Tækifæri á Codlandi en skatturinn gæti skemmt fyrir

Fjölmörg tækifæri eru innan íslensk sjávarútvegs til að auka verðmæti með fullvinnslu afurða. Þetta kom m.a. fram í máli Péturs Hafsteins Pálssonar, framkvæmdastjóra Vísis í Grindavík á fundi SA um skattamál 9. nóvember. Þar sagði hann m.a. frá verkefninu Codland en það er klasaverkefni fyrirtækja sem vinna verðmæti úr aukaafurðum. Þó eru blikur á lofti því aukin skattheimta stjórnvalda, m.a. stóraukin veiðigjöld, kippa stoðunum undan verkefni sem þessu þar sem meginhluti  ávinningsins af aukinni verðmætasköpun fer til ríkisins. Hvati til framþróunar og nýsköpunar verður því lítill sem enginn ef ekki verður breytt um stefnu.

Pétur segir að undanfarið hafi sjávarútvegsfyrirtæki átt góð samskipti við ýmsa frumkvöðla og fræðimenn sem hafi hingað til hafi ekki verið taldir tilheyra sjávarútveginum en gætu orðið mikilvægir drifkraftar til aukinnar verðmætasköpunar. Á  Íslandi hafi  í auknum mæli verið unnið úr aukaafurðum eins og hausum, beinum, lifur og öðrum innmat.

Pétur Hafsteinn Pálsson

"Samstarf útgerða og tæknifyrirtækja hefur leitt til betri meðhöndlunar og nýtingar þorsksins á umliðnum áratugum ásamt því að í skjóli kvótakerfis og samtengingu veiða og vinnslu hefur markaðssetning verið betri á íslandi en annars staðar fram að þessu.

Það hefur skilað okkur talsvert hærra verði fyrir þorsk upp úr sjó en samkeppnisþjóðum okkar. Þetta samkeppnisforskot hefur verið að minnka undanfarið og þurfum við virkilega að líta í eigin barm og bregðast við ef við ætlum að halda því forskoti bæði á markaðshliðinni og framleiðsluhliðinni.

Miðað við að nýting þorsksins á Íslandi sé einhversstaðar á milli 60 % og 70% ætla ég að ganga úr frá því hér að hver 5 kg fiskur sé seldur á 2.000 kr stykkið. Það er ekkert endilega þessi tala sem er viðfangsefni dagsins heldur hvað hægt er að gera betur úr þessari dýrmætu auðlind."

Pétur sagði að því stefnt að verðmæti 5 kg. þorks verði allt að 5.000 krónur. Að verkefninu Codland standa fyrirtækin, Norður, Ensímtækni, Efnaferli, Icewest, Þorbjörn, Vísir og Bernskan en fleiri eru á hliðarlínunni og fylgjast með framgangi mála.

Pétur tók dæmi um nýja afurð, læknandi og græðandi áburð sem unninn er úr ensímum úr þorski og kallast CODDOC  sem Ensímtækni framleiðir. CODDOC hefur þann eiginleika að þegar áburðurinn fer úr 10 gráðu heitri túpunni og snertir 37 gráðu heita húðina fer virkni áburðarins af stað.

"Ef okkur tækist að framleiða  úr öllum okkar þorski slíka afurð yrðu til 20 milljónir flaskna sem seldust á 100 milljarða króna," sagði Pétur og bætti við að auka mætti útflutningsverðmæti sjávarafla og tengdra afurða verulega.

Pétur rakti fjárhagslegar forsendur Codland verkefnisins og nauðsynlegrar fjárfestingar sem fyrirtækin sem að því standa áforma:

"Á árunum 2012 og 2013 áætlum við að í þetta verkefni fari 300-400 milljónir hvort ár og síðan þarf að fjárfesta í framleiðslunni sjálfri og markaðastarfinu sem hvort tveggja er grýtt leið og vandfarin.

Gróflega má áætla að á þriggja ára tímabili þurfi fyrirtækin sem hér eru nefnd að fjárfesta 500 milljónir árlega eða samtals 1.500 milljónir kr. (varfærin spá).

Á þessum sömu þremur árum ætla stjórnvöld að senda  eigendum útgerðarfélaganna sem að þessu standa 3.000 milljóna króna reikning eða tvöfalda þá upphæð sem fjárfestingin kallar á.

Til viðbótar við 3.000 milljóna króna veiðigjald fylgir það loforð að ef okkur tekst ætlunarverkið, sem er  meira en tvöfaldun á afurðaverði þorsksins, þá þurfum við að gera ráð fyrir að 2.000 kr af þeim 3.000 kr sem bætast við framlegðina fari í ríkissjóð því það er innbyggt í lögin að hvort sem við bætum framlegðina með því að lækka kostnað eða hækka tekjur munu tveir þriðju árangursins fara skatta."

Að mati Péturs er afleiðingin af skattastefnu stjórnvalda því ljós ef ekki verður breytt um stefnu:

  • Verði veiðigjöldin að veruleika eins og þau blasa við mun aflið vanta til áframhaldandi fjárfestinga.

  • Takist að koma verkefninu af stað í nafni sjávarútvegsins mun skatturinn gera út af við reksturinn vegna innbyggðra skattahækkana.

Glærur Péturs H. Pálssonar