Vinnumarkaður - 

21. júní 2005

Störfum fjölgar á ný

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Störfum fjölgar á ný

Fjöldi starfandi manna var 157.520 árið 2004, samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands, og fjölgaði um 1.840 frá árinu áður, eða sem nam 1,2%. Þetta er töluverður viðsnúningur frá síðustu árum en störfum fækkaði bæði árin 2002 og 2003, eða um 0,2% hvort árið. Störfum fjölgaði mest í byggingariðnaði, um 960 störf, en þar á eftir kom opinber stjórnsýsla þar sem fjölgaði um 380 störf og heilbrigðis- og félagsþjónusta þar sem fjölgaði um 300 störf. Þétt á eftir þessum greinum sem hið opinbera fjármagnar að langmestu leyti koma greinarnar verslun og viðgerðaþjónusta, fjármálaþjónusta og fasteigna- og viðskiptaþjónusta með tæplega 300 starfsmanna fjölgun hver. Það vekur athygli að störfum fjölgaði um 190 í fiskvinnslu. Þá fjölgaði störfum einnig í hótel- og veitingarekstri um 160. Á móti kemur að störfum í fiskveiðum fækkaði um 300, þannig að störfum fækkaði um 140 í sjávarútvegi. Í almennum iðnaði fækkaði störfum um 100 en almennum iðnaðarstörfum hefur fækkað ár frá ári síðan árið 2000. Loks vekur nokkra furðu að störfum fækkar í fræðslustarfsemi um 370 en hugsanlega er skýringin mismunandi flokkun milli ára þannig að það sem árið áður flokkaðist með fræðslustarfsemi flokkist nú með stjórnsýslunni og þannig sé samanlagður starsfmannafjöldi í stjórnsýslu og fræðslustarfsemi óbreyttur milli ári.

Fjöldi starfandi manna var 157.520 árið 2004, samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands, og fjölgaði um 1.840 frá árinu áður, eða sem nam 1,2%. Þetta er töluverður viðsnúningur frá síðustu árum en störfum fækkaði bæði árin 2002 og 2003, eða um 0,2% hvort árið. Störfum fjölgaði mest í byggingariðnaði, um 960 störf, en þar á eftir kom opinber stjórnsýsla þar sem fjölgaði um 380 störf og heilbrigðis- og félagsþjónusta þar sem fjölgaði um 300 störf. Þétt á eftir þessum greinum sem hið opinbera fjármagnar að langmestu leyti koma greinarnar verslun og viðgerðaþjónusta, fjármálaþjónusta og fasteigna- og viðskiptaþjónusta með tæplega 300 starfsmanna fjölgun hver. Það vekur athygli að störfum fjölgaði um 190 í fiskvinnslu. Þá fjölgaði störfum einnig í hótel- og veitingarekstri um 160. Á móti kemur að störfum í fiskveiðum fækkaði um 300, þannig að störfum fækkaði um 140 í sjávarútvegi. Í almennum iðnaði fækkaði störfum um 100 en almennum iðnaðarstörfum hefur fækkað ár frá ári síðan árið 2000. Loks vekur nokkra furðu að störfum fækkar í fræðslustarfsemi um 370 en hugsanlega er skýringin mismunandi flokkun milli ára þannig að það sem árið áður flokkaðist með fræðslustarfsemi flokkist nú með stjórnsýslunni og þannig sé samanlagður starsfmannafjöldi í stjórnsýslu og fræðslustarfsemi óbreyttur milli ári.

1.500 í einkageira, 300 hjá hinu opinbera
Sé atvinnugreinunum skipt í opinberan geira, þ.e. þær atvinnugreinar sem hið opinbera rekur eða fjármagnar að mestu; opinbera stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu annars vegar og einkageira, sem eru allar aðrar atvinnugreinar hins vegar, þá kemur í ljós að störfum í einkageiranum fjölgaði um 1.530 en í opinbera geiranum um 310. Næstum tvo þriðju fjölgunarinnar í einkageiranum má rekja til byggingariðnaðarins en fjölgunina í opinbera geiranum má líklega að mestu rekja til heilbrigðis- og félagsþjónustunnar.

Hlutfallslega svipuð fjölgun á landsbyggð og höfuðborgarsvæði
Sé litið til skiptingar fjölgunar starfa eftir landshlutum kemur í ljós að störfunum fjölgar um 1.050 á höfuðborgarsvæðinu, eða 1,2%, og um 630 utan þess, sem er 1,1% fjölgun. Á höfuðborgarsvæðinu er mesta fjölgunin í einkageiranum í verslun og viðgerðarþjónustu þar sem fjölgaði um 380 störf. Fiskvinnsla á höfuðborgarsvæðinu kemur á óvart með 280 starfa fjölgun en fækkun í fiskveiðum er svipuð, eða 250 störf. Í mannvirkjagerð fjölgar um 220 á höfuðborgarsvæðinu en um 590 utan þess og gætir þar fyrst og fremst framkvæmdanna við Kárahnjúkavirkjun. Þá virðist aukningin í heilbrigðis- og félagsþjónustunni einkum eiga sér stað utan höfuðborgarsvæðisins.

Fækkun samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn
Niðurstöður um fjölda starfandi manna samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands eru nokkuð frábrugðnar niðurstöðum vinnumarkaðsrannóknar stofnunarinnar. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn fyrir árið 2004 voru starfandi menn í heild 156.200 og hafði fækkað um 700 frá árinu áður. Skýringin á þessum ólíku niðurstöðum er líklega sú að það tekur nokkuð langan tíma fyrir vinnumarkaðsrannsóknina að ná að endurspegla að fullu þær hröðu breytingar á vinnumarkaði sem orðið hafa á vinnumarkaði vegna virkjunarframkvæmda og mikils fjölda erlends starfsfólks sem starfar við þær. Þessi áhrif koma mun fyrr inn í staðgreiðsluskrá Hagstofunnar. Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknarinnar fyrir 4. ársfjórðung 2004 og 1. ársfjórðung þessa árs eru í betra samræmi við niðurstöður úr staðgreiðsluskránni þar sem starfandi mönnum fjölgaði um 3.100 og 3.500 þessa ársfjórðunga miðað við sömu ársfjórðunga árið áður.

Smellið á myndina


 

Samtök atvinnulífsins