Styrkir innviðir forsendur öflugs atvinnulífs og blómlegrar byggðar

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að atvinnulífinu séu sköpuð sem best skilyrði um land allt þannig að frumkvæði og kraftur sem í fyrirtækjum og einstaklingum býr fái að njóta sín. Þannig geti atvinnulífið best staðið undir kröfum um aukinn kaupmátt og betri lífskjör. Þetta kom m.a. fram í erindi Péturs Reimarssonar, forstöðumanns hjá SA, á ráðstefnu Byggðastofnunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2014-2017 sem fram fór í gær. Hann segir styrka innviði forsendur öflugs atvinnulífs og blómlegrar byggðar.

"Þar sem styrkra innviða nýtur ekki við hnignar atvinnulífi, fólki fækkar, þjónusta versnar og þannig hefst atburðarás sem ekki verður snúið við með góðu móti. Einstakar atvinnugreinar þrífast ekki nema tryggður sé fjölbreyttur annar rekstur og þjónusta í næsta nágrenni. Þannig tengjast atvinnugreinar eins og sjávarútvegur, fiskvinnsla, ferðaþjónusta, ýmis iðnaður og þjónusta og mennta- og rannsóknastofnanir og njóta stuðnings hver af annari. Sé grunninum kippt undan einni grein líða fyrirtæki í öðrum greinum fyrir það og afleiðingar koma einnig fram í þróun mannfjölda og mannlífs."

Gjá milli landsbyggðar og höfuðborgar

Fulltrúar SA fóru í fundarferð hringinn um landið nú fyrr á árinu. Þar komu fram áhyggjur fólks af því að rafmagnið detti út í óveðrum, að netsamband sé ótryggt, að viðhaldi vega sé ekki sinnt og að það búi um sig öryggisleysi vegna samdráttar í heilbrigðisþjónustu. Fólk horfir á opinber störf hverfa á brott, hvort sem þau eru í löggæslu, skólum eða í heilbrigðisþjónustu. Fólk á landsbyggðinni sér jafnfram mikið fjármagn flutt frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar þar sem stjórnmálamenn ætla sér að útdeila fjármunum sem áður voru til ráðstöfunar úti á landi. Litlum hluta þeirra er svo skilað til baka í nafni sérstakra "sóknaráætlana". Gjá sé að myndast á milli landsbyggðar og höfuðborgar.

"Milljarðatugir eru teknir í veiðgjald úr útvegsfyrirtækjunum og látnir renna burt til ríkisins. Í mörgum sveitarfélögum stefnir í að sjávarútvegsfyrirtækin greiði veiðigjald sem slagar hátt í allar útsvarstekjur viðkomandi sveitarfélags. Fjármagn hverfur úr byggðinum og fólkið fylgir á eftir ef ekkert verður að gert."

Tækifæri til staðar
Þessari þróun sem lýst er hér að ofan þarf að snúa við en Pétur segir hugmyndaauðgi fólks engin takmörk sett og fjölmargir vilja stofna ný fyrirtæki og fá útrás fyrir athafnaþörf sína. Aðstæður til þess verði hins vegar að bæta verulega.

"Það verður að vera auðvelt fyrir fólk að stofna ný fyrirtæki. Þeir sem leggja fé og hugvit til að byggja upp rekstur verða að fá að njóta þess þegar vel gengur. Ýmsar hindranir eru nú í veginum. Tryggingargjald leggst þungt á lítil fyrirtæki, arðgreiðslur eru litnar hornauga og auðlegðarskattur dregur mátt úr fólki."

Fjárfestingar verði auknar
Samtök atvinnulífsins og margir fleiri hafa bent á að fjárfestingar í landinu eru nú í sögulegu lágmarki. Þetta á bæði við um fjárfestingar í atvinnulífinu og einnig um fjárfestingar hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Afleiðingin er sú að framleiðslutækin og innviðirnir eru að ganga úr sér. Og eftir því sem lengri tími líður lengist sá tími sem það tekur að endurheimta fyrri styrk.

"Fyrirtækin í samkeppnislöndunum halda áfram að bæta sig, fjárfesta í nýrri tækni, stunda öfluga nýsköpun og vöruþróun. Þau sem ekki fylgja með dragast aftur úr. Besta leiðin til að auka hagvöxt í landinu er að auka fjárfestingar og þá sérstaklega í útflutningsframleiðslunni. Með auknum umsvifum í atvinnulífinu aukast tekjur ríkis og sveitarfélaga, þau geta greitt niður skuldir og smám saman eykst geta þeirra til að sinna aukinni þjónustu."

Pétur segir forsendur til uppbyggingar öflugra fyrirtækja megi finna víða um land.

"Arðbær rekstur sem nýtir hugvit og aðrar auðlindir, skapar ný störf, greiðir góð laun og er byggður upp til langrar framtíðar leggur grunn að frekari uppbyggingu. Í kringum slík fyrirtæki gefast tækifæri til öflugrar þjónustu bæði af hálfu einkaaðila og eins af hálfu hins opinbera. Þetta má skýrt sjá á Austurlandi vegna álversins þar og tengdrar starfsemi. Því er mikil nauðsyn að stjórnvöld greiði, sem frekast er unnt, fyrir þeim sem hyggjast fjárfesta í nýjum öflugum fyrirtækjum. Samtök atvinnulífsins styðja eindregið fyrirhugaða uppbyggingu á Bakka við Húsavík og lög um stuðning við þær framkvæmdir.

Það er mikilvægt að hefjast þegar handa við að endurskoða lög um ívilnanir vegna fjárfestinga og afnema ýmsar hindranir sem eru í vegi erlendra fjárfesta sem vilja byggja upp atvinnurekstur hér á landi."

Til mikils að vinna
Ávinningur þjóðfélagsins af nýjum störfum er mikill. Sýnt hefur verið fram á að ávinningur hins opinbera af 5.000 nýjum störfum og efnahagslífsins alls sé um 20 milljarðar króna á ári.

"Þótt ekki sé um mikla sjóði að ræða hjá hinu opinbera um þessar mundir er nauðsynlegt að stefnumótandi byggðaáætlun fjalli um uppbyggingu innviða um allt land. Horfa verður í heild á uppbyggingu samgöngukerfisins, fjarskipta, mennta- og menningarstofnana, raforkukerfisins og opinberrar þjónustu um landið allt. Það verður að forgangsraða verkefnum þannig að fyrst verði ráðist í þau verkefni sem brýnust eru og skila mestum hagsbótum til þeirra sem njóta. Þess vegna er lykilatriði að byggðaáætlun verði til í samstarfi atvinnulífs, sveitarfélaga, stjórnvalda og einstaklinga. Ástæða er því til að þakka fyrir þessa ráðstefnu þar sem kallað er eftir mismunandi sjónarmiðum.

Hraðar og öruggar samgöngur eru nauðsynlegar til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart keppinautum sínum og eru einnig hluti af lífsskilyrðum íbúa. Það sama má segja um háhraðafjarskipti og raforkukerfið. Það hefur t.d. komið fram að raforkukerfið um austurhluta landsins er fullnýtt og stendur frekari uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum. Það er svolítið sérstakt ef einstök sveitarfélög geta staðið í vegi fyrir úrbótum á svo mikilvægum innviði fyrir jafn stóran hluta landsins og þarna er um rætt."

Menntun og menning mikilvæg
Samtök atvinnulífsins telja öfluga grunnmenntun vera forsendu þess að einstök landssvæði haldist í byggð og eflist. Þar er átt við leik- og grunnskóla og framhaldsmenntun fyrir ungmenni sem þau geta sótt frá heimili sínu. Einnig þurfa möguleikar til sí- og endurmenntunar og aðgangur að náms- og starfsráðgjöf að vera innan seilingar.

Öflug og afar mikilvæg menningarstarfsemi er einnig rekin um land allt. Þessi starfsemi byggir að langmestu leyti á frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja.

"Fjölmörg fyrirtæki hafa sprottið upp sem nýta sérkenni síns byggðarlags bæði í ferðaþjónustu, framleiðslu matvæla og annarrar vöru og þjónustu. Viðburðir tengdir einstökum byggðarlögum eru fjölmargir og víða er rekin öflug liststarfsemi. Þessir þættir atvinnulífsins eru ekki síður háðir öflugum innviðum og sterkum byggðakjörnum en annar atvinnurekstur."

Flugið styður við atvinnulífið
Öflugar flugsamgöngur til og frá höfuðborginni eru nauðsynlegar atvinnulífi um allt land. Fólk og fyrirtæki um allt land verða að eiga áfram greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem veitt er á höfuðborgarsvæðinu. Tryggja verður að nauðsynleg uppbygging við Reykjavíkurflugvöll geti átt sér stað.

Ábyrg efnahagsstefna nýtist öllum
Samtök atvinnulífsins hafa stutt eindregið við uppbyggingu samkeppnissjóða til að efla rannsóknir, nýsköpun og vöruþróun í fyrirtækjum. "Þessir sjóðir geta ekki síst nýst fyrirtækjum úti á landi. Víða hafa verið byggðar upp þekkingarmiðstöðvar. Þar kemur saman fólk með fjölbreyttan bakgrunn og þar getur skapast frjór jarðvegur fyrir hugmyndir og áform sem eiga rót að rekja til styrkleika einstakra landssvæða. Samstarf fyrirtækja og stofnana í Skagafirði og á Höfn eru frábær dæmi um þetta. Hvetja á til samtstarfs fyrirtækja, skóla og stofnana og úthluta fé til þeirra verkefna sem ætla má að geti skilað mestum árangri."

Pétur segir þetta styðja við fyrirtækin um allt land en mikilvægast sé að tryggja samkeppnishæf rekstrarskilyrði fyrirtækjanna. Þau hafa allt of lengi búið við óstöðugleika, háa vexti, sveiflukennt gengi krónunnar og mikla verðbólgu.

"Efnahagsstefna sem tryggir lága verðbólgu, stöðugt gengi, auknar fjárfestingar, góða afkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga og aukinn hagvöxt mun styrkja atvinnulíf um land allt og bæta lífskjör alls almennings. Þetta er mikilvægasta hlutverk stefnumótandi byggðaáætlunar 2014 - 2017."