Styrkja þarf innviði ferðaþjónustunnar

Það gengur vel í íslenskri ferðaþjónustu í dag og erlendum ferðamönnum sem hingað koma fjölgar stöðugt. Árlegur fjöldi þeirra sem hingað koma stefnir óðfluga í eina milljón. Það þarf hins vegar að styrkja innviði ferðaþjónustunnar, byggja betri vegi sem þola þennan mikla fjölda og bæta aðstöðu við fjölfarna ferðamannastaði svo þeir láti ekki á sjá. Þetta kom m.a. fram í máli Kjartans Ragnarssonar, forstöðumanns Landnámsseturs Íslands, á aðalfundi SA 2012. Kjartan sagði jafnframt að dreifa þurfi ferðamönnunum betur yfir landið og árið.

Kjartan vísaði til orða Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins og varaformanns SA, í ritinu Uppfærum Ísland, sem benti á að það eigi ekki eingöngu að horfa til fjölda erlendra ferðamanna sem hingað komi, tekjurnar sem þeir skili til landsins skipti ekki síður máli. "Við eigum að hugsa um að fá milljón af hverjum ferðamanni í stað þess að fá milljón ferðamenn en til að ná því verða innviðir að vera mjög traustir og þjónusta góð," sagði Grímur.

Þá sagði Kjartan að auka þurfi rannsóknir í greininni til að hún geti eflst og dafnað enn frekar.

Kjartan varpaði því upp að gjald væri tekið af ferðamönnum við mestu náttúruperlur landsins, t.d. Þingvelli, til að standa undir kostnaði við komur ferðamanna þangað. Hann sagði tækifærin í greininni vera mörg, ekki síst í tengslum við uppbyggingu á afþreyingu sem tengist sögu og menningu þjóðarinnar. Íslendingar verði að hafa eitthvað fleira að selja en gistingu.

 

Kjartan og hans samstarfsfólk er stórhuga, en á fundinum sagði hann frá nýju fyrirtæki sem stefnir að því að byggja upp náttúruböð við Hraunfossa og er verkefnið metið á um tvo milljarða króna.

Tengt efni:

Rætt við Kjartan í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Tillögur SA: Uppfærum Ísland