Stuðningur við starfsmenn fjármálafyrirtækja

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gert með sér samstarfssamning um eflingu atvinnusköpunar fyrir félagsmenn SSF. Samningurinn er gerður með stuðningi iðnaðarráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins.

Mikilvægt er að tryggja að starfsmenn sem nú hverfa frá störfum hafi einhver úrræði til atvinnusköpunar og geti komið nýsköpunarhugmyndum og frumkvöðlavinnu í farsælan farveg. Sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar munu styðja meðlimi SSF í mótun viðskiptahugmynda og veita þeim endurgjaldslausa handleiðslu varðandi stofnun fyrirtækja, stoðumhverfi nýsköpunar innanlands og erlendis og þá styrki sem í boði eru. Einnig mun Nýsköpunarmiðstöð setja á laggirnar verkefnið "Sérfræðingur til nýsköpunar" þar sem meðlimir SSF geta komið sérfræðiþekkingu á framfæri við fyrirtæki og stofnanir.

Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Anna Karen Hauksdóttir varaformaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Þór Sigfússon formaður Samtaka atvinnulífsins undirrituðu samstarfssamninginn föstudaginn 17. október.

Kynningarfundir um þjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir meðlimi SSF verða haldnir á næstu dögum. Áhugasömum er bent á að hafa samband með því að senda tölvupóst á ssf@nmi.is.

Sjá einnig: Vefur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands