeim vörur eða leggjum þeim til formúlur og uppskriftir. Oftar en ekki koma vörumerki okkar fram á umbúðum og vísað til þess að varan innihaldi LipoSan.“ Ólafur nefnir dæmi um stórfyrirtæki sem noti vöru fyrirtækisins, Herbalife og Now (Nu Skin) í fæðubótarefni. GABA sem framleiðir Elmex heilsutannkrem en GABA á einnig Colgate. Þá má einnig nefna L‘oreal og Wella á snyrtivörumarkaði.

undefined

Á Sjávarútvegsdeginum nefndi Ólafur að konur sinntu öllu allt sem skipti máli í þróunar- og markaðsstarfi fyrirtækisins en hvað er verið að bjástra þessa dagana hjá Primex?

 „Við erum að vinna að verkefni undir stjórn Dr. Helene Lauzon, framkvæmdastjóra rannsókna og þróunar hjá Primex, að auka geymsluþol ferskra sjávarafurða með því að nýta örverudrepandi áhrif kítósans. Matís vinnur að þessu verkefni með okkur og ef vel tekst til gæti þetta skipt máli við að koma ferskum flökum enn ferskari á markað,“ segir Ólafur.

Primex er dótturfyrirtæki sjávarútvegsfyrirtækisins Ramma sem á 73% hlut í félaginu en Síldarvinnslan og Samherji eiga saman 22%. „Bein afskipti þeirra af félaginu hafa aldrei verið mikil að öðru leyti en fjárhagslega hafa þeir alltaf staðið við bakið á félaginu. Og þess hefur svo sannarlega þurft með á köflum,“ viðurkennir Ólafur. Það verður spennandi að fylgjast með vöruþróun Primex á næstu misserum en tækifærin liggja m.a. í austri þar sem Asía er að verða æ mikilvægara markaðssvæði fyrirtækisins.

Sjá nánar:

Glærur Ólafs Helga Marteinssonar (PDF)