Þjónustuviðskipti innan EES – nýjar kröfur til erlendra fyrirtækja og íslenskra notendafyrirtækja

Þann 27. mars sl. tóku gildi ný lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007. Lögin gilda um fyrirtæki sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum og senda starfsmenn tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu. Þegar í hlut eiga erlendar starfsmannaleigur ber þeim einnig að gæta ákvæða laga um starfsmannaleigur nr. 139/2005.

Upplýsingaskylda erlendra fyrirtækja
Ef erlent fyrirtæki hyggst veita þjónustu hér á landi lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skal það veita Vinnumálastofnun upplýsingar um starfsemi sína og þá starfsmenn sem sendir verða til Íslands. Vinnumálastofnun getur óskað eftir afriti af þjónustusamningum og ráðningarsamningum. Upplýsingagjöfin er með rafrænum hætti á vefsetri Vinnumálastofnunar og fær fyrirtækið staðfestingu þess að upplýsingar hafi verið veittar. Þessari staðfestingu ber fyrirtækinu að afhenda notendafyrirtækinu hér á landi áður en þjónustan er veitt.

Ekki er skylt að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um starfsemi og starfsmenn þegar um er að ræða þjónustu sem felur í sér sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerð tækja og er ekki ætlað að vara lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum.

Sérstakur fulltrúi
Þau fyrirtæki sem veita þjónustu á Íslandi lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum og hafa hér að jafnaði sex starfsmenn eða fleiri skulu hafa fulltrúa hér á landi og tilkynna hann til Vinnumálastofnunar. Fulltrúinn kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins og hefur umboð til að veita upplýsingar og taka við stjórnvaldsákvörðunum og eftir atvikum stefnum þannig að bindandi sé fyrir fyrirtækið. Fulltrúi þessi getur verið úr hópi starfsmanna eða annar aðili hér á landi, t.d. hlutaðeigandi notendafyrirtæki, lögmaður eða ráðgjafarfyrirtæki.

Slysatryggingar
Starfsmaður sem starfar hér á landi í tvær vikur samfellt eða lengur skal vera slysatryggður og tekur tryggingin gildi þegar tveggja vikna samfelldum starfstíma hér á landi er náð. Í lögunum eru ítarleg ákvæði um trygginguna en hún er sambærileg slysatryggingu launþega sem íslenskum fyrirtækjum ber að kaupa vegna starfsmanna sinna. Við rafræna skráningu hjá Vinnumálastofnun ber erlendu fyrirtæki að staðfesta að starfsmenn njóti slysatrygginga. Þótt notendafyrirtækjum hér á landi sé ekki skylt að fylgjast með tryggingamálum fyrirtækja sem þau skipta við þá er eðlilegt að þau við samningsgerð veki athygli erlenda fyrirtækisins á þessari skyldu og komi því í samband við íslenskt vátryggingafélag.

Skyldur notendafyrirtækja
Notendafyrirtæki hér á landi ber að ganga eftir því að erlenda fyrirtækið afhendi því staðfestingu þess að það hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína skv. lögunum áður en þjónustan er veitt. Verði erlenda fyrirtækið ekki við þeirri beiðni skal notendafyrirtækið tilkynna um það til Vinnumálastofnunar. Notendafyrirtæki skal jafnframt láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar og gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að fylgjast með framkvæmd laganna, s.s. þjónustusamning.

Hér er hægt að nálgast lögin á íslensku og ensku sem og lög um starfsmannaleigur:

Lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.

Act on the rights and obligations of foreign undertakings that post workers temporarily in Iceland and on their workers' terms and condition of employment, No. 45/2007

Lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005 (án breytinga skv. 22. gr. laga nr. 45/2007)

Act on temporary-work agencies, No. 139/2005 (með breytingum skv. 22. gr. laga nr. 45/2007)