Stórtíðindi í lítilfjörlegum búningi

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp til nýrra laga um gjaldeyrismál. Lagasetningin lætur ekki mikið yfir sér. Í grófum dráttum eru lögin hliðstæð þeim sem þegar eru í gildi. Hins vegar hefur stóra fréttin úr frumvarpinu af óskiljanlegum ástæðum flogið undir radarinn. Með lagasetningunni stendur nefnilega til að færa í lög varanlega heimild Seðlabankans, að fengnu samþykki ráðherra, til setningar gjaldeyrishafta gerist nauðsyn til.

Hagstjórn til þrautavara

Í umsögnum sínum um málið hafa Samtök atvinnulífsins ítrekað lýst yfir efasemdum sínum um ágæti þess að færa slíkar víðtækar og ótímabundnar heimildir í lög. Ljóst er að beitingu gjaldeyrishafta fylgir þjóðhagslegur kostnaður og velferðartap – tap sem allir landsmenn bera.

Höft hamla íslenskum fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni og torvelda fjármögnun, skapa hættu á eignabólu og draga úr skatttekjum ríkissjóðs ef hvati skapast til að færa verðmætasköpun frá landinu, svo nokkur atriði séu nefnd. Þegar lögum um svo mikilvægt málefni er breytt á þennan hátt er mikilvægt að ríkisvaldið hafi það í huga að haftasetning verði ekki of einföld í framkvæmd. Þess heldur er æskilegt að lágmarka alla hvata til þess að setja ótímabær höft. Það gefur augaleið að því auðveldari sem innleiðingin er því meiri hætta er á að gripið sé til afdrifaríkra neyðarúrræða, umfram tilefni.

Tryggja þarf að beiting hafta sé síðasta mögulega úrræði – hagstjórn til þrautavara. Gjaldeyrishöft eru og eiga að vera neyðarráðstöfun sem aðeins er unnt að grípa til þegar annarra kosta er ekki völ og skulu ávallt vera tímabundin. Neyðarúrræði kalla ekki á varanlega heimild í lögum.

Þegar en ekki ef?

Þó aldrei komi til þess að grípa þurfi til þessarar heimildar, verði hún færð í lög, getur sú staðreynd ein og sér að hana sé að finna í lögum haft neikvæð efnahagsleg áhrif. Það er ekki ofsögum sagt að orðspor Íslands sem fjárfestingakosts er litað af óstöðugleika og notkun á gjaldeyrishöftum. Auðfengnar heimildir til hafta á fjármagnsflæði eru ekki til þess fallnar að auka traust erlendra fjárfesta á íslenskum fjárfestingakostum. Öllu líklegra er að slíkt hafi fælandi áhrif á erlenda fjárfesta vegna óvissu um hvort treysta megi á að hægt verði að flytja fjármuni til og frá landinu.

Erlend fjárfesting getur styrkt efnahagslegar stoðir með því að stuðla að lægra vaxtastigi og veita aukin tækifæri til uppbyggingar. Þá er nauðsynlegt að erlendir aðilar hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi – ekki síst til þess að íslenskir lífeyrissjóðir geti fjárfest erlendis án þess að slíkar hreyfingar ógni gengisstöðugleika. Jafnframt dreifir erlend fjárfesting áhættu og eflir innlendan mannauð og getur þannig ýtt undir öflugra og fjölbreyttara hagkerfi.

Ætti því heldur að leita leiða til að bæta orðspor Íslands, styrkja umgjörð og stoðir; hvetja til fjárfestingar í stað þess að letja. Gengisstöðugleiki spilar þar stórt hlutverk en mikill árangur hefur náðst á því sviði á seinustu árum þökk sé sterkari efnahagslegum stoðum, meðal annars vegna tilkomu nýrra útflutningsgreina. Ekkert land getur gengið að stöðugleikanum sem vísum um ókomna tíð en kostnaðurinn við að viðhalda honum má ekki koma niður á fjárfestingu og framleiðslugetu hagkerfisins. Slíkt stríðir gegn upphaflegum ásetningi – tilgangurinn helgar því ekki meðalið í þessum efnum.

Skilaboðin sem frumvarpið sendir snúast ekki um það hvort fjármálastöðugleika verður ógnað, heldur gefa í skyn að slíkt sé óumflýjanlegt. Segja má að með því að lögfesta heimild á borð við þá sem lögð er til sé verið að gangast við því orðspori sem af landinu fer.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.