Stórhækkun matarverðs ólíkleg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist í samtali við fréttastofu Útvarps hafa enga trú á að matarverði hækki um 30% á næstu vikum. Umsamdar launahækkanir í kjarasamningum geti skilað sér í 2-3%hækkun á matarverði. Vilhjálmur telur von á verðbólgugusu núna en hún gangi yfir á þremur mánuðum og verðbólgan verði svo mjög lág. Hann segir að öll fyrirtæki þurfi að gæta sín í verðákvörðunum því að eftirspurnin sé að minnka og muni gera það áfram. Ekki sé hægt að verðleggja vörur jafnhátt nú og á uppgangstímum.

Vilhjálmur segir inntak kjarasamninga hafa verið að forgangsraða launahækkununum til þeirra lægst launuðu. Mikið af starfsfólki ákveðins hluta verslunarinnar sé láglaunafólk sem og hluta matvælaiðnaðarins. Algengt að kostnaðarhækkun í verslun þar sem hann varð mestur sé um 8%. Launakostnaður sé hins vegar ekki nema 1/10 af matarverðinu. Innkaupsverð vöru sé stærsti hlutinn og það hafi hækkað. Síðan bætist gengislækkun krónunnar við.

Vilhjálmur segir það hafa verið ljóst í kjarasamningunum að kostnaðurinn af þeim  myndi koma mjög misjafnt niður og það hafi jafnframt verið ljóst að þau fyrirtæki sem tækju á sig mikinn kostnað þyrftu að fá ákveðið svigrúm til verðhækkana. Mjög mörg fyrirtæki þurfi hins vegar ekki að hækka neitt.

Hægt er að hlusta á frétt RÚV hér