Stóra myndin

Kjaramál eru í deiglunni og launakjör einstakra hópa. Harkaleg átök eru boðuð þegar kjarasamningar á almennum markaði renna sitt skeið á enda um áramótin. Einstaka launahækkanir stjórnenda hafa verið nefndar sem dæmi um að hækka þurfi laun allra verulega. Þegar heildarmyndin er skoðuð kemur í ljós að heilt yfir hafa stjórnendur sýnt mikla ábyrgð. Tölur frá Hagstofu Íslands staðfesta að stjórnendur hafa hækkað hlutfallslega minna en meðallaun í landinu frá 2014 til 2016 sem eru nýjustu gögn sem til eru.


Fréttir undanfarinna daga ættu að vera tilefni til að hefja samtal milli lífeyrissjóðanna og stórra skráðra hlutafélaga, sem þeir hafa fjárfest í, um starfskjarastefnu fyrirtækjanna annars vegar og hluthafastefnu lífeyrissjóðanna hins vegar.

Allir verða að sýna hófsemd í sínum kröfum, stjórnendur fyrirtækja líka, og miklar launahækkanir stjórnenda tiltekinna fyrirtækja og stofnana eru ekki stefna Samtaka atvinnulífsins. Þær hjálpa ekki Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni við að tryggja varanlega kaupmáttaraukningu með reglulegum hóflegum launahækkunum, stöðugu verðlagi og lágri verðbólgu. Hóflegar kröfur eru allra hagur til langs tíma.

Fréttir undanfarinna daga ættu að vera tilefni til að hefja samtal milli lífeyrissjóðanna og stórra skráðra hlutafélaga, sem þeir hafa fjárfest í, um starfskjarastefnu fyrirtækjanna annars vegar og hluthafastefnu lífeyrissjóðanna hins vegar.

Ekki eftir neinu að bíða
Á síðasta degi febrúarmánaðar varð ljóst að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði myndu halda gildi sínu út árið. Fyrir vikið hækka lágmarkslaun í 300 þúsund krónur þann 1. maí næstkomandi eða um 7%, og eru almennar launahækkanir 3%. Núverandi samningar hafa skilað almenningi í landinu miklum kjarabótum enda hefur verðbólga haldist lág. Almenn kaupmáttaraukning á samningstímanum er 20% og kaupmáttur lægstu launa hefur aukist um 25%. Það munar um minna og er einstakur árangur í hagsögu landsins.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að sem fyrst verði hafinn undirbúningur að gerð nýrra kjarasamninga sem geti tekið gildi á fyrsta degi nýs árs. Að velja átök umfram frið, án þess að setjast að samningaborðinu og skilgreina hvað er til skiptanna, er óábyrgt. Eftir tímabil mikilla launahækkana eru mörg fyrirtæki komin upp að vegg. Tími hagræðingar er framundan og ný könnun meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins sýnir að fleiri en áður telja að aðstæður fari versnandi á næstu mánuðum þó svo að núverandi aðstæður séu góðar.

Hugsum hlutina upp á nýtt
Yfirvinna er landlæg á Íslandi en þekkist vart í nágrannalöndunum. Á þetta hafa SA bent og hvatt til breytinga svo fólk geti náð betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Liður í því er að hækka grunnlaun og minnka yfirvinnu. Með því móti geta foreldrar jafnað ábyrgð sína á heimilisstörfum. Segja má að endurskoðun á ósveigjanlegum kjarasamningum sé risavaxið jafnréttismál. Samtök atvinnulífsins vilja gjarnan feta nýjar slóðir í komandi kjaraviðræðum og hugsa hlutina upp á nýtt. Þegar stóra myndin er skoðuð eru allar forsendur fyrir hendi til að landsmenn geti notið góðra lífskjara næstu árin, ef réttar ákvarðanir verða teknar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í mars 2018.