Störf í stað verðbólgu

Öflugt atvinnulíf er grundvöllur góðra lífskjara, jafnt vinnandi fólks sem lífeyrisþega. Á því byggir kaupmáttur og velferð heimilanna. Fyrirtæki fjárfesta ekki ef þau búa við slæm skilyrði.  Þá fjölgar störfum ekki og smám saman minnkar samkeppnishæfni atvinnulífsins og tekjur heimilanna dragast saman. Fjárfestingar fyrirtækja á Íslandi síðustu ár eru minni en um áratuga skeið og mjög lágar í samanburði við samkeppnislöndin. Þetta ber því órækt vitni að starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja þarf að bæta. Að öðrum kosti er tómt mál að tala um aukinn kaupmátt og að lífskjör heimilanna batni á komandi árum.

Meginviðfangsefni kjarasamninganna framundan er að stuðla að bættum starfsskilyrðum atvinnulífsins þannig að það geti vaxið og staðið sig í samkeppni við erlenda keppinauta.  Samningsaðilar geta stuðlað að því að störfum fjölgi, verðbólga hjaðni, vextir lækki og kaupmáttur atvinnutekna heimilanna  aukist. Til að það takist þarf skýra framtíðarsýn og samræmda afstöðu samtaka aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Niðurstaða samninganna gæti samt stuðlað að hinu gagnstæða; að verðbólga verði áfram langt yfir markmiði Seðlabankans, vextir fari hækkandi, greiðslubyrði skuldugra heimila aukist, fjárfestingar fyrirtækja verði enn um sinn í sögulegu lágmarki, störfum fjölgi ekki og atvinnuleysi fari vaxandi á ný.

Ætla mætti að valið á milli þessara kosta væri ekki erfitt. Spurningin er hins vegar hvort unnt sé að skapa víðtæka samstöðu aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda um langtímahagsmuni heimilanna eða hvort skammtímasjónarmið verði ríkjandi með kjaraátökum og meðfylgjandi tjóni fyrir alla þegar fram í sækir.

Nýjar hagtölur frá Hagstofu Íslands valda vonbrigðum og staðfesta að íslenskt efnahagslíf er í hægagangi. Á fyrstu sex mánuðum ársins dróst fjárfesting saman um 13% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði seinasta árs.

Við þessu þarf að bregðast og örva fjárfestingar með því að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja. Meðal mikilvægustu þáttanna er hagstætt skattalegt umhverfi, efnahaglegur stöðugleiki, lág verðbólga og lágir vextir. Störfum mun ekki fjölga á Íslandi nema umsvif í atvinnulífinu aukist. Án aukinna fjárfestinga úreldast tæki og tól, nýsköpun verður takmörkuð og Íslendingar dragast hratt aftur úr öðrum þjóðum.

Eitt fárra jákvæðra einkenna í atvinnulífinu er minnkandi atvinnuleysi á undanförnum misserum. Í júlí sl. var atvinnuleysið 4% en var 8% í júlí 2009 og hefur því minnkað um helming á fjórum árum. Að verulegu leyti má þakka það vel heppnuðum úrræðum á  vinnumarkaði en um 3.000 manns fallið af atvinnuleysisskrá vegna sérstakra átaka en þar eru helst sk. "Vinnandi vegur" og "Nám er vinnandi vegur". Skapa þarf ný störf fyrir þann stóra hóp sem hefur sótt sér aukna menntun og hæfni á meðan atvinnuleit stendur auk þeirra fjölmörgu sem eru án vinnu í dag  eða hafa flutt erlendis tímabundið í leit að vinnu. Það er til mikils að vinna en Samtök atvinnulífsins hafa bent á að tekjur ríkisins aukast um 20 milljarða á ári við sköpun 5.000 nýrra starfa. Fyrir ríkissjóð í fjárþörf er vænlegast að stuðla að fjölgun skattgreiðenda og auknum umsvifum í atvinnulífinu.

Kjarasamningar á almennum og opinberum vinnumarkaði munu ráða miklu um það hvaða leið Íslendingar fara á næstu árum. Tækifæri eru til staðar sem verður að nýta en jafnframt hættur sem ber að varast. Á sama tíma þarf að leysa risavaxin verkefni. Þar ber hæst afnám gjaldeyrishafta, en höftin eru meinsemd sem valda Íslendingum miklu tjóni og grafa undan velmegun þjóðarinnar.

Þorsteinn Víglundsson.

Af vettvangi í september 2013