Strangar kröfur gerðar til starfsemi olíuhreinsistöðvar

Að undanförnu hefur komið fram áhugi á að byggja olíuhreinsistöð hér á landi. Slík stöð mun þurfa að uppfylla ákvæði mjög umfangsmikilla lagabálka bæði á undirbúnings- og framkvæmdatíma og eins þegar sjálfur reksturinn hefst. Nefna má nokkur helstu lög og reglugerðir sem um slíkan iðnað gilda en það eru lög um mat á umhverfisáhrifum, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerð um mengunarvarnaeftirlit, reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerð um útstreymisbókhald og reglugerð um grænt bókhald. Almennt eru gerðar strangar kröfur um mengunarvarnir hér á landi og þess krafist að ný fyrirtæki beiti því sem kallað er besta fáanlega tækni við framleiðslu sína.

Kvóti á útstreymi gróðurhúsalofttegunda

Um almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefur Evrópusambandið sett á fót kvótakerfi með sérstakri tilskipun og hafa íslensk stjórnvöld staðið í viðræðum við framkvæmdastjórn sambandsins um upptöku tilskipunarinnar í íslensk lög til þess að sambærileg ákvæði gildi hér á landi og í ESB. Undir tilskipunina falla orkufyrirtæki sem nýta kol, olíu og jarðgas til orkuframleiðslu auk nokkurra annarra fyrirtækjaflokka. Eins og er falla nánast engin íslensk fyrirtæki undir tilskipunina en ljóst virðist að ákvæði hennar myndu ná yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá nýrri olíuhreinsistöð. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir því að unnt sé að stofna ný fyrirtæki og að þau fái úthlutað útstreymiskvóta án endurgjalds að mestu í samræmi við sínar þarfir. ESB bannar ekki fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum og ljóst að íslensk stjórnvöld munu eiga óhægt um vik við að koma slíku banni fram í andstöðu við ákvæði sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að því gefnu að ákvæði laga séu uppfyllt að öðru leyti. Búast má við að smám saman verði fyrirtækjum sem undir tilskipunina falla gert að draga úr útstreymi en ef það ekki tekst geta fyrirtækin  aflað sér viðbótarheimilda á markað.

Nýting sveigjanleikaákvæða

Annað mál er að útstreymi frá olíuhreinsunarstöð og annarri efnahagsstarfsemi hér á landi getur orðið meira en samræmist þeim skuldbindingum sem stjórnvöld hafa gengist undir samkvæmt svokallaðri Kyoto-bókun við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. En stjórnvöld hafa ýmis ráð til að bregðast við því til dæmis með svokölluðum sveigjanleikaákvæðum þar sem m.a. verkefni í þróunarríkum geta nýst til að draga úr nettóútstreymi á landinu og hjálpa þannig til við að uppfylla skuldbindingar samkvæmt samningnum. Mörg Evrópuríki hafa þegar nýtt sér þessi sveigjanleikaákvæði og munu gera það í auknum mæli á næstu árum.