Tekjur forstjóra í tekjublaði Frjálsrar verslunar 2014 hækkuðu að jafnaði um 4,8% - ekki 13%

Í frétt sem birtist á vef útgáfufélagsins Heims í tengslum við útgáfu tekjublaðs Frjálsrar verslunar í lok júlí 2014 var fullyrt að verulegt launaskrið hefði átt sér stað árið 2013 meðal forstjóra. Bornar voru saman meðaltekjur 200 hæstu forstjóranna á mánuði hvort árið og fékkst sú niðurstaða að þau hefðu hækkað úr 2,3 m.kr. í 2,6 m.kr. eða um 13%. Við þetta mat á launabreytingum hóps forstjóra er ýmislegt að athuga því meðaltekjur þeirra forstjóra sem taldir eru upp í tekjublaðinu og voru í sömu störfum bæði árin hækkuðu um 4,8%.

Hagstofa Íslands ber saman laun sömu einstaklinga í sömu störfum hjá sama fyrirtæki milli tveggja tímabila við mat á launabreytingum. Þegar launavísitölur hópa eru reiknaðar út er byggt á launahugtakinu regluleg laun, en það eru föst laun sem greidd eru við hverja launaútborgun. Ekki er byggt á greiðslum fyrir yfirvinnu eða öðrum óreglulegum greiðslum. Niðurstaða Hagstofunnar er að regluleg laun stjórnenda hafi að jafnaði hækkað um 5,4% milli áranna 2012 og 2013 samanborið við 6,1% meðalhækkun reglulegra launa í landinu. Regluleg laun forstjóra og aðalframkvæmdastjóra hafi verið 1.451 þús. kr. á mánuði og heildarlaun 1.629 þús.kr.

Í umfjöllun Heims um tekjur forstjóranna er aðferð Hagstofunnar ekki beitt. Samsetning forstjórahópsins er mjög ólík milli ára og þar sem starfaskipti eru mjög algeng í þessum hópi eru fjölmargir einstaklingar á listanum sem annað hvort hófu störf eða létu af störfum á árinu 2013.

Í ljósi umræðu sem fylgir útgáfu tekjublaðsins ár hvert um laun þeirra tekjuhærri er mikilvægt að skoða hvaða niðurstaða fæst með því að reikna út meðallaun og breytingu þeirra á grundvelli sömu einstaklinga í sömu störfum bæði árin, þ.e. beita aðferð Hagstofunnar við mat á launabreytingum. Samtök atvinnulífsins hafa nú gert það með því að slá inn tölurnar úr tekjublaðinu um tekjur forstjóranna bæði árin og borið saman sömu einstaklinga í sömu störfum.

Í tekjublaðinu á þessu ári voru 450 einstaklingar í hópi forstjóra í fyrirtækjum og 370 í tekjublaðinu árið 2013. Af þeim voru 311 á lista tekjublaðsins í sömu störfum bæði árin. Meðaltekjur þessara 311 forstjóra voru 1.646 þús. kr. árið 2013 samanborið við 1.570 þús. kr. árið 2012. Hækkun meðaltekna þeirra var því 4,8%. Þetta rímar mjög vel við niðurstöður Hagstofunnar.

Töluvert er um bæði miklar hækkanir og lækkanir tekna milli ára sem í mörgum tilvikum skýrast af óreglulegum tekjum á borð við innlausn kaupréttarsamninga. Þannig lækkuðu tekjur þriðjungs hópsins milli ára, eða hjá 103 af 311. Fjórtán einstaklingar hækkuðu um meira en 50% í tekjum milli ára og 5 lækkuðu um meira en 50%. Miðtala hækkana var 4,4%.

TBR1.jpg