Það verður að kveða verðbólguna niður

Sjö af hverjum tíu landsmanna hafa miklar áhyggjur af verðbólgu og orðið tímabært að kveða hana niður. Verðbólgan er ógn við lífskjör landsmanna en með samstilltu átaki er hægt að vinna bug á henni og halda aftur af verðhækkunum. Það mun lækka vexti, auka umsvif í efnahagslífinu, fjölga störfum og auka tekjur heimilanna.

Laun á Íslandi hafa hækkað þrefalt meira en í viðskiptalöndum okkar á síðustu sjö árum, en það hefur í raun engu skilað. Kaupmáttur launa í dag er minni en 2006 og ástæðan er einföld. Of miklar launahækkanir hafa leitt til verðbólgu sem hefur étið upp ávinninginn.

Samtök atvinnulífsins vekja þessa dagana athygli á því að við höfum val um hvert leið okkar liggur eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði:

Norðurlöndin hafa til dæmis farið aðra leið en Íslendingar og byggt upp betri lífskjör með minni hækkun launa og lægri verðbólgu.

Það er til mikils að vinna því íslensk heimili skulda 2.000 miljarða króna og er stærstur hluti þeirra skulda verðtryggður. Hvert prósentustig verðbólgunnar leggur 20 milljarða byrði á heimilin en 1% hækkun launa tryggir heimilunum 5 milljarða eftir skatta. Ávinningur heimilanna af 1% hjöðnun verðbólgu er því fjórfalt meiri en af 1% launahækkun.  Ávinningur skuldugra fyrirtækja af lækkun vaxta er líka mikill .

Seðlabankinn hefur bent á að 2% launahækkun á ári muni hafa mjög jákvæð áhrif. Vextir verða lægri, fjárfestingar taka við sér og hagvöxtur eykst. Tekjur heimilanna verða meiri eftir tvö ár með minni launahækkunum vegna meiri atvinnu.