25. júlí 2022

Stjórnvöld þriðji samningsaðilinn

Halldór Benjamín Þorbergsson & Hannes G. Sigurðsson

1 MIN

Stjórnvöld þriðji samningsaðilinn

Í tengslum við gerð hins þríhliða Þjóðarsáttarsamnings árið 1990, þar sem sameinast var um hjöðnun verðbólgu niður á svipað stig og í viðskiptaríkjunum, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu með sex fyrirheitum sem einkum snerist um verðlag. Árið 1992 fólu kjarasamningar í sér mjög litlar launahækkanir og árin 1993 og 1994 fólu þeir ekki í sér neinar launahækkanir, en á móti komu stjórnvöld með fjölda aðgerða til að styrkja kaupmátt launa. Úr fjölda loforða ríkisstjórna dró um síðustu aldamót en í kringum bankahrunið jókst fjöldi þeirra á ný. Á síðasta samningstímabili gaf ríkisstjórnin fleiri fyrirheit en nokkru sinni fyrr. Loforð ríkisstjórna til samningsaðila um margháttaðar breytingar á löggjöf hljóta að vera umhugsunarefni í ljósi þrískiptingar valdsins, sem og mikil fjölgun þessara loforða án þess að þau stuðli sjáanlega að hófstilltum kjarasamningum.

Besta niðurstaða kjarasamninga

Völdum fylgir ábyrgð og miklum völdum stéttarfélaga fylgir mikil ábyrgð. Undir þeirri ábyrgð verða þau að rísa í næstu kjaralotu. Annars fer illa. Ábyrgðin felst í því að víkja frá hefðbundnu hegðunarmynstri og stuðla að árangursríkri hjöðnun verðbólgu.

Besta niðurstaða næstu kjaralotu væri framlenging kjarasamninganna 330 sem í fælust hófstilltar launahækkanir og þríhliða samstarf heildarsamtaka og stjórnvalda um að koma verðbólgu í markmið Seðlabankans sem allra fyrst. Launabreytingar á samningstímabilinu yrðu einkum í formi launaskriðstryggingar umsaminna launataxta, þannig að þeir dragist ekki aftur úr almennri launaþróun. Opinberar aðgerðir í tengslum við kjarasamningana verði fáar en markvissar og beinist fyrst og fremst að stöðu þeirra sem lakast standa og ábyrgri efnahagsstjórn til að ná verðbólgumarkmiðinu. Í þessari leið fælist lágmörkun á stýrivaxtahækkunum Seðlabankans og lægstu mögulegu vaxtagreiðslur skuldugra íbúðakaupenda.

Kaupmáttur launa er mikill

Kaupmáttur launa jókst umtalsvert á yfirstandandi samningstímabili. Á þremur árum, milli aprílmánaða 2019 og 2022, jókst kaupmáttur launa skv. Hagstofunni um 8,6% og kaupmáttur lægsta launataxta um 9,7%. Það gerðist þrátt fyrir ýmis áföll sem urðu til þess að svigrúm til launahækkana minnkaði, t.d. á mælikvarða landsframleiðslu á íbúa, sem áætlað er að dragist saman 4% milli áranna 2019 og 2022.

Samkomulag um svipaða nálgun og samstaða náðist um við gerð Þjóðarsáttarinnar 1990 kemur öllum til góða og mest þeim lakast settu og hafa skuldsett sig á undanförnum árum vegna íbúðakaupa. Ef stéttarfélögin hyggjast knýja fram miklar krónutöluhækkanir, og elta liðna verðbólgu að auki, mun verðbólga aukast enn og verða illviðráðanleg. Það mun óhjákvæmilega leiða til mikilla vaxtahækkana með miklu tjóni fyrir heimilin og atvinnulífið.

Greinin í heild sinni birtist fyrst í Frjálsri verslun. Greinin er nú birt í fjórum hlutum með ítarefni. Fyrsta hluta greinarinnar má finna hér, annan hluta hér og þriðja hluta hér.

Halldór Benjamín Þorbergsson & Hannes G. Sigurðsson

Framkvæmdastjóri SA & Hagfræðingur og ráðgjafi Stjórnar SA