Efnahagsmál - 

09. Janúar 2003

Stóriðjuframkvæmdir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stóriðjuframkvæmdir

Á morgun verður ljós afstaða stjórnar Alcoa til orkukaupasamnings við Landsvirkjun og stóriðju-framkvæmda við Reyðarfjörð. Binda nú flestir vonir við að niðurstaða fyrirtækisins verði jákvæð og að í framkvæmdirnar verði ráðist.

Á morgun verður ljós afstaða stjórnar Alcoa til orkukaupasamnings við Landsvirkjun og stóriðju-framkvæmda við Reyðarfjörð. Binda nú flestir vonir við að niðurstaða fyrirtækisins verði jákvæð og að í framkvæmdirnar verði ráðist.

Góð tímasetning
Frá efnahagslegum sjónarhóli myndu þessar framkvæmdir fara af stað á mjög heppilegum tíma þótt stærðargráða þeirra sé slík að reyni á hagstjórn. Hægt hefur á í efnahagslífinu og flest bendir til að atvinnuástand haldi áfram að versna á næstu mánuðum, sbr. könnun SA meðal aðildarfyrirtækja sem fjallað er um í þessu fréttabréfi. Sú staðreynd hefur því rifjast upp fyrir landsmönnum að góð lífskjör og næg atvinna eru ekki eins sjálfsagðir hlutir og margir ætluðu á nýliðnu þensluskeiði.

Þurfum að auka útflutningstekjur
Íslendingar þurfa að auka útflutningstekjur sínar um nálega 5% á ári á næstu 10 árum ef við eigum að geta haldið þeim 2,5-3% hagvexti sem við höfum að jafnaði verið með undanfarna áratugi, og haldið okkar stöðu meðal þjóða í efnahagslegu tilliti. Gríðarleg erlend skuldasöfnun Íslendinga undanfarin misseri þrýstir einnig á um auknar útflutningstekjur. Engin frambærileg rök eru fyrir því að "eitthvað annað" geti í þeim efnum komið í stað nýtingar orkulinda þjóðarinnar til uppbyggingar stóriðju, þótt allri bjartsýni sé til skila haldið varðandi aðrar greinar. Í því sambandi hefur verið bent á að ef ferðaþjónusta á einungis að halda sinni stöðu hlutfallslega miðað við framangreinda aukningu, þarf ferðamönnum á ári á Íslandi að fjölga úr 300 þúsund í hálfa milljón manna. Væntanlega þarf svo einnig að velta fyrir sér ýmsum umhvefisspurningum varðandi þá þróun.

Ávinningur af orkusölu
Þá kröfu verður að gera til ráðamanna Landsvirkjunar að orkusala til stóriðju skili fyrirtækinu viðunandi ávinningi. Yfirlýsing eigendanefndar fyrirtækisins um yfirgnæfandi líkur á hagnaði gefur ekki tilefni til að ætla annað en að svo sé.

Leyfi til fyrirhugaðra framkvæmda liggur þegar fyrir að loknu lögformlegu mati á umhverfisáhrifum og þær njóta yfirgnæfandi stuðnings lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Engu að síður ber mikið á mótmælum umhverfissamtaka og einstaklinga og talsverð umræða hefur skapast um afskipti erlendra umhverfissamtaka af ákvörðunum íslenskra stjórnvalda.

Umhverfisumræða í einlitum farvegi
Að sjálfsögðu er við því að búast að skiptar skoðanir séu um svo þýðingarmikið málefni, en umræður um umhverfismál virðast í ákaflega einlitum farvegi á Íslandi. Mikið ber á einstrengingslegri afstöðu gegn öllu raski á náttúru landsins, en lítið fer fyrir málefnalegri umræðu um alla lykilþætti sjálfbærrar þróunar, þ.á m. um félagslega og efnahagslega þróun, og um innra jafnt sem ytra umhverfi fyrirtækja. Hafa aðilar á borð við Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfinguna og sveitarfélög af þessum sökum í raun orðið viðskila við þann umræðuvettvang sem áður var vísir að í umhverfismálum og er það miður.

Erlend umhverfissamtök
Íslendingar verða sem hluti af samfélagi þjóðanna að geta rökstutt fyrir umheiminum þær ákvarðanir sem þeir taka um nýtingu náttúruauðlinda sinna. Ekkert land er eyland í umhverfismálunum. Enginn á hins vegar eins mikið undir því í bráð og lengd að þær ákvarðanir séu ábyrgar og íslenska þjóðin. Óeðlilegt er að erlend samtök blandi sér um of í ákvarðanir fullvalda þjóðar um þessi málefni og kann það ekki góðri lukku að stýra eins og reynslan kennir.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins