Það þarf að uppfæra menntakerfið í Evrópu

Forseti BUSINESSEUROPE, Jurgen Thumann, beindi þeirri ósk til José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á ársfundi samtakanna í síðustu viku að menntakerfið í Evrópu verði styrkt þannig að það þjóni betur þörfum atvinnulífsins. Verði það ekki gert er lítil von til þess að nýsköpun nái að blómstra í álfunni, efnahagslífið taki við sér og atvinnuleysi minnki.

Meðal þess sem BUSINESSEUROPE leggja megináherslu á er að  samstarf atvinnulífs, skóla og starfsmenntastofnana verði aukið. Upplýsa þurfi nemendur betur um starfs- og tekjumöguleika í ólíkum atvinnugreinum að loknu námi. Þá sé mikilvægt að meta gæði menntunar út frá þeirri hæfni sem hún skilar fólki í stað þess að einblína á lengd námsins.

Líkt og Samtök atvinnulífsins hafa bent á í nýlegu riti, Uppfærum Ísland, þá þarf að auka verulega áherslu á nám í verk- og tæknigreinum en veruleg eftirspurn er eftir fólki með slíka menntun í evrópskum fyrirtækjum. Þrátt fyrir að 25,5 milljónir manna séu án atvinnu í Evrópu eru 4 milljónir starfa sem ekki tekst að manna - vegna þess að fólk skortir hæfni eða menntun til að sinna viðkomandi störfum. Þetta er dýrkeypt á tímum mikils atvinnuleysis.

Meðal ræðumanna á ársfundi BUSINESSEUROPE var Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, sem fjallaði um mikilvægi þess að koma efnahagslífinu af stað og Evrópu út úr kreppunni. Hann viðurkenndi þó að eftirspurn eftir lausnum til að tryggja að svo geti orðið væri meiri en framboðið.

BUSINESSEUROPE eru samtök atvinnulífsins í Evrópu en aðild að samtökunum eiga 41 samtök atvinnurekenda í 35 löndum, m.a. SA og SI. BUSINESSEUROPE er málsvari yfir 20 milljón fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum sem veita 120 milljón manns atvinnu.

Sjá nánar:

Umfjöllun á vef BUSINESSEUROPE

Uppfærum Ísland