Svigrúm til 3-4% heildarlaunabreytinga

Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga var stofnuð með samkomulagi stærstu aðila á vinnumarkaði fyrir rúmu einu og hálfu ári. Að nefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag háskólamanna,  (BHM), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og Kennarasamband Íslands (KÍ). Vinnuveitenda megin eru það Samtök atvinnulífsins (SA), Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Markmið samstarfsins er að bæta vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og auka skilvirkni við gerð þeirra. Liður í þessu er útgáfa nýrrar ríflega 100 blaðsíðna skýrslu, sem kom út fyrir nokkrum dögum og ber heitið „Í aðdraganda kjarasamninga 2015: Efnahagsumhverfi og launaþróun.“

Fjallað er um skýrsluna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins en þar segir m.a.:

„Skýrslan er mjög umfangsmikil og mun vafalaust nýtast vel á næstu vikum og mánuðum en fjöldi kjarasamninga verður laus á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ríkir mikil óvissa vegna þessa.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, sat í vinnuhópi sem gerði skýrsluna. Hann segir stöðuna á vinnumarkaði vera sérstaka. Hér ríki mikill stöðugleiki og kaupmáttur hafi verið að aukast en á sama tíma bendi allt til að hér muni loga í verkföllum.

„Það sem við höfum vald yfir hér á Íslandi er verðbólgan eða launabreytingarnar,“ segir Hannes í samtali við Viðskiptablaðið. „Við getum haldið stöðugleikanum með skynsamlegum launabreytingum en nú eru uppi kröfur um tuga prósenta launabreytingar og menn hafa lýst því yfir að þessum kröfum verði fylgt af fullri hörku.  Flóabandalagið, sem getur ekki talist annað en einn af ábyrgari aðilum verkalýðshreyfingarinnar, hefur meðal annars verið með svona kröfur. Þessar kröfur eru tilkomnar vegna launabreytinga hjá kennurum, læknum og BHM-félögum hjá sveitarfélögum. Það er ekki verið að vísa til efnahagslegra forsendna, svigrúms eða afleiðinga og það skýtur skökku við. Þetta mat þeirra er félagslegt en ekki efnahagslagt.“

Spurður hvað það myndi þýða ef gengið yrði að þessum kröfum svarar Hannes: „Við þurfum ekki að búa til neitt teorískt dæmi um það. Við þekkjum mörg dæmi úr Íslandssögunni.Tuttugu prósenta launahækkun þýðir að kaupmáttur eykst ofboðslega og viðskiptahalli sömuleiðis og gengi krónunnar fellur einhvern tímann. Tjónið verður mikið og við munum sjá verðbólgu bæði vegna kauphækkana og gengisins eða innflutningsverðsins. Í kjölfarið mun atvinnulífið kippa að sér höndum. Fjárfestingar dragast saman og lánshæfismat þjóðarinnar versnar og við greiðum hærri vexti af okkar erlendu skuldum.“

Hannes segir að skynsamlega leiðin sé að gera kjarasamninga sem byggja á efnahagslegu svigrúmi atvinnulífsins í heild. „Við höfum margoft sagt að heildarlaunabreytingar geti ekki orðið mikið meiri en 3 til 4%.“ Í skýrslunni er meðal annars fjallað um stöðu íslenskra fyrirtækja og hvernig þau koma út í alþjóðlegum samanburði, meðal annars um vaxtakjör sem fyrirtækjum bjóðast.

Fjármagnskostnaður fyrirtækja ræðst af skuldum og vöxtum. Vaxtamunur milli Íslands og við- skiptalandanna er 4% á lánum til skamms tíma og 6% á lánum til langs tíma. Vaxtamunur á milli Íslands og helstu viðskiptalanda er því meiri en svarar til munar á verðbólgu og raunvextir eru þannig mun hærri hér á landi. Þetta þýðir að greiðslubyrði lána er umtalsvert meiri hér en í viðskiptalöndunum. Samkvæmt fjármálareikningum Hagstofu Íslands námu skuldir íslenskra fyrirtækja, annarra en fjármálafyrirtækja, um 1.905 milljörðum króna í árslok 2013. Ef miðað er við að meðalvaxtamunurinn sé 5% þá nema umfram vaxtagreiðslur íslenskra fyrirtækja 95 milljörðum króna á ári.

„Það er ekkert nýtt að vaxtamunurinn sé af þessari stærðargráðu. Skýringin á háum vöxtum hér er gjaldmiðilinn og sá óstöðugleiki sem verið hefur í efnahagslífinu, hvort sem gjaldmiðillinn er orsök eða afleiðing – hann er líklega hvort tveggja. Þessi mikli vaxtamunur heldur niðri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og kemur í veg fyrir ýmsar fjárfestingar, sem væru arðbærar miðað við lægra vaxtastig og heldur þannig aftur af vexti og lífskjörum.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu 19. febrúar 2015

Tengt efni:

Í aðdraganda kjarasamninga 2015 (PDF)