Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Útlit fyrir minnkandi fjárfestingar og óbreyttan starfsmannafjölda

Flestir stjórnendur telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar en þeim fjölgar mikið sem búast við að þær verði betri eftir sex mánuði. Framboð af starfsfólki er nægt en helst vottar fyrir skorti á starfsfólki í samgöngum, ferðaþjónustu og sérhæfðri þjónustu. Í heild gera stjórnendur ráð fyrir óbreyttum starfsmannafjölda næstu sex mánuði en að fjárfestingar á þessu ári verði minni en á árinu 2012. Verðbólguvæntingar stjórnenda eru óbreyttar, 4% næstu 12 mánuði og 5% eftir tvö ár og búist er við áframhaldandi veikingu krónunnar.

Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja, sem gerð var síðari hluta febrúar og byrjun mars 2013.

Aðstæður slæmar

Sem fyrr telur meirihluti stjórnenda aðstæður slæmar í atvinnulífinu. Nú telja 60% aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 68% í síðustu könnun sem gerð var í lok síðastliðins árs. Rúmur þriðjungur telur að þær séu hvorki góðar né slæmar en aðeins 3% að þær séu góðar. Nánast alger samhljómur er meðal stjórnenda í mati á núverandi aðstæðum, hvort sem litið er til atvinnugreina, stærðar fyrirtækja eða hvort um útflutningsfyrirtæki er að ræða eða ekki.

Mikil breyting á mati á aðstæðum eftir 6 mánuði

Mat stjórnenda á aðstæðum eftir sex mánuði er jákvæðara og hefur breyst mikið til hins betra undanfarna mánuði. Nú telja 28% að aðstæður batni en 14% að þær versni, en langflestir (58%) telja að þær verði óbreyttar. Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði, sem mælir mismun á fjölda þeirra sem telja að ástandið batni og þeim sem telja að það versni, hefur ekki verið hærri síðan árið 2004. Skýringin liggur bæði í fjölgun þeirra sem telja að aðstæður batni og fækkun þeirra sem telja að það versni. Staðan á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni er svipuð í þessu efni. Hlutfallslega flestir sjá fram á bata í fjármálaþjónustu en fæstir í sjávarútvegi og iðnaði. Heldur meiri bjartsýni gætir meðal minni fyrirtækja en lítill munur er á útflutningsfyrirtækjum og öðrum.

Vísitala efnahagslífsins


Nægt framboð af starfsfólki

Almennt er ekki skortur á starfsfólki að mati stjórnenda. Þó telja 12% þeirra skort vera á starfsfólki og gætir hans einkum í samgöngum og ferðaþjónustu og sérhæfðri þjónustu. Minni fyrirtæki finna fyrir skorti á starfsfólki í meira mæli en þau stærri en lítill munur er á landsbyggð og höfuðborgarsvæði í þessu efni eða hvort um útflutningsfyrirtæki er að ræða eða ekki.

Búist við óbreyttum starfsmannafjölda á næstunni

Starfsfólk fyrirtækjanna í könnuninni telur um 33 þúsund. Þegar svör stjórnenda eru vegin saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna fæst sú niðurstaða að starfsmannafjöldi þeirra muni standa í stað á næstu sex mánuðum. Þetta er heldur jákvæðari niðurstaða en í síðustu könnun þar sem fram komu vísbendingar um fækkun starfsfólks. Tæplega tveir þriðju stjórnenda búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 22% sjá fram á fjölgun en 13% fækkun. Búist er við mestri fjölgun starfsmanna í byggingariðnaði og veitum annars vegar og samgöngum og ferðaþjónustu hins vegar, en fækkun í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi.  

Er skortur á starfsfólki í þínu fyrirtæki?


Mikil ónýtt framleiðslu- og þjónustugeta

Tveir þriðju stjórnenda telja ekkert vandamál að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu, en tæpur þriðjungur telur það nokkurt vandamál. Staðan er nokkuð mismunandi eftir atvinnugreinum þar sem rúmlega 40% stjórnenda í byggingariðnaði og sérhæfðri þjónustu telja það nokkuð vandamál að bregðast við óvæntri eftirspurn en einungis 13% í verslun. Nánast allir stjórnendur (90%) telja að þessar aðstæður verði óbreyttar eftir sex mánuði.

Búist við svipuðum hagnaði árin 2013 og 2012

Tæplega helmingur stjórnenda býst við að hagnaður, sem hlutfall af veltu, á þessu ári verði svipaður og á síðasta ári, og jafnmargir að hann aukist og hann minnki. Horfurnar eru bestar í samgöngum og ferðaþjónustu en lakastar í iðnaði og sjávarútvegi og þar af leiðandi mun lakari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Horfurnar eru lakari hjá útflutningsfyrirtækjum en öðrum.

Væntingar aukast um framlegð

Heldur fleiri stjórnendur vænta þess að framlegð fyrirtækjanna, þ.e. EBITDA, aukist á næstu sex mánuðum en hún minnki, en helmingur býst við því að hún standi í stað. Þannig búast 30% þeirra við því að framlegð aukist, 48% að hún standi í stað og 22% að hún minnki. Horfurnar eru bestar í samgöngum og ferðaþjónustu og verslun, þar sem 38% stjórnenda búast við aukinni framlegð, en áberandi lakastar í sjávarútvegi þar sem einungis 6% stjórnenda búast við því.

Væntingar um aukna eftirspurn bæði innanlands og erlendis

Flestir stjórnendur búast við svipaðri eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum og verið hefur undanfarið, en fleiri búast við aukningu en samdrætti. Þannig búast 60% við óbreyttri eftirspurn, tæp 30% við aukningu en 10% við samdrætti. Búist er við mestri aukningu eftirspurnar eftir ýmissi sérhæfðri þjónustu, fjármálaþjónustu og samgöngum og ferðaþjónustu en útlit er fyrir óbreytta eftirspurn eftir afurðum sjávarútvegs og iðnaðar. Helmingur stjórnenda á von á því að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á innanlandsmarkaði verði óbreytt á næstu sex mánuðum en 40% að það hækki. Búist er við 1,8% verðhækkun að jafnaði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna og 3,6% hækkun aðfanga þeirra á næstu sex mánuðum.

Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum eru svipaðar og á innanlandsmarkaði. Rúmlega 30% stjórnenda telja að hún aukist, 50% að hún verði óbreytt en 13% að hún minnki. Búist er við mestri aukningu eftirspurnar í samgöngum og ferðaþjónustu og byggingariðnaði, en óbreyttri eftirspurn eftir iðnaðarvörum og minni eftirspurn eftir sjávarafurðum. Horfur um verð á útfluttri vöru og þjónustu eru hins vegar ekki góðar þar sem rúmur fjórðungur telur að verð lækki en 11% býst við hækkun. Sjávarútvegurinn sker sig úr í þessu efni þar sem tveir þriðju hlutar stjórnenda búast við lækkun afurðaverðs. Stjórnendur vænta 1,1% verðlækkun útfluttrar vöru og þjónustu að meðaltali á næstu sex mánuðum.

Fjárfestingar dragast saman á árinu

Fjárfestingar munu dragast saman á árinu samkvæmt þessari könnun. 22% stjórnenda sér fram á auknar fjárfestingar, 30% að þær minnki og tæpur helmingur býst við að þær verði svipaðar og árið 2012. Mest aukning fjárfestinga er áformuð í samgöngum og ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi og veitum, en horfur eru á miklum samdrætti fjárfestinga í sjávarútvegi og iðnaði. Áform um samdrátt fjárfestinga eru mun almennari meðal smærri fyrirtækja (með færri en 60 starfsmenn), en þeirra stærstu (með fleiri en 200 starfsmenn). Áform um samdrátt fjárfestinga eru áberandi meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Fjárfestingarvísitala í mars 2013

Vænta óbreyttra stýrivaxta

Stjórnendur búast við að stýrivextir Seðlabankans verði 6,2% eftir 12 mánuði (miðgildi 6,0%) en þeir eru nú 6,0%.

Væntingar um 4% verðbólgu

Að meðaltali búast stjórnendur við því að verðbólgan eftir eitt ár, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum, verði 4,0%. Þetta eru sömu verðbólguvæntingar og fram hafa komið í síðustu könnunum. Verðbólguvæntingar eru áberandi minnstar hjá stjórnendum í verslun sem búast við 3,0% verðbólgu að jafnaði. Eftir tvö ár búast stjórnendur við að verðbólgan, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs sl. 12 mánuði, verði 5,0%, sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnunum.

Vænta veikingar gengis krónunnar

Rúmur helmingur stjórnenda telur að gengi krónunnar veikist á næstu 12 mánuðum, þriðjungur að það verði óbreytt en 16% að það styrkist. Að meðaltali búast stjórnendur við 1,7% veikingu krónunnar. Væntingar um veikingu gengis krónunnar hafa samfellt komið fram í niðurstöðum þessarar könnunar síðastliðin tvö ár.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 21. febrúar til 14. mars 2013 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 464 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 283 þeirra þannig að svarhlutfall var 61%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Iðnaður, (2) sjávarútvegur, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.