Þrengt að starfsumhverfi atvinnuökumanna

Í lok júlí 2006 setti samgönguráðuneytið tvær reglugerðir um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og um ökurita og notkun hans. Þremur mánuðum síðar setti ráðuneytið reglugerðir um viðurlög vegna brota á umferðarlögum og um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Ráðuneytið hafði ekkert samráð við hagsmunaaðila úr atvinnulífinu við setningu tveggja síðar nefndu reglugerðanna.

Sektir hækkaðar gríðarlega

Með þessum reglugerðum voru settar mjög nákvæmar reglur um hvíldar- og aksturstíma atvinnubílstjóra sem hafa mikil áhrif á starfsumhverfi þeirra. Þá liggja nú mjög hert viðurlög við brotum á þessum reglugerðum miðað við það sem áður gilti og hafa sektir vegna einstakra brota hækkað um allt að 60% án þess þó að lögum hafi verið breytt. SA efast um að ráðuneytið geti einhliða ákveðið slíka hækkun sekta án sérstakrar lagastoðar.

Af þessu tilefni sendu SA, Samtök iðnaðarins, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu og Samtök ferðaþjónustunnar sameiginlega bréf til samgönguráðuneytisins þar sem gerð var grein fyrir athugasemdum þessara hagsmunaaðila við viðurlagaákvæði reglugerðanna. Gagnrýni SA beinist aðallega að því að ekki er tekið tillit til þess að þjóðvegakerfi landsins, ófærð á vetrum og erfið veðurskilyrði gera það nánast ómögulegt fyrir atvinnubílstjóra að vinna starf sitt innan settra marka um hámarksaksturstíma. Því má lítið út af bregða á lengri ferðum án þess að bílstjórar eigi yfir höfði sér hættu á sektarboðum.

 

Erfitt að fylgja lögum og reglum

Sérlega erfitt er fyrir atvinnubílstjóra að fylgja ákvæðum reglugerðar um aksturstíma til og frá Austurlandi og á Vestjörðum þar sem fáir áningarstaðir eru að vetrarlagi. Ef bílstjórar ná ekki á áfangastaði sína innan tilsetts tíma eiga þeir á hættu að fá háar sektir auk þess sem þeir fá punkta í ökuferilsskrá sína. Það getur leitt geta til ökuréttindamissis og um leið er grundvelli starfs þeirra. Samkvæmt reglugerð 930/2006 getur 14 mínútna umframakstur leitt til sektar allt að 25 þúsund krónum og hálftíma umframakstur þýðir sekt allt að 50 þúsund krónur.

Í stað þess að stuðla að auknu umferðaröryggi á vegum landsins leiða reglugerðir þessar til þess að atvinnubílstjórar munu freistast til að aka hraðar en æskilegt er miðað við ástand vega og veðurskilyrði. Þannig hefur heyrst af dæmum þar sem menn veigra sér við að stöðva bíla til að setja á snjókeðjur til að fara yfir heiðar til að eiga síður á hættu sektir. Ef reglugerðum þessum verður ekki breytt munu þær e.t.v. leiða til þess að flutningafyrirtæki verða að hafa tvo ökumenn á hverjum flutningabíl. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér mikinn kostnaðarauka fyrir viðkomandi fyrirtæki sem kemur fram í hærri flutningskostnaði til landsbyggðarinnar og lægri tekjum bílstjóra. Er því viðbúið að þeir reynslumiklu menn sem verið hafa í þessum störfum muni hrökklast úr þeim.

Rafrænt eftirlit og sjálvirk gjaldheimta

Hafa verður í huga að eftirlit með hvíldartímabrotum bílstjóra er rafrænt og framkvæmt af Vegagerðinni og er því alls ólíkt hefðbundnu umferðareftirliti lögreglu. Lesið er af ökuskífum í vélum og komi umframakstur í ljós er viðkomandi sjálfkrafa sendur innheimtuseðill. Í þessu kerfi er lítið tillit tekið til sérstakra aðstæðna eða veðurskilyrða heldur verður viðkomandi flutningafyrirtæki að bera innheimtuseðilinn saman við upplýsingar sem fyrir liggja og mótmæla síðan sektarboðinu og fara með málið fyrir dóm ef ekki er á rök þess hlustað.