Þingeyingar undirbúa sókn í atvinnumálum

Mikill hugur er í Þingeyingum um þessar mundir en þeir eru tilbúnir að blása til sóknar í atvinnumálum. Mikil orka bíður þess að vera virkjuð á svæðinu en umhverfismat vegna virkjanakosta liggur senn fyrir. Það eru alls kyns tækifæri sem Þingeyingar vilja nýta svo hægt sé að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf á svæðinu. Áform um stóriðju eru vel þekkt en þar væri jafnframt hægt að stórefla ferðaþjónustu allt árið um kring og byggja upp smærri iðnfyrirtæki og margs konar þjónustu þeim tengd. Þá skyldi ekki gleyma öflugri matvælaframleiðslu fyrir norðan, í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi.

Frá fundi SA á Húsavík

Þetta kom m.a. fram á fundi Vilmundar Jósefssonar, formanns SA, og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, með fyrirtækjum í Þingeyjarsýslum sem fram fór á Húsavík í síðustu viku. Ljóst er að mikil þörf er á að stórefla atvinnulíf á Húsavík og í nágrenni en vegna takmarkaðra atvinnumöguleika hefur fólk flutt frá svæðinu. Nú er komið að ákveðnum þolmörkum í þeim efnum - sérstaklega vegna áforma ríkisstjórnarinnar um harkalegan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á Húsavík. Er það mál heimamanna að gangi hann eftir sé veruleg hætta á að samfélagið hrynji innan frá.

Frá fundi SA á Húsavík

Var það mál fólks á fundinum að með öflugri atvinnuuppbyggingu á Húsavík - sem tryggi ríkinu m.a. tekjur til að fjármagna heilbrigðisþjónustuna fyrir norðan - megi hins vegar snúa vörn í sókn. Það sé ekki eftir neinu að bíða.