Samkeppnishæfni - 

12. Janúar 2009

Takmarkaðir möguleikar til að auka útstreymi eftir 2012

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Takmarkaðir möguleikar til að auka útstreymi eftir 2012

Ísland er í þröngri stöðu gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og erfitt verður að sækja frekari heimildir vegna endurnýjanlegrar orku, sérstaklega í ljósi þess að iðnríkin beita nú miklum þrýstingi á þróunarríkin um að þau taki einnig á sig byrðar til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Þetta segir Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið og vísar til fyrirhugaðar verslunar með útstreymisheimildir á opnum markaði.

Ísland er í þröngri stöðu gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og erfitt verður að sækja frekari heimildir vegna endurnýjanlegrar orku, sérstaklega í ljósi þess að iðnríkin beita nú miklum þrýstingi á þróunarríkin um að þau taki einnig á sig byrðar til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Þetta segir Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið og vísar til fyrirhugaðar verslunar með útstreymisheimildir á opnum markaði.

Morgunblaðið birtir í dag ítarlega umfjöllun um ESB og umhverfismál. Í henni segir ennfremur:

"Það virðist einnig töluverður stuðningur við að hluti af þeim útstreymisheimildum, sem iðnríkin fái úthlutaðar, verði seldur á uppboðum eða tekið af þeim gjald. Meðal annars þess vegna er erfitt að sjá fyrir sér aukningu á heimildum til Íslands án endurgjalds."

Pétur segir loftslagssamninginn ekki taka yfir sjálfdæmi ríkja um nýtingu auðlinda sinna en þar sem ákveðið hafi verið að setja hámark á útstreymið megi segja að "stjórnvöld hafi í raun samþykkt þak á nýtingu orkulinda þar sem ekki verði lengra haldið í aukningu útstreymis en felst í þessum heimildum".

Eins og yfirdráttarheimild

Pétur vísar því næst til íslenska ákvæðisins svokallaða sem hann segir virka eins og "nokkurs konar yfirdráttarheimild gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna", þannig að ef það dragi úr almenna útstreyminu þá flytjist samsvarandi magn úr íslenska ákvæðinu yfir á almennt útstreymi Íslands.

"Gagnvart Loftslagssamningnum verður því 10% heimild Íslands ætíð að fullu nýtt," segir Pétur, sem álítur að samningsstaðan verði erfið.

"Ísland hefur enn vakið athygli á sérstöðu sinni og ákvæðinu sem samþykkt var við gerð Kýótó-bókunarinnar en það er alveg ljóst að það verður mjög erfitt að sækja einhverja aukningu á 10% ákvæðinu og einnig íslenska ákvæðinu. Þannig má búast við því að nýtt samkomulag verði til þess að möguleikar til að auka útstreymi hér á landi eftir 2012 verði mjög takmarkaðir."

Inntur eftir þætti ESB í samningaumleitunum í loftslagsmálum segir Pétur sambandið annast samninga aðildarríkja gagnvart Loftslagssamningi SÞ.

"Sambandið kemur fram fyrir hönd þeirra allra og reyndar einnig fyrir hönd þeirra ríkja sem sótt hafa um aðild að sambandinu. Fulltrúar stjórnvalda aðildarríkjanna taka mismikinn þátt í samningaferlinu en sérfræðingar sambandsins og aðildarríkjanna vinna náið saman um útfærslu einstakra þátta."

Áhrif aðildar að ESB

Pétur segir íslenska ákvæðið aðalatriðið í þessari umræðu. "Lykilþátturinn varðar íslenska ákvæðið svokallaða en heimildir eins og íslensk stjórnvöld hafa úthlutað til orkufreks iðnaðar til ársins 2012 ganga vart inn í evrópska verslunarkerfið með kolefniskvóta (ETS) þar sem ekki er unnt að selja þær. Þar sem íslenska ákvæðið nær einungis til útstreymis koldíoxíðs en álverin losa auk þess svokölluð perflúorkolefni sem einnig eru gróðurhúsalofttegundir og falla því undir almennt útstreymi á Íslandi. Ef íslenska ákvæðið gilti óbreytt áfram yrðu fyrirtækin að fá úthlutaðar tvenns konar heimildir þar sem selja mætti hluta þeirra."

Með þetta í huga segir Pétur ljóst að ef ráðist verði í byggingu iðjuvera hér á landi sem losi gróðurhúsalofttegundir eftir að íslenska ákvæðið sé fullnýtt "gerist það vart án þess að keyptar verði heimildir af öðrum ríkjum eða þeirra aflað með sveigjanleikaákvæðum en slíkt gerir væntanlega samkeppnistöðu viðkomandi iðjuvers mjög erfiða".

"Þannig virðist blasa við að semja þurfi um að ESB aðstoði við að breyta íslenska ákvæðinu með einhverjum hætti í varanlegar heimildir og eins hvaða aðgang íslensk fyrirtæki eigi að potti ESB fyrir ný fyrirtæki í ETS-kerfinu. En á móti kemur að íslenskar orkulindir hjálpa til við ná 20% marki um endurnýjanlega orku árið 2020 í Evrópu," segir Pétur Reimarsson.

Samtök atvinnulífsins