Styrking krónu skilar sér í lægra verðlagi

Í yfirlýsingu sem birt er á heimasíðu ASÍ í dag lýsir Gylfi Arnbjörnsson furðu sinni á ummælum Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA, í Morgunblaðinu í gær vegna umfjöllunar um verðlagsþróun og gengissveiflur. Virðist forseti ASÍ lesa úr þeim ummælum þá skoðun SA að fyrirtæki eigi ekki að skila styrkingu á gengi krónunnar út í verðlag. Það er fjarri sanni. Í því samhengi er rétt að benda á að verðbólguhraði hefur minnkað umtalsvert á undanförnum mánuðum samhliða styrkingu krónunnar. Afar mikil fylgni er á milli verðlagsþróunar og breytinga á gengi krónunnar og á það ekkert síður við nú.

Frá byrjun september á síðasta ári fram til loka febrúar veiktist gengi krónunnar um 13% sem leiddi til umtalsverðrar verðbólgu. Svipaða þróun mátti einnig sjá veturinn 2011 til 2012 þar sem krónan veiktist talsvert og verðbólga fylgdi í kjölfarið. Með styrkingu yfir sumarmánuðina 2012 dró hins vegar verulega úr verðbólgu og mældist raunar verðhjöðnun tvo mánuði í röð, í júlí og ágúst í fyrra. Verðbólgu skotið nú varð minna en fyrir ári síðan og fátt bendir til annars en að það sé að ganga til baka með sama hætti og varð á síðasta ári.

Fyrirtækin eru því að skila gengisstyrkingu út í verðlagið og allar líkur á að við sjáum hér mjög lágar verðbólgutölur í sumar haldist gengið stöðugt.

Það veldur hins vegar áhyggjum að sjá hversu miklar sveiflur hafa verið á gengi krónunnar á þessum tíma, þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Svo miklar sveiflur leiða til óhjákvæmilega til mikilla sveiflna í verðlagi líkt og raunin hefur orðið. Almennt virðist gert ráð fyrir að þessi óstöðugleiki haldi áfram. Flestar greiningardeildir gera þannig ráð fyrir að krónan veikist á nýjan leik er líður á haustið og Seðlabankinn hefur sjálfur varað við því að þjóðarbúið standi ekki undir erlendum skuldbindingum sínum við núverandi aðstæður.

Það er því mikilvægt að ná tökum á þessum sveiflum í gengi krónunnar. Þær leiða til aukinnar verðbólgu, óstöðugs rekstrarumhverfis fyrir atvinnulífið og grafa undan kaupmætti almennings. Mikill samhljómur hefur verið með Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands hvað þetta varðar. Það er og verður áfram sameiginlegt verkefni okkar að stuðla að stöðugra efnahagsumhverfi hér á landi.