Stjórnendur 400 stærstu í september 2021: Góð staða og batnandi horfur

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð í fyrri hluta september 2021. Fjórða bylgja heimsfaraldurs kórónuveirunnar hér á landi fór hjaðnandi á könnunartímanum, allflestir íbúar höfðu verið bólusettir gegn veirunni og sóttvarnaraðgerðir í afléttingarferli hérlendis sem erlendis. Sæmilegt ferðasumar var að baki og allar hagspár gerðu ráð fyrir bættum efnahag á næstu misserum.

Meta núverandi aðstæður mjög góðar

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hækkar enn frá háu gildi síðustu könnunar. Tæplega helmingur stjórnenda telur núverandi aðstæður góðar, 43% að þær séu hvorki góðar né slæmar en innan við 10% að þær séu slæmar. Í öllum þeim atvinnugreinum sem könnunin nær til telja mun fleiri stjórnendur að staðan sé góð en slæm og er mestur munur í byggingarstarfsemi og verslun. Þá telja hlutfallslega fleiri aðstæður góðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og í heimamarkaðsgreinum en í útflutningsgreinum.

60% telja að aðstæður fari batnandi

Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður batni en að þær versni á næstu sex mánuðum. Rúm 60% þeirra telja að aðstæður batni, innan við 10% að þær versni  en 30% að þær verði óbreyttar. Bjartsýni er almenn þótt hún minnki nokkuð frá síðastliðnu vori.

 

Stöðugur vöxtur í spurn eftir starfsfólki

Skortur á starfsfólki hefur vaxið jafnt og þétt á þessu ári. Fyrir ári síðan bjuggu 8% fyrirtækja við skort á starfsfólki en nú á hausmánuðum er hlutfallið 36%. Skortur á starfsfólki er langmestur í flutningum og ferðaþjónustu, þar sem drjúgur meirihluti fyrirtækja býr við skort á starfsfólki, og þar á eftir koma iðnaður og ýmis þjónusta þar sem um 40% fyrirtækja búa við skort.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 1.700 á næstu 6 mánuðum

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 28 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 34% þeirra við fjölgun starfsmanna, 9% við fækkun en aðrir óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 1,4% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn má ætla að störfum fjölgi um 1.700 á næstu sex mánuðum, þ.e. á tímabilinu september 2021 til febrúar 2022. Áætluð fjölgun er 2.300 hjá fyrirtækjum sem áforma fjölgun starfsfólks en áætluð fækkun er 600 hjá hinum.

Stjórnendur í þjónustugreinum, byggingarstarfsemi og iðnaði sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en stjórnendur í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi sjá fram á minnsta fjölgun.

 

Mikil hækkun aðfanga framundan og verðbólga yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3% og minnka úr 3,5% í síðustu könnun. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru einnig 3% og hafa verið þannig undanfarin tvö ár.

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 2,3% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 4,2%. Á ársgrundvelli nema þessar hækkanir 4,7% og 8,6%.

 

Vænta styrkingar gengis krónunnar

Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar styrkist um 1,5% á næstu 12 mánuðum. Það er svipuð niðurstaða og í könnuninni í febrúar síðastliðnum, eftir margra ára tímabil væntinga um lækkun gengisins.

Útlit fyrir mikla aukningu fjárfestinga atvinnuveganna 2021

Fjárfestingavísitalan, sem vísar til fjárfestinga ársins 2021, hækkar mikið og er á svipuðu stigi og árin 2015 og 2016 þegar hún náði sínum hæstu gildum. 31% stjórnenda áætlar að fjárfestingar aukist milli ára, 16% að þær minnki en 53% að þær verði svipaðar. Útlit er fyrir mikla aukningu fjárfestinga í iðnaði og flutningum og ferðaþjónustu og töluverða aukningu í öðrum greinum nema fjármálastarfsemi og sjávarútvegi.

Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu

Helmingur stjórnenda telur erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu en hinn helmingurinn að það sé ekkert vandamál. Nýting framleiðslugetu er mun hærri en síðustu tvö ár, en sambærileg við árið 2018.

Hagnaður eykst milli ára

Stjórnendur búast almennt við að hagnaður fyrirtækja aukist árið 2021, en hann minnkaði milli áranna 2019 og 2020. 47% stjórnenda búast við meiri hagnaði, 18% minni en 35% svipuðum. Búist er við auknum hagnaði í öllum atvinnugreinum.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Almennt er búist við aukinni innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum. Tæplega helmingur stjórnenda býst við að hún aukist, 45% að hún standi í stað og 8% að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem 57% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn þar en 7% við samdrætti.

Launakostnaður hefur langmest áhrif á verðbólgu

Stjórnendur eru á einu máli um þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu 6 mánuðum. Hækkun launakostnaðar vegur langþyngst þar sem 53% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni og 23% til viðbótar setja hann í annað sæti. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 30% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 26% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 26. ágúst til 16. september 2021 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 455 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 225, þannig að svarhlutfall var tæplega 50%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.