Sveitarfélögin leika nánast lausum hala

Í helstu niðurstöðum nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Hagstjórnarumhverfið og sambýli atvinnuvega, kemur m.a. fram að sveitarfélögin á Íslandi leiki nánast lausum hala. Hallarekstur þeirra og vaxandi útgjöld ýti undir uppsveifluna og breyting þurfi að verða á. Í niðurstöðunum kemur jafnframt fram að stjórn peningamála hafi verið of lengi að taka við sér, peningastefnan hafi ekki haft nægan stuðning af ríkisfjármálunum og nýjar aðstæður á fjármálamarkaði kunni að kalla á nýjan gjaldmiðil.

Kynning Tryggva Þórs Herbertssonar

Skýrsla Hagfræðistofnunar var unnin undir forystu Tryggva Þórs Herbertssonar. Skýrslan kom út þann 20. desember og kynnti Tryggvi helstu niðurstöður skýrslunnar í Húsi atvinnulífsins. Þær setti hann fram í fjórum liðum:

1. Stjórn peningamála var of lengi að taka við sér þegar ljóst var að mikið hagvaxtarskeið væri að hefjast. Seðlabankavextir hækkuðu of hægt og of lítið.

2. Peningastefnan hefur ekki haft nægan stuðning af ríkisfjármálunum. Vaxandi ríkisútgjöld og lækkun skatthlutfalla hafa ekki dregið úr þenslunni.

3. Sveitarfélögin leika nánast lausum hala. Hallarekstur sveitarfélaga og vaxandi útgjöld sveitarfélögin ýtir undir uppsveifluna. Hér þarf að verða breyting á, ef til vill með atbeina ríkisvaldsins.

4. Nýjar aðstæður á fjármálamarkaði kunna að kalla á nýjan gjaldmiðil, og þá væntanlega evru, ef hagstjórnin tekst ekki betur en að undanförnu.

Skýrslan var unnin að beiðni Samtaka atvinnulífsins (SA), Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), Samtaka fiskvinnslustöðva (SF), Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og Samtaka iðnaðarins (SI).

Skýrsla Hagfræðistofnunar (PDF-skjal).

Kynning Tryggva Þórs Herbertssonar (PPT-skjal).