Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Aðstæður slæmar og versnandi horfur

Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda fyrirtækja telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt nýrri könnun Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann. Samkvæmt könnuninni telja 72% stjórnenda aðstæður vera slæmar, 26% að þær séu hvorki góðar né slæmar en 2% að þær séu góðar. Fleiri stjórnendur telja að ástandið versni en batni á næstunni, þótt flestir telji að þær breytist ekki. Meiri svartsýni ríkir á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu í þessu efni og meiri svartsýni gætir í iðnaði og sjávarútvegi en í öðrum atvinnugreinum.

Vísitala efnahagslífsins

Fjárfestingar aukast ekki á árinu

Ekki eru horfur á því að fjárfestingar fyrirtækja aukist á þessu ári samkvæmt könnuninni. Rúmur helmingur stjórnenda telur að fjárfestingar fyrirtækjanna verði svipaðar á þessu ári og árið 2010, fjórðungur að þær verði minni en tæpur fjórðungur að þær verði meiri. Útlit er fyrir smávægilega aukningu fjárfestinga á höfuðborgarsvæðinu en samdrátt á landsbyggðinni.

Nægt framboð af starfsfólki

Flestir stjórnendur búa við nægt framboð af starfsfólki. Skortur á starfsfólki hefur þó heldur farið vaxandi undanfarin misseri. Skortur á starfsfólki er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og þær atvinnugreinar sem helst skortir starfsfólk eru sjávarútvegur og sérhæfð þjónusta og skortur er áberandi meiri í útflutningsfyrirtækjum en í öðrum fyrirtækjum.

Fjölgun eða fækkun starfsmanna

Rúmlega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Ætla má af svörum stjórnendanna að starfsmönnum þeirra fækki um 150-300 á næstu sex mánuðum, eða um 0,5-1%. Langflestir, eða 62%, búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 15% áforma fjölgun starfsmanna en 23% búast við fækkun. Fækkun starfsmanna er áformuð í öllum þeim atvinnugreinum sem flokkað er eftir nema í sérhæfðri þjónustu, þar sem áform eru um fjölgun starfsmanna og í verslun þar sem búist er við óbreyttum starfsmannafjölda.

Skortur á starfsfólki?

Framlegð (EBITDA)

Útlit er fyrir að framlegð fyrirtækja minnki að jafnaði á næstu sex mánuðum. Tæpur helmingur stjórnenda, 45%, telur að framlegð fyrirtækja þeirra muni standa í stað, en rúmur þriðjungur að hún minnki.

Minnkandi framlegð og hagnaður

Framlegð fyrirtækjanna (EBITDA) hefur heldur minnkað á síðustu sex mánuðum og er útlit fyrir að framlegðin þeirra minnki áfram á næstu sex mánuðum. Hagnaður fyrirtækjanna verður að jafnaði minni á þessu ári en á því síðasta.

Innlend eftirspurn stöðug en vaxandi erlendis

Stjórnendur búast að jafnaði við óbreyttri eftirspurn á innanlandsmarkaði en að eftirspurn eftir vörum þeirra og þjónustu á erlendum mörkuðum muni aukast á næstunni. Helmingur stjórnenda útflutningsfyrirtækja telur að eftirspurn á erlendum mörkuðum verði óbreytt á næstu sex mánuðum en 40% sjá fram á aukningu.

Stöðugir vextir og gengi en talsverð verðbólga

Að jafnaði búast stjórnendur við því að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir eftir 12 mánuði en þeir eru nú 4,75%. Þeir vænta þess að verðbólgan verði 3,6% eftir eitt ár en 4,7% eftir tvö ár. Flestir stjórnendur búast við því að gengi krónunnar verði óbreytt eftir eitt ár en hóparnir eru álíka stórir sem vænta styrkingar og veikingar.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 17. október til 7. nóvember 2011 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 443 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun) og svöruðu 280 þeirra þannig að svarhlutfall var 63% Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Sjá nánar:

400 stærstu - helstu niðurstöður (PDF)

Tengt efni:

Umfjöllun í hádegisfréttum RÚV 24.11. 2011