Stóraukið rannsóknastarf í þágu atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og Háskólinn á Bifröst hafa stofnað Rannsóknastofnun atvinnulífsins - Bifröst, en á vegum hennar verður unnið að margvíslegum rannsóknaverkefnum í þágu atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að leggja Rannsóknastofnuninni lið næstu tvö árin og skapa með því sterkan grunn fyrir stóraukið rannsóknastarf í þágu atvinnulífsins.

Rannsóknastofnun atvinnulífsins mun starfa sem sjálfstæð stofnun innan Háskólans á Bifröst og vera undir forystu rektors skólans.

Fyrsta verkefnið á vegum Rannsóknastofnunar atvinnulífsins verður að gera rannsókn á fyrirkomulagi kjarasamninga á Íslandi og ástæðum þess að ekki tekst jafn vel að samræma aukinn kaupmátt, betri lífskjör og lága verðbólgu eins og á öðrum Norðurlöndum. Þessi rannsókn verður byggð á vinnu og niðurstöðum sem fram komu í skýrslu sem aðilar vinnumarkaðarins gáfu út í maí eftir sérstaka kynnisferð til Norðurlandanna sl.vetur. Vonast er til að þessi rannsóknavinna á fyrirkomulagi kjarasamninga á Íslandi fæði af sér gagnlegar hugmyndir og tillögur um hvernig hægt sé að bæta vinnubrögð og árangur af starfi aðila vinnumarkaðarins í kjarasamningum.

Fleiri verkefni eru í deiglunni á vegum Rannsóknastofnunarinnar. Samtök atvinnulífsins og Háskólinn á Bifröst leggja áherslu á að fjölga þeim aðilum sem leggja Rannsóknastofnuninni lið þannig að starf hennar festist í sessi á næstu árum. Markmiðið er að rannsóknir og úttektir á vegum Rannsóknastofnunarinnar geti stutt við margvíslega framþróun í starfsskilyrðum og innviðum atvinnulífsins jafnframt því að efla menntun fólks sem kemur til starfa í íslenskum fyrirtækjum.

Háskólinn á Bifröst fær með þessu samstarfi afar mikilvægan stuðning frá Samtökum atvinnulífsins, sem auðveldar skólanum mjög að laða góða kennara og nemendur að skólanum og bæta gæði skólastarfsins sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að mennta fólk til leiðandi hlutverka í íslensku atvinnulífi og samfélagi.

Háskólinn á Bifröst starfar í nánum tengslum við íslenskt atvinnulíf og hinn veigamikli stuðningur Samtaka atvinnulífsins styrkir þau tengsl enn frekar.

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, skrifuðu undir samkomulag um  Rannsóknastofnun atvinnulífsins - Bifröst föstudaginn 27. september.