Efnahagsmál - 

15. apríl 2010

Störfum gæti fækkað um 1.500 á almennum markaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Störfum gæti fækkað um 1.500 á almennum markaði

Helmingur aðildarfyrirtækja SA hyggst ekki gera breytingar á starfsmannafjölda á þessu ári en fjórðungur hyggst fjölga starfsmönnum og sama hlutfall fækka þeim. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar könnunar SA meðal aðildarfyrirtækja. Niðurstaðan bendir til þess að störfum á almennum vinnumarkaði fækki um rúmlega 1.500 á árinu.

Helmingur aðildarfyrirtækja SA hyggst ekki gera breytingar á starfsmannafjölda á þessu ári en fjórðungur hyggst fjölga starfsmönnum og sama hlutfall fækka þeim. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar könnunar SA meðal aðildarfyrirtækja. Niðurstaðan bendir til þess að störfum á almennum vinnumarkaði fækki um rúmlega 1.500 á árinu.

Könnunin og úrtakið

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 7.-14. apríl 2010 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfunum framundan um atvinnustig og fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.  Fjöldi svarenda var 355 og störfuðu 24.200 starfsmenn hjá viðkomandi fyrirtækjum. 45% fyrirtækjanna var með 10 starfsmenn eða færri, 33% með 11-50 starfsmenn og 22% með fleiri en 50 starfsmenn.

Niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild

Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingastarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Áætlað er að í þessum atvinnugreinum starfi um 87.000 manns um þessar mundir. Spurt var um áætlaða heildarbreytingu á starfsmannafjölda í fyrirtækjunum á árinu 2010. Niðurstöður voru þær að fjórðungur (24%) hyggst fjölga og annar fjórðungur (26%) fækka starfsmönnum en helmingur fyrirtækjanna áformar að starfsmannafjöldi verði óbreyttur.

Af fyrirtækjum sem hyggjast fjölga starfsmönnum áforma 86% að fjölga um innan við tíu starfsmenn, 10% að fjölga um 11-50 starfsmenn og 4% að fjölga um fleiri en 50. Í þeim hópi sem hyggst fækka starfsmönnum áforma tæplega 70% að fækka um innan við tíu starfsmenn, fjórðungur hyggjast fækka um 11-50 og 4% áformar fækkun um fleiri en 50 starfsmenn.

Þegar svör fyrirtækjanna eru vegin saman eftir stærð þeirra fæst sú niðurstaða að fjölgun starfsmanna hjá þeim fyrirtækjum í könnuninni sem hyggjast fjölga á árinu er 2,7% af heildar starfsmannafjölda en fækkunin hjá þeim sem áforma fækkun nemur 4,5%. Nettófækkun starfsmanna verður því 1,8% af starfsmannafjölda. Yfirfært á atvinnulífið í heild samsvarar þessi niðurstaða fækkun um rúmlega 1.500 starfsmenn í þessum atvinnugreinum á árinu. Launagreiðslur sem falla brott af þeim sökum nema um 8 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Í hótel og veitingastarfsemi er áformuð tæplega 5% fjölgun starfsmanna og um 1,5% fjölgun í fjármálaþjónustu. Mest fækkun er fyrirhuguð í sjávarútvegi, um 7%, um 3% fækkun í verslun og samgöngum, 1,5% fækkun í iðnaði og 1% fækkun í veitustarfsemi.

Samtök atvinnulífsins