Stöðugleikasáttmálinn - vegvísir út úr kreppunni

Vinna við að fylgja eftir stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní er þegar hafin. Mikilvægt er að hefjast strax handa vegna þess að mörg mikilvæg mál sem þarf að ljúka fyrir 1. nóvember næstkomandi eru umfangsmikil. Því þarf að taka vel til hendi til þess að leiða þau til lykta.

Fyrsti samráðsfundurinn með ríkisstjórninni var í gær, miðvikudaginn 8. júlí, og þar lögðu forsætis- og fjármálaráðherra fram ýmsar hugmyndir um vinnubrögð og um stöðu og áætlanir vegna framgangs einstakra mála. Ljóst er að ríkisstjórnin tekur stöðugleikasáttmálann alvarlega og vill vinna að markmiðum hans í samstarfi við aðra aðila að honum.

Þróun efnahagslífsins og atvinnumála á næstu misserum mótast mjög af því hvernig til tekst við að koma í framkvæmd lykilákvæðum sáttmálans. Sumt snýr að almennum starfsskilyrðum atvinnulífsins, s.s. vaxtastigi, endurreisn bankakerfisins með aðgangi að erlendu lánsfé og afnámi gjaldeyrishafta. Annað snýr að einstökum atriðum, s.s. framkvæmdum og fjárfestingum sem hægt er að koma af stað með samstilltum  aðgerðum. Árangursrík framkvæmd sáttmálans er ein helsta forsenda þess að hægt sé að koma hreyfingu á flæði fjármagns inn í landið, byggja upp framtíðarútflutning,  hækka gengi krónunnar og fjölga þar með störfum og bæta lífskjör þjóðarinnar.

Seðlabanki Íslands er ekki beinn aðili að stöðugleikasáttmálanum og reyndar má hafa af því áhyggjur hvort sú stofnun sé fullgildur aðili að íslensku samfélagi yfirleitt. Með ákvörðun sinni um að halda stýrivöxtum óbreyttum í júlí var bankinn að gefa gjaldeyrishöftunum sem hann stýrir algjöra falleinkun og hann tekur heldur ekki mið af viðleitni og áætlunum ríkisstjórnarinnar um að draga stórlega úr hallarekstri ríkissjóðs á næstu tveimur árum. Friður á vinnumarkaði virðist heldur ekki skipta bankann neinu máli. Á sama tíma og orka Seðlabankans fer í að reyna að herða höftin og auka viðurlög við sniðgöngu þeirra þá lækkar gengi krónunnar, reyndar eins og hagfræðin og reynsla annarra þjóða kenna. Eitt af markmiðum stöðugleikasáttmálans er að stýrivextir verði komnir í 9% fyrir 1. nóvember, og að aðrir vextir hafi lækkað samsvarandi, áður en meginþungi umsaminna launahækkana kemur fram.

Stórhætta er á einangrun íslenska bankakerfisins frá erlendum fjármálamörkuðum. Það yrði afar skaðlegt þar sem einkaaðilar og ýmsir opinberir aðilar sem flokkaðir eru til einkageirans skulda mikið í erlendri mynt. Ef standa þarf í skilum með þessi lán án þess að nýtt fé komi inn í landið til endurfjármögnunar eða til nýrra verkefna gerir það enn þyngri kröfu á afgang í viðskiptum við útlönd og þjóðhagslegan sparnað með tilheyrandi afleiðingum fyrir gengi krónunnar, atvinnu og lífskjör. Þessum lánum var nánast sleppt í útreikningum vegna efnahagsáætlunar stjórnvalda í samvinnu við AGS. Nú standa yfir samningar milli ríkisins og erlendra kröfuhafa um endurreisn bankanna og ríkisstjórninni og samningamönnum er ljóst hvað er í húfi.

Það gerir endurreisn bankanna erfiðari en ella er að samkvæmt neyðarlögunum hafa  innlán forgangsrétt í þrotabú banka sem þýðir að staða erlendra lánveitenda er verri en áður við nýjar lánveitingar til bankanna. Þetta þýðir að annað hvort getur þurft að stækka efnahagsreikninga bankanna frá því sem áður var áformað og taka inn erlendar eignir úr gömlu bönkunum eða reyna að stofna nýja banka til að ná inn erlendu lánsfé sem byggja ekki á innlánum nema í tiltölulega litlum mæli.

Samtök atvinnulífsins gengust fyrir sérstökum fundi fyrr í dag vegna álversins í Helguvík og tengdra fjárfestinga í orkugeiranum. Þar voru komnir saman fulltrúar margra þeirra aðila sem málinu tengjast. Á fundinum var farið yfir stöðu málsins og hvaða atriðum þurfi að taka á til þess að öllum hindrunum í vegi framkvæmda verði rutt úr vegi fyrir 1. nóvember. Þessar hindranir eru allnokkrar, og sumar erfiðari en aðrar, en allar eru engu að síður yfirstíganlegar ef vilji er fyrir hendi.

Í framhaldi af fundinum verður gert minnisblað um hvað þarf að gerast til þess að málið geti gengið fram og það lagt fyrir ríkisstjórnina. Gert er ráð fyrir framkvæmdum vegna álversins í Helguvík í þjóðhagsáætlun og öðrum áætlunum um efnahagsframvindu á næsta ári og því þar næsta. Til þess að þessar áætlanir geti gengið eftir er nauðsynlegt að ráðist verði í allar áformaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Eins verða sveitarfélög og aðrir sem um þessi mál véla að láta af hrepparíg og sérhagsmunum og líta til hagsmuna þjóðarbúsins í heild, almennings og fyrirtækja. Þessar framkvæmdir eru burðarás í fjárfestingu atvinnulífsins á komandi árum og ljóst að það verður verulegt áfall fyrir atvinnulífið, atvinnustigið og afkomu ríkissjóðs ef þær tefjast eða ná ekki fram að ganga.

Vinna vegna aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun framkvæmda, sem venjulega eru á vegum hins opinbera, er að fara af stað. Fólk hefur verið sett til verka og vonandi næst það markmið að ljúka samningum við lífeyrissjóði fyrir 1. september nk.

Stöðugleikasáttmálinn lætur e.t.v. lítið yfir sér sem slíkur en innihaldið er efnismikið. Sáttmálinn er lifandi plagg sem kallar á mikla vinnu af hálfu þeirra sem að honum standa. Þessi vinna fer vel af stað enda má engan tíma missa til þess að koma atvinnulífinu almennilega af stað fyrir næsta haust og vetur. Að öðrum kosti verður ástandið afar dapurt. Meginverkefnið er að láta hörmungaspárnar ekki rætast og að því þurfa allir að vinna.

Vilhjálmur Egilsson