Þriðja stoð lífeyriskerfisins - 300 milljarðar í séreignarsparnaði

Kostir núverandi fyrirkomulags  fulltrúalýðræðis við stjórnun lífeyrissjóða sem samið er um í kjarasamningum eru ótvíræðir, vegna þess að  það tryggir jafnvægi milli ólíkra hagsmuna, langtímastöðugleika og vönduð vinnubrögð. Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, í grein á vef SA um lífeyrismál og séreignarsparnað en áætlað er að séreignarsparnaður landsmanna nemi nú allt að 300 milljörðum króna. Í greininni fjallar Hannes m.a. um hugmyndir á vettvangi stjórnmálanna um breytingar á umgjörðinni um lífeyrissjóði og lífeyrissparnað sem hingað til hefur verið sátt um, m.a. skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði sem bæði SA og ASÍ hafa eindregið lagst gegn.

Grein Hannesar  má lesa í heild hér að neðan:

Í desember 1997 samþykkti Alþingi breytingu á lögum um tekjuskatt sem fól í sér heimild til 2% frádráttar frá tekjuskattstofni einstaklinga vegna iðgjalds sem varið væri til lífeyrissparnaðar í séreign viðkomandi. Þetta var til viðbótar við 4% frádrátt vegna iðgjalds til samtryggingarsjóðs. Í mars 2007 var þessi frádráttarheimild vegna viðbótar lífeyrissparnaðar hækkuð í 4%. Þessi aukni frádráttur var gerður í framhaldi af starfi nefndar sem starfaði á árunum 1995-1997 og samdi frumvarp til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem varð að lögum 129/1997.

Heimilt að taka við séreignariðgjöldum

Í athugasemdum með frumvarpinu er yfirlit yfir hinn langa aðdraganda þessa máls. Þar kom m.a. fram að fjallað hefði verið nær samfellt um málefni lífeyrissjóða í stjórnskipaðri nefnd 1976-1987. Því starfi lauk með frumvarpi um starfsemi lífeyrissjóða sem ekki fékk afgreiðslu. Frumvarpinu var vísað til sérstakrar milliþinganefndar 1990-1991 en það skilaði ekki árangri. Á vegum fjármálaráðuneytis voru samin drög að frumvarpi árið 1994 sem náði heldur ekki fram að ganga. Nefnd fjármálaráðherra um lífeyrismál sem skipuð var 1995 skilaði loks frumvarpi sem fékk brautargengi og varð að lögum. Meðal markmiða sem nefndinni voru sett í erindisbréfi ríkisstjórnarinnar var að stuðla að því að allir landsmenn nytu sambærilegra lífeyrisréttinda og finna leiðir til að auka valfrelsi í lífeyrissparnaði. Niðurstaðan laga 129/1997 var m.a. sú að heimila það að hluti lágmarksiðgjalds til samtryggingar yrði skilgreint sem séreign, að heimila almennum lífeyrissjóðum að taka við séreignariðgjöldum og rýmka heimildir einstaklinga til skattafrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda.

Áður en lög 129/1997 tóku gildi höfðu margir sett lífeyrissparnað sinn í séreignarsjóði, einkum sjálfstæðir atvinnurekendur. Með lögunum var þessum aðilum gert skylt að tryggja sig með iðgjaldi í samtryggingu eins og gilt hafði um launamenn skv. kjarasamningum. Viðbótar lífeyrissparnaður almenns launafólks var lítill framan af en jókst verulega í framhaldi af kjarasamningunum árið 2000.

Verkalýðsfélög á almennum vinnumarkaði settu fram kröfur við kjarasamningsgerð í upphafi árs 2000 um að á móti 2% iðgjaldi launamanns kæmi 2% mótframlag vinnuveitanda. Krafan var rökstudd með því að með þeim hætti yrði að hluta til jafnaður sá munur sem væri á milli framlaga vinnuveitenda til lífeyrissparnaðar á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, en á þeim tíma var framlag vinnuveitenda á almennum markaði 6% en 11,5% hjá hinu opinbera. Á þessa kröfu var fallist af Samtökum atvinnulífsins og fór ákvæði um 2% mótframlag vinnuveitenda inn í alla kjarasamninga sem SA gerðu á þessum tíma og var þá talið að þannig væri unnt að ná betri sátt um mismunandi lífeyrisréttindi á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Þær vonir voru að engu gerðar þegar ríkið samdi skömmu síðar við opinbera starfsmenn um sams konar viðbótarframlag þannig að munurinn sem var á réttindum hélst óbreyttur. Sveitarfélögin þráuðust hins vegar við að taka upp mótframlagið um tíma en létu að lokum í minni pokann.

Íslenska lífeyriskerfið til fyrirmyndar

Þriggja stoða lífeyriskerfi það sem Íslendingar hafa byggt upp og á enn eftir að ná fullum þroska er til fyrirmyndar. Þriggja stoða kerfi sem byggir á almennum grunnrétti, samtryggingarsjóðum með föstum iðgjöldum (ekki föstum réttindum eins og opinberu sjóðirnir) og skipulegum séreignarsparnaði er það sem alþjóðastofnanir á borð við Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hafa mælt með.

Séreignarsparnaðurinn liggur að lang mestu leyti í sjóðum á vegum bankanna en lífeyrissjóðirnir urðu undir í samkeppninni um þetta sparnaðarform. Áætlað er að séreignasparnaður landsmanna nemi nú allt að 300 ma.kr. Hann á sér tvenns konar uppruna, þ.e. annars vegar er um að ræða viðbótarlífeyrissparnað og hins vegar séreign sem myndast hefur sem hluti af skyldubundnu lágmarksiðgjaldi og iðgjöldum í séreign fyrir gildistöku lífeyrissjóðslaganna. Ekki liggur fyrir hvernig þessir 300 ma.kr. skiptast nákvæmlega á milli þessara flokka séreignar. Áætlað hefur verið að fjórðungur séreignasparnaðar, eða um 75 ma.kr., sé að stofni til hluti af hinu skyldubundna iðgjaldi og séreign sem myndaðist fyrir gildistöku lífeyrissjóðslaganna. Það þýðir að rúmlega 200 milljarðar kr. stafi af viðbótariðgjaldi. Í desember 2009 samþykkti Alþingi að framlengja heimildir til útgreiðslu séreignarsparnaðar til 1. apríl 2011 í stað 1. október 2010 sem áður gilti. Árið 2009 voru greiddir út 20-25 ma.kr., eða rúmlega 10% af séreign sem myndast hefur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar og er áætlað að svipuð upphæð verði greidd út á þessu ári.

Hver kynslóð standi undir eigin lífeyri

Í pólitískri umræðu undanfarið hafa verið settar fram hugmyndir um breytingar á umgjörðinni um lífeyrissjóði og lífeyrissparnað sem hingað til hefur verið bærileg sátt um. Þá er einkum átt við hugmyndir um skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði, bæði í samtryggingarsjóði og séreignarsjóði. Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa eindregið lagst gegn slíkum hugmyndum. Meginrökin gegn skattlagningu inngreiðslna eru þau að styrkur lífeyriskerfisins felist í því að hver kynslóð standi undir eigin lífeyri og taki þátt í fjármögnun samneyslunnar á efri árum með sparnaði í stað þess að velta vandanum yfir á næstu kynslóðir. Þetta hefur verulega þýðingu þar sem fyrirséð er að aldurssamsetning þjóðarinnar breytist mikið á komandi áratugum. Nú eru tæplega 6 manns á vinnualdri á móti einum lífeyrisþega en þegar kemur fram undir miðja öldina mun hlutfallið verða tveir á móti einum. Þá er það meginregla í Evrópu að lífeyrir sé skattskyldur en ekki iðgjöld í lífeyrissjóði eða fjármagnstekjur þeirra.

Kostir fulltrúalýðræðis við stjórnun lífeyrissjóða ótvírætt

Viðbótarlífeyrissparnaður, sem að mestu er bundinn í sjóðum sem tengjast bönkunum þremur, hefur orðið fyrir sambærilegu höggi og lífeyrissjóðirnir vegna efnahagshrunsins.  Þessir sjóðir hafa tekið upp það fyrirkomulag að meirihluti eða allir stjórnarmenn eru kosnir á aðalfundum sjóðanna. Það fyrirkomulag er óviðeigandi við kjör í stjórnir almennu  lífeyrissjóðanna þar sem tugþúsundir eða jafnvel á annað hundrað þúsunda einstaklinga eiga mismikil réttindi, en á aðalfundi þeirra mæta tugir og í besta falli nokkur hundruð sjóðfélaga. Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa samið um uppbyggingu annarra sjóða eins og sjúkrasjóði, fræðslusjóði og starfsendurhæfingarsjóð og dettur engum í hug að  taka upp almennar kosningar til stjórna þeirra. Kannski ástæðan sé sú að þeir séu ekki nægilega digrir.

Kostir núverandi fyrirkomulags  fulltrúalýðræðis við stjórnun sjóða, sem samið er um í kjarasamningum eru ótvíræðir, vegna þess að  það tryggir jafnvægi milli ólíkra hagsmuna, langtímastöðugleika og vönduð vinnubrögð. Þannig er hagsmunum sjóðsfélaga best borgið.

Hannes G. Sigurðsson