Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Svartsýnir á 2013

Aðstæður í atvinnulífinu hafa farið versnandi sem og horfur á þessu ári. Tveir af hverjum þremur stjórnendum telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar og einungis 4% góðar, en aðrir að þær séu hvorki góðar né slæmar. Breytingin frá síðustu könnun í september 2012 er afgerandi en þá taldi innan við helmingur aðstæður slæmar. Þetta eru helstu niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja, sem gerð var um í desember 2012. Allir stjórnendur í byggingariðnaði telja aðstæður slæmar og tæp 90% stjórnenda í sjávarútvegi.  Nægt framboð er af starfsfólki og þeim fyrirtækjum fer fækkandi sem skortir fólk. Í  heild er búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum. Verðbólguvæntingar fara minnkandi en eru þó háar þar sem búist er við 4,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Aðstæður í efnahagslífinu eru slæmar

Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda telur aðstæður í atvinnulífinu slæmar og mikil fjölgun hefur orðið í þeim hópi undanfarna mánuði. Í desember síðastliðnum töldu 68% aðstæður slæmar samanborið við 48% í september 2012. Tæplega 30% telur þær hvorki góðar né slæmar en aðeins 4% að þær séu góðar. 80% stjórnenda á landsbyggðinni telja aðstæður slæmar, en 64% á höfuðborgarsvæðinu. Í öllum atvinnugreinum nema fjármála- og tryggingastarfsemi telur mikill meirihluti stjórnenda aðstæður slæmar. Allir stjórnendur í byggingariðnaði telja aðstæður slæmar og tæp 90% stjórnenda í sjávarútvegi. Hlutfallslega fleiri stjórnendur útflutningsfyrirtækja telja aðstæður slæmar en þeirra sem starfa á heimamarkaði og hlutfallslega fleiri stjórnendur stærri fyrirtækja telja aðstæður slæmar en þeirra minni.

Ekki horfur á bata á næstunni

Mikil breyting hefur einnig orðið á mati stjórnenda á horfum í efnahagslífinu á þessu ári. Mat Þeirra á aðstæðum eftir sex mánuði er nú mun lakara en undanfarin misseri og verður að leita aftur til ársins 2009 til að fá samjöfnuð við jafn lakar horfur. Í desember sl. töldu 31% stjórnenda að aðstæður versnuðu á næstu sex mánuðum samanborið við 19% í september 2012, 16% að þær batni sem er svipað hlutfall og í september en helmingur telur að aðstæður verði óbreyttar samanborið við 64% í september. Stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni eru nokkuð sammála um horfurnar þar sem litlu munar í svörum þeirra. Hlutfallslega fæstir stjórnendur í byggingariðnaði, sjávarútvegi og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu sjá fram á bata en hlutfallslega flestir í fjármálaþjónustu. Um 20% stjórnenda í iðnaði og verslun sjá fram á bata og um 10% í öðrum atvinnugreinum. Ekki er munur á mati stjórnenda eftir stærð eða markaðssvæðum fyrirtækjanna sem þeir starfa fyrir.

Smelltu til að stækka

Nægt framboð af starfsfólki

Nægt framboð er af starfsfólki í tæplega 90% fyrirtækjanna sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnunum. Enginn munur er á landsbyggð og höfuðborgarsvæði í þessu efni. Enginn skortur er á starfsfólki í sjávarútvegi, byggingar- og fjármálastarfsemi en skortur á starfsfólki er hjá 10-20% fyrirtækja í öðrum greinum. Stærð fyrirtækja og markaðssvæði skipta ekki máli í þessu efni.

Búist við lítilsháttar fækkun starfsmanna á næstunni

14% stjórnenda fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum en 20% við fækkun. Fjölgun starfsmanna er einkum líkleg í ýmissi sérhæfðri þjónustu og fjármálastarfsemi en fækkun í sjávarútvegi og byggingarstarfsemi. Enginn munur er á svörum stjórnenda eftir landssvæði eða markaðssvæði en hlutfallslega færri stór fyrirtæki áforma fækkun en þau smærri. Rúmlega 24 þúsund manns starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Af svörum stjórnenda má ætla að starfsmönnum þeirra fækki alls um 150 eða 0,6% á næstu sex mánuðum. Séu þær niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild gefa þær vísbendingum um að störfum fækki um rúmlega 500 á næstu 6 mánuðum. Þetta er lakari niðurstaða en í síðustu könnunum þar sem fram hafa komið horfur um óbreyttan starfsmannafjölda fyrirtækjanna.

Smelltu til að stækka

Eftirspurn minnkandi innanlands en aukning erlendis

Stjórnendur fyrirtækjanna búast að jafnaði við minnkandi eftirspurn á innanlandsmarkaði  þar sem 15% búast við aukningu, 19% búast við samdrætti en 66% við óbreyttri eftirspurn. Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum eru betri þar sem 33% stjórnenda búast við aukningu, 21% við samdrætti en 46% við óbreyttri eftirspurn. Þetta er þó mun lakari niðurstaða en í síðustu könnun.

Minnkandi verðbólguvæntingar

Að meðaltali búast stjórnendur við því að verðbólgan eftir eitt ár, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum, verði 4,0% samanborið við 4,1% í september og 4,7% í júní á síðasta ári. Verðbólguvæntingar hafa þannig farið minnkandi á undanförnum mánuðum þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi sigið á síðustu mánuðum ársins 2012. Miðgildi verðbólguvæntinga eftir eitt ár var 4,5%.

Smelltu til að stækka

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 29. nóvember til 19. desember 2012 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 370 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 207 þannig að svarhlutfall var 56%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.