Sýnum fjölbreytni í forystu
Alþjóðaráðstefna Félags kvenna í atvinnurekstri, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands fór fram á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 13. maí. Ráðstefnan var liður í verkefni sem hófst með samstarfssamningi árið 2009 milli SA, Viðskiptaráðs, FKA, Creditinfo og fulltrúa allra stjórnmálaflokka um að auka hlutdeild kvenna í viðskiptalífinu. Fram kom á ráðstefnunni að konur eru enn í miklum minnihluta stjórnarmanna, þó stærstu fyrirtækin hafi aukið hlut þeirra síðustu árin.
Meðan rúmlega þúsund karlmenn sitja í stjórnum 300 stærstu fyrirtækja landsins, þá eru konurnar 196 í stjórnum sömu fyrirtækja. Hlutfall kvenna í varastjórnum fyrirtækja er þó ívið hærra, en þar eru 388 karlar varamenn og 123 konur. Þá voru einnig kynntar tölur úr könnun Creditinfo, en þar kom fram að einungis 24 konur eru meðal framkvæmdastjóra þessara sömu fyrirtækja á móti 291 karli.

Áhersla á góða stjórnarhætti
Rætt var um mikilvægi þess að leggja aukna áherslu á góða
stjórnarhætti og eftirfylgni við leiðbeiningar um
stjórnarhætti sem gefnar eru út af SA,Viðskiptaráði, og Nasdaq
OMX. Þá voru rædd tvö verkefni sem styðja við eftirfylgni við góða
stjórnarhætti og kynnt voru á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem fram
fór í febrúar síðastliðnum.
Annars vegar er það Fyrirtækjagáttin sem
ætlað er að auka gagnsæi í viðskiptalífinu, en á vef gáttarinnar
svara fyrirtæki spurningum varðandi stjórnarhætti, skil á
ársreikningi og hlutfall kynja í forystusveitum. Gáttin er opin
öllum fyrirtækjum og er gefin einkunn út frá hlutfalli skila
fyrirtækja á tilheyrandi upplýsingum.
Hins vegar er það
úttekt á stjórnarháttum sem er samstarfsverkefni SA,
Viðskiptaráðs og NASDAQ OMX og Rannsóknarmiðstöðvar um
stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Öllum fyrirtækjum gefst tækifæri
til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og
stjórnenda, en þannig má bæta eftirfylgni fyrirtækja við
leiðbeiningar um góða stjórnarhætti.
Aukin þátttaka kvenna í forystu
atvinnulífsins
Það var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem
opnaði ráðstefnuna og fagnaði hann því hversu vel fundurinn var
sóttur af bæði körlum og konum. Í máli hans kom fram að konur væru
atvinnulífinu afskaplega nauðsynlegar, en mikilvægt væri að koma
nýju fólki á framfæri með nýja sýn. Hann nefndi það einnig að aukin
þátttaka kvenna væri nauðsynleg til að draga úr þeirri einhæfni sem
einkennt hafi forystu atvinnulífsins hingað til.
Mari Teigen, doktor í félagsfræði og rannsóknarstjóri hjá
Rannsóknarstofnun í félagsvísindum í Osló kynnti í erindi sínu
reynslu Norðmanna af kynjakvótalögum eins og þeim sem taka gildi
hér á landi 2013. Frá árinu 2001 til ársins 2010 fór hlutfall
kvenna í stjórnum í Noregi úr 6% upp í 39%. Miklar breytingar hafa
átt sér stað í samsetningu stjórna þar í landi en samhliða aukinni
þátttöku kvenna hefur meðalaldur stjórnarmanna einnig farið
lækkandi. Að sama skapi hefur það ferli sem komið var á í mörgum
fyrirtækjum við val á stjórnarmönnum orðið mun faglegra og
gegnsærra. Hins vegar virðast áhrifin ekki skila sér til annarra
þátta í rekstri fyrirtækja sem kynjakvótalögin ná ekki til, s.s.
hlutfall launa eða framkvæmdarstjórnar innan fyrirtækjanna, og kom
hún stuttlega inná það.
Mikilvægt að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, ræddi stefnu
Landsbankans sem er ætlað að jafna kynjahlutföll innan bankans.
Hann sagði frá því að ákvörðun hafi verið tekin um að jafna
kynjahlutföll við stjórn bankans og í dótturfélögum hans. Mikilvægt
sé fyrir fyrirtæki að taka slíkar ákvarðanir og fylgja þeim
eftir.
Liv Bergþórsdóttir kynnti sína reynslu úr atvinnulífinu, en auk
þess að vera forstjóri Nova situr hún í stjórn norsks
símafyrirtækis. Hún kynnti meðal annars tölur sem sýna að fjöldi
viðskiptamenntaðra kvenna hér á landi hefur aukist gríðarlega
síðustu árin. Þrátt fyrir skiptar skoðanir um lög varðandi
kynjakvóta benti Liv á að augljóst er að aukið hlutfall kvenna í
stjórnum fyrirtækja er tækifæri til að auka fjölbreytni, ásamt því
að virkja fleiri einstaklinga til góðra verka. Þá kom hún ennfremur
inn á það að með virkri eftirfylgni við leiðbeiningar um
stjórnarhætti fyrirtækja sé lagður grunnur að auknu trausti um
starfsemi fyrirtækisins.

Síðasti ræðumaður ráðstefnunnar var Benja Stig Fagerland, stofnandi og eigandi ráðgjafafyrirtækisins TalentTuning í Noregi. Hún benti meðal annars á það að víðsvegar um heiminn lægi óvirkjuð orka kvenna sem þyrfti að nýta. Fundarstjórn var í höndum Rakelar Sveinsdóttur hjá Creditinfo og Ásbjörns Gíslasonar forstjóra Samskipa, en það var Ingibjörg Gréta Gísladóttir í alþjóðanefnd FKA sem lokaði fundinum.
Glærur af fundinum:
Tengt efni í fjölmiðlum: