Þörf á auknum fjárfestingum í atvinnulífinu - kærkomin fjárfesting í Straumsvík

Fjárfestingar í atvinnulífinu eru forsenda samkeppnishæfni og hagvaxtar. Án fjárfestinga skapast engin ný störf og grunnur þeirra sem fyrir eru veikist smám saman þar til þau hverfa að lokum. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar fram til 2008 voru fjárfestingar hér á landi að meðaltali á ári um 25% landsframleiðslunnar. Síðustu tvo áratugina hefur hlutfallið numið 21%. Í yfirstandandi efnahagskreppu hefur umfang fjárfestinga hrunið og á það jafnt við um fjárfestingar í atvinnulífinu, í íbúðarhúsnæði og um fjárfestingar hins opinbera. Árið 2009 námu fjárfestingar í heild 14% af landsframleiðslu og er áætlað að þær lækki í 12% á þessu ári. Fjárfestingar atvinnuveganna eru taldar hafa numið 7% af landsframleiðslu 2009 og 8% á þessu ári.

Því er ákvörðun Rio Tinto Alcan um að fjárfesta í aukinni framleiðslugetu og breytingum á framleiðsluferlum afar kærkomin. Á næstunni verður 40,6 milljörðum króna (357 m$) varið til aukningar framleiðslugetu og 16 milljörðum króna (140 m$) til breytinga á framleiðsluferli, eða samtals 56,6 milljörðum króna. Til samanburðar þá er áætlað að fjárfestingar atvinnuveganna verði liðlega 100 milljarðar króna árið 2010 þannig að umfang þessarar framkvæmdar einnar er helmingur af öllum fjárfestingum þessa árs. Framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun eru áætlaðar kosta 26,5 milljarða króna þannig að þessar fjárfestingar saman samsvara 80% af fjárfestingum atvinnulífsins á þessu ári.

Fyrirhuguð fjárfesting í álverinu í Straumsvík mun bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins og tryggja þau störf sem til staðar eru, auk þess sem aukinni framleiðslu mun fylgja nokkur fjölgun starfa. Þá mun fjárfestingin eðlilega skapa talsverða eftirspurn eftir þjónustu innlendra aðila á uppbyggingartímanum.

Ef snúa á vörn í sókn í atvinnulífi og vinna bug á atvinnuleysinu þurfa fjárfestingar, smáar og stórar, að aukast verulega. Fram hefur komið í könnunum SA meðal félagsmanna að viljinn til fjárfestinga er fyrir hendi ef hindrunum verður rutt úr vegi. Ýmis konar óvissa, háir vextir og gjaldeyrishöft hafa torveldað eðlilega uppbyggingu. Síðast en ekki síst skiptir miklu máli að hraðar hendur verði hafðar við endurskipulagningu á skuldamálum fyrirtækja. Flest bendir til þess að viðsnúningur verði ekki af krafti í efnahagslífinu fyrr en úrvinnsla á skuldamálum fyrirtækja verður langt komin. Fyrirtæki í óvissu um stöðu sína og framtíð eru ekki líkleg til þess að fjárfesta.