Það er svigrúm til að lækka tryggingagjaldið

Tryggingagjald getur lækkað 2016 ef vilji er til þess á Alþingi. Raunverulegt svigrúm hefur myndast til þess að lækka gjaldið en þess í stað er ákveðið að auka útgjöld ríkisins. Rekstur ríkissjóðs mun kosta skattgreiðendur 120 milljörðum króna meira á næsta ári en árið 2013. Útgjöld ríkisins verða meira en einum milljarði hærri í hverri einustu viku árið 2016 en á þessu ári.

Fjárlaganefnd hefur kynnt tillögur um 300 breytingar á fjárlagafrumvarpinu 2016 fyrir aðra umræðu. Með þeim munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 11 milljarða króna frá því sem áður var gert ráð fyrir. Rekstrargjöld ríkissjóðs að frátöldum vöxtum á árinu 2016 munu þá nema 617 milljörðum króna. Útgjöldin munu vaxa um 60 milljarða króna frá fjárlögum 2015. Minnihluti fjárlaganefndar hefur enn háleitari hugmyndir og leggur til 17 milljarða útgjaldaaukningu til viðbótar og að skattar verði hækkaðir enn frekar til að fjármagna þá aukningu.

Kreppuskattar verði lækkaðir
Samtök atvinnulífsins telja að nú hafi svigrúm skapast í rekstri ríkisins til að afnema skatta sem hækkaðir voru í kjölfar hrunsins haustið 2008. Skattstofnar ríkissjóðs drógust mikið saman á árunum 2009-2010. Þá lækkaði tryggingagjaldsstofn (launagreiðslur) milli áranna 2008 og 2009 um 25% á föstu verðlagi og tekjuskattsstofn lögaðila hrundi. Skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar, sem þó voru harðlega gagnrýndar fyrir að ganga allt of langt, voru viðbrögð við þessari rýrnun skattstofnanna.

Nú horfir öðru vísi við. Tryggingagjaldsstofn hefur hækkað jafnt og þétt að raungildi allar götur frá árinu 2010 og er nú 50% hærri en 2009. Fjárlagafrumvarp 2016 gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af tryggingagjöldum verði 86 milljarðar króna sem er raunaukning um 28 milljarða króna frá árinu 2008. Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjöldum verða 12,3% af heildartekjum ríkissjóðs, samanborið við 8,8% árið 2008. Tryggingagjaldsstofninn mun stækka mikið að raungildi á árunum 2016 og 2017 vegna mikillar aukningar kaupmáttar launa og fjölgunar starfa. Mikil stækkun stofnsins umfram aðra tekjustofna ríkisins og ásamt horfum á því að hlutdeild hans í tekjum ríkissjóðs aukist mikið á árunum 2015-2017 gefa fullt tilefni til lækkunar tryggingagjaldsins.

Afkoma atvinnulífsins hefur að sama skapi batnað og í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að tekjuskattar fyrirtækja verði að raungildi 17% hærri en á þensluárinu 2007.

undefined

Rökstuðningur fyrir miklum skattahækkunum síðustu ríkisstjórnar á ekki lengur við. Allir helstu skattstofnar ríkissjóðs hafa náð fyrri styrk og gott betur. Árlegar tekjur ríkisins af aukinni skattbyrði atvinnulífsins eru að mati Samtaka atvinnulífsins um 85 milljarðar króna. Það verður að lækka þessa kreppuskatta strax.  Á sama tíma og skattar eru lækkaðir þarf hins vegar að  huga að útgjöldum ríkisins og minnka þau en ekki gefa í. Þannig vinna ríkisfjármálin gegn hagsveiflunni en ýkja hana ekki.

Því hefur verið haldið fram að atvinnulífið hafi leitt launaþróun á vinnumarkaðnum en ekkert er fjarri sanni. Ríkið og sveitarfélög hafa haft forgöngu um gerð kjarasamninga við sína starfsmenn sem engar efnahagslegar forsendur voru fyrir. Hámarki náði þessi launastefna með gerðardómi um laun háskólamanna í sumar er leið.

Kjarni málsins er að svigrúm er til staðar til skattalækkana á atvinnulífið. Ríkisstjórnin vill frekar ráðstafa þessu svigrúmi sjálf til aukinna ríkisútgjalda en að atvinnulífið geti staðið betur til að auka framleiðni, stunda vöruþróun og nýsköpun og ekki síst ráða fleira fólk til starfa. Þegar horft er til tillagna stjórnarandstöðunnar blasir við að enginn fulltrúi skattgreiðenda á sæti á Alþingi.

undefined

Við endurskoðun kjarasamninga í febrúar leggja Samtök atvinnulífsins megináherslu á að stjórnvöld virði þær forsendur sem gengið var út frá þegar tryggingagjaldið var hækkað mikið árin 2009 og 2010 vegna kreppunnar, sem voru að það yrði lækkað á ný þegar efnahagslífið næði sér á strik. Sá tími er nú runninn upp. Atvinnulífið krefst þess að stjórnvöld virði þá langtímahugsun sem bjó að baki hækkun tryggingagjaldsins á sínum tíma, að það hækkaði tímabundið vegna kreppunnar og lækkaði á ný þegar henni væri lokið.