Stjórnendur fyrirtækja bjartsýnni en áður

Mikil breyting til hins betra hefur orðið á væntingum stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu á næstunni. Nú væntir helmingur stjórnenda þess að þær batni á næstu sex mánuðum en einungis 6% að þær versni. Þetta er ein af niðurstöðum könnunar Capacent á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í síðasta mánuði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann. Í sambærilegri könnun í mars síðastliðnum taldi aðeins rúmur fjórðungur stjórnenda að aðstæður yrðu betri eftir sex mánuði.

Bjartsýni ríkir í öllum atvinnugreinum og munur milli þeirra lítill. Bjartsýnastir eru stjórnendur í byggingariðnaði og fjármálastarfsemi, þá í sjávarútvegi og verslun, síðan í ferða- og flutningaþjónustu og loks í iðnaði. Stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu eru heldur bjartsýnni en á landsbyggðinni.

Smelltu á myndina til að stækka!

Aðstæður enn slæmar

Þótt stjórnendur sjái fram á betri tíma er mat þeirra enn sem fyrr að aðstæður séu slæmar í atvinnulífinu. Einungis 7% þeirra telja aðstæður góðar, 43% slæmar og helmingur að þær séu hvorugt. Þessi niðurstaða er þó heldur skárri en í síðustu könnun þegar 3% töldu aðstæður góðar og 60% slæmar.

Mikill munur er á mati stjórnenda á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu á núverandi aðstæðum. Á landsbyggðinni telja einungis 2% stjórnenda aðstæður góðar en 54% slæmar. Á höfuðborgarsvæðinu telja 9% stjórnenda aðstæður góðar en 40% slæmar.

Mat á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Lakast er matið í byggingariðnaði, þar sem enginn stjórnandi telur núverandi aðstæður góðar, og næst lakast í sjávarútvegi, þar sem 58% telja aðstæður slæmar en 5% góðar. Hæsta matið á aðstæðum er meðal stjórnenda í fjármálastarfsemi þar sem 14% telja aðstæður góðar en 41% slæmar.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 10.-30. maí 2013 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 437 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 273 þannig að svarhlutfall var 62,5%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.