Stóra lausnin í atvinnumálum þjóðarinnar er smá

Ef áform lítilla fyrirtækja á Íslandi um að skapa 14 þúsund ný störf á næstu 3-5 árum verða að veruleika munu launagreiðslur fyrirtækjanna aukast um 60 milljarða á ári. Það er því til mikils að vinna en hlutur ríkis og sveitarfélaga af þessum tekjum þegar allt er talið má áætla að lágmarki 37 milljarða á ári. Það má því segja að besta viðskiptáætlunin sem býðst Íslendingum á markaðnum í dag sé að bæta starfsumhverfi fyrirtækjanna svo þau geti vaxið og dafnað.

Í könnun sem gerð var fyrir Litla Ísland sl. haust kom fram að lítil fyrirtæki á Íslandi gætu hugsað sér að fjölga störfum um 14.000 á næstu 3-5 árum. Útreikningar Samtaka atvinnulífsins sem birtir eru í dag sýna að gangi þessi áform eftir munu launagreiðslur fyrirtækjanna aukast um 60 milljarða á ári og nema rúmlega 300 milljörðum á ári. Árið 2012 greiddu lítil fyrirtæki (með allt að 50 starfsmenn) 44% heildarlauna í atvinnulífinu eða 244 milljarða.

14.000 ný störf þýða ...

  • Launagreiðslur hækka um 60 milljarða

  • Tekjur hins opinbera af tekjuskatti og útvari hækka um 25 milljarða m.v. ca. 40% skatt

  • Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi hækka um 5 milljarða

  • Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti hækka um 7 milljarða vegna aukinnar neyslu

Af þessum 60 milljörðum fá ríkið og sveitarfélög að lágmarki 37 milljarða króna til baka, um tvo þriðju, en við bætast tekjur af vörugjöldum og tollum svo upphæðin er án efa hærri.

Til að áformin um vöxt geti gengið eftir er hins vegar verk að vinna við að bæta starfsumhverfið. Samkvæmt könnun Capacent fyrir Litla Ísland síðasta haust taldi rúmlega helmingur Íslendinga að starfsumhverfið lítilla fyrirtækja væri slæmt. Það sem lítil fyrirtæki telja helst takmarka vöxt sinn er skattkerfið, hár fjármagnskostnaður og skortur á fjármögnun, lítil eftirspurn og þung reglubyrði.

Lítil fyrirtæki eru ein helsta uppspretta nýrra starfa og með því að bæta starfsumhverfi þeirra má hleypa auknum krafti í atvinnulífið ásamt því að gera það fjölbreyttara og skemmtilegra. Full atvinna mun nást á fáum árum, fleiri tækifæri verða í boði fyrir þá sem eru í leit að vinnu, bótagreiðslur lækka og álögur á fyrirtæki minnka. Þá munu ríki og sveitarfélög eiga auðveldara með að fjármagna grunnþjónustu sína.

Stóra lausnin í atvinnumálum þjóðarinnar blasir því við - margt smátt gerir eitt stórt.

Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum.

Heimsæktu Litla Ísland á Facebook.

Stefnumót