Það er líflegt á Litla Íslandi

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru mikilvæg uppspretta nýrra starfa og hugmynda. Það staðfesta nýjar hagtölur sem Hagstofa Íslands hefur unnið fyrir Samtök atvinnulífsins.  Hátt í eitt hundrað þúsund manns vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og launagreiðslur þeirra eru um 2/3 heildarlaunagreiðslna í atvinnulífinu. Lítil fyrirtæki á Íslandi eru því talsvert stór og að þeim verður að hlúa.

Hagtölur um lítil og meðalstór fyrirtæki hafa ekki legið fyrir á Íslandi til þessa en Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að úr því verði bætt. Því fóru SA þess á leit við Hagstofuna að draga upp mynd af umfangi og mikilvægi þessara fyrirtækja. Sú mynd sem birtist er lífleg og björt og margt sem vekur athygli.

Hjá litlum fyrirtækjum (með færri en 50 starfsmenn) störfuðu t.d. 72 þúsund manns árið 2012 og þau greiddu um 44% heildarlauna í atvinnulífinu það ár eða 244 milljarða króna. Fyrirtæki sem í hagtölum eru nefnd örfyrirtæki með einn til  níu starfsmenn greiddu nærri 114 milljarða í laun 2012 og þar störfuðu um 42 þúsund manns. Það er ekki lítið.

Tölur Hagstofunnar sýna mikla  grósku í fyrirtækjaflórunni. Á hverju ári er mikill fjöldi fyrirtækja stofnaður og álíka fjöldi hættir starfsemi. Þannig voru 4.000 fyrirtæki starfandi árið 2012 sem ekki voru til árið 2010 og tæplega 3.900 fyrirtæki sem voru starfandi árið 2010 höfðu hætt starfsemi árið 2012. Nánast öll ný fyrirtæki eru örfyrirtæki en á þessu tímabili urðu rúmlega 100 lítil og meðalstór fyrirtæki til.

Á morgun fer fram Smáþing sem Samtök atvinnulífsins og sjö aðildarfélög SA standa að. Þar verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil fyrirtæki þar sem þau munu vinna saman óháð atvinnugreinum. Mikill áhugi er á þinginu og ljóst að lítil fyrirtæki á Íslandi hafa ákveðinn meðbyr. Ný könnun Capacent sýnir til dæmis að nær allir Íslendingar eru jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja. Það hlýtur að veita þeim byr í seglinn.

Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að rúmlega helmingur þjóðarinnar telur að starfsumhverfi lítilla fyrirtækja sé slæmt og aðeins einn af hverjum fimm telur að það sé gott. Þessu má hins vegar breyta og brýnt að hefjast þegar handa við að bæta starfsumhverfi fyrirtækjanna.  Um leið og það verður gert mun störfum taka að fjölga verulega á ný, atvinnuleysi minnka, fjárfestingar aukast og lífskjör fólks batna með auknum umsvifum í atvinnulífinu. Hvar vöxturinn mun verða er ekki hægt að segja til um en með því að hafa jarðveginn frjóan og rífa burt arfa verður afraksturinn góður.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja er ljóst hvar hefja skal leikinn, en þau telja skattkerfið og háan fjármagnskostnað standa vexti fyrirtækjanna helst fyrir þrifum.

Framúrskarandi rekstrarskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi leggja grunninn að þróttmiklu atvinnulífi og betri lífskjörum landsmanna.

Sjáumst á Smáþingi.

Þorsteinn Víglundsson

Af vettvangi í október 2013