Efnahagsmál - 

04. Júní 2008

Sveitarfélög gætu sparað milljarða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sveitarfélög gætu sparað milljarða

Sameining sveitarfélaga og betri stjórnun þeirra gæti reynst íbúum danskra sveitarfélaga gulls ígildi. Þetta sýnir ný úttekt DI, dönsku samtaka iðnaðarins, en samkvæmt henni gætu sveitarfélögin sparað sér allt að 10 milljarða danskra króna á ári. Þetta jafngildir ríflega 150 milljörðum íslenskra króna. Danskir sveitarstjórnarmenn þurfa að gæta vel að rekstri sveitarfélaga sinna því fari sveitarfélögin fram úr fjárheimildum eru framlög til þeirra skert sem því nemur ári síðar. Íslensk sveitarfélög gætu hagrætt um 3-5 milljarða á ári ef þau færu þá leið sem DI leggur til.

Sameining sveitarfélaga og betri stjórnun þeirra gæti reynst íbúum danskra sveitarfélaga gulls ígildi. Þetta sýnir ný úttekt DI, dönsku samtaka iðnaðarins, en samkvæmt henni gætu sveitarfélögin sparað sér allt að 10 milljarða danskra króna á ári. Þetta jafngildir ríflega 150 milljörðum íslenskra króna. Danskir sveitarstjórnarmenn þurfa að gæta vel að rekstri sveitarfélaga sinna því fari sveitarfélögin fram úr fjárheimildum eru framlög til þeirra skert sem því nemur ári síðar. Íslensk sveitarfélög gætu hagrætt um 3-5 milljarða á ári ef þau færu þá leið sem DI leggur til.

Mikið svigrúm til hagræðingar

Í úttekt DI er vísað til jákvæðrar reynslu Dana af sameiningu skattumdæma í landinu en árið 2005 voru 210 skattumdæmi sameinuð í 30. Við það minnkaði rekstrar- og stjórnunarkostnaður um ríflega þriðjung. Jákvæð reynsla hefur einnig hlotist af sameiningu sveitarfélaga, t.d. í Holbæk, en þar sameinuðust fimm sveitarfélög í ársbyrjun 2007. DI segir að ef sveitarfélög á landsvísu myndu fylgja eftir þessum jákvæðu fordæmum gætu dönsk sveitarfélög lækkað rekstrarkostnað sinn um 4-10 milljarða danskra króna á ári. Margar leiðir eru til hagræðingar, sveitarfélögin sem sameinuðust í Holbæk kaupa t.d. sameiginlega inn og við það lækkaði innkaupareikningur þeirra um 50 milljónir danskar á ári. Aðrar leiðir eru einnig færar til að straumlínulaga reksturinn, t.d. með því að nýta betur upplýsingatækni og rafræna þjónustu.

Nauðsynlegt að nýta fjármuni betur á Íslandi

Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á að nauðsynlegt sé að setja íslenskum sveitarfélögum sérstakar fjármálareglur eins og tíðkast í flestum OECD-ríkjum. Tekjur íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2008 eru áætlaðar um 185 milljarðar króna samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytis en heildarútgjöld 177 milljarðar króna. Tekjuafgangur er áætlaður 8 milljarðar.

Samfelldur taprekstur varð af rekstri íslenskra sveitarfélaga á árunum 1994-2004 en með auknum umsvifum í efnahagslífinu snérist dæmið við. Sveitafélögin nutu góðs af hækkun fasteignaverðs, fjölgun starfa og hækkun launatekna sem skilaði auknum tekjum af fasteignagjöldum og útsvari. Árin 2004 og 2005, jukust skatttekjur sveitarfélaga t.a.m. samtals um 24%. Ætla má að tekjur sveitarfélaganna muni hins vegar dragast saman á næstunni en tveir af þremur megin tekjustofnum sveitarfélaga, útsvar og fasteignaskattur, eru mjög næmir fyrir efnahagsástandinu. Því er viðbúið að nýta þurfi fjármuni betur til að reksturinn verði réttu megin við núllið. Með því að fara þá leið sem DI ráðleggur dönskum sveitarfélögum að fara - gætu íslenskir sveitarstjórnarmenn hagrætt í rekstri sínum um 3-5 milljarða króna á ári.

Samtök atvinnulífsins