Þörf á varanlegum hagvexti

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið þörf á gífurlegu átaki í fjárfestingu hér á landi. Á síðasta ári var hlutfall hennar 13% af landsframleiðslu og hefur aldrei verið lægra. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga, hinn 5. maí síðastliðinn, segir að stefnt skuli að því að hlutfallið verði komið upp í fimmtung landsframleiðslu í lok samningstímans. Hannes segir engin merki þessa sjást í nýrri Þjóðhagspá Hagstofunnar.

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir:

"Í spánni er gert ráð fyrir að aukning einkaneyslu verði einn helsti drifkraftur hagvaxtar á árinu, og að hún muni aukast um 3% á ári næstu árin. Í ljósi dvínandi áhrifa útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar og skuldastöðu heimila, sem enn sé slæm, segir Hannes þessa meginforsendu hagvaxtaraukningarinnar standa á veikum fótum. Í umfjöllun hagdeildar SA um hagvaxtarhorfur er meðal annars vísað til könnunar Capacent meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins. Þar kemur fram að horfur hvað fjárfestingar og ráðningar varðar séu enn slæmar, og ráðgert að uppsagnir verði fleiri en nýráðningar. Í spá Hagstofunnar er hins vegar gert ráð fyrir því að aukinn hagvöxtur leiði til minnkandi atvinnuleysis, og að það verði komið niður í 5,4% árið 2013. Atvinnuleysi á síðasta ári var 8,1%."

Hannes segir æskilegt að hagvöxtur verði byggður á fjárfestingum og auknum útflutningi en verði ekki knúinn áfram af aukinni einkaneyslu eins og Hagstofan geri ráð fyrir.

"Við erum sem sagt búin að ná botninum og erum að hökta þar, en kröftugur hagvöxtur er ekki sýnilegur. Það að setja fram einhverja sýn til tveggja, þriggja ára, sem byggist á því að einkaneysla fari á skrið án þess að útflutningurinn sé að aukast að marki og að það sé öflug fjárfestingabylgja í gangi - það er ekki trúverðugt."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 9. júlí 2011

Tengt efni:

Þjóðhagspá Hagstofunnar

Umfjöllun hagdeildar SA um hagvaxtarhorfur