Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Aðeins 7% telja aðstæður góðar

Mat stjórnenda á aðstæðum í atvinnulífinu hefur heldur farið versnandi á síðari hluta ársins eftir að hafa batnað nokkuð síðastliðið vor. Einungis 7% stjórnenda telja aðstæður góðar, tæplega helmingur telur þær slæmar og álíka stór hópur telur aðstæður hvorki góðar né slæmar.

Þetta eru helstu niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar Capacent  á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í nóvember 2013. Nægt framboð er af starfsfólki og í heild er búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum. Verðbólguvæntingar hafa minnkað örlítið en haldast háar því búist er við 3,9% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Telja aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar

Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu séu slæmar en góðar og hefur fjölgað heldur í þeim hópi undanfarna mánuði. Í nóvember síðastliðnum töldu 46% aðstæður slæmar samanborið við 43% í september 2013. 47% stjórnenda telur þær hvorki góðar né slæmar en aðeins 7% að þær séu góðar. Rúmur helmingur stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu telur aðstæður slæmar en þriðjungur á landsbyggðinni. Í flestum atvinnugreinum telur um eða yfir helmingur stjórnenda aðstæður slæmar, með þeim undantekningum að tveir þriðju stjórnenda í byggingariðnaði telja svo vera og fjórðungur í sjávarútvegi. Engu munar hvort um er að ræða útflutningsfyrirtæki eða ekki þar sem í báðum hópum telur um helmingur stjórnenda aðstæður vera slæmar en einungis 6-8% að þær séu góðar. Hlutfallslega fleiri stjórnendur stærri fyrirtækja telja aðstæður slæmar en þeirra minni.

Álíta að aðstæður fari batnandi

Að jafnaði sjá stjórnendur fram á bata næsta misserið. Þriðjungur þeirra telur að aðstæður verði betri en 12% að þær versni. Horfur virðast heldur hafa batnað því í síðustu könnun í september sl. töldu 30% að aðstæður myndu batna en 13% að þær myndu versna. Bjartsýnastir eru stjórnendur í samgöngum og ferðaþjónustu en svartsýnastir í byggingarstarfsemi og iðnaði. Lítill munur er á mati stjórnenda eftir staðsetningu, stærð eða markaðssvæðum fyrirtækja.

Smelltu til að stækka!

Nægt framboð af starfsfólki

Nægt framboð er af starfsfólki í tæplega 90% fyrirtækjanna sem er svipað og í síðustu könnunum. Skortur á starfsfólki er heldur meiri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Enginn skortur er á starfsfólki í verslun og afar lítill í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi. Helst verður vart við skort í sérhæfðri þjónustustarfsemi. Skortur á starfsfólki er heldur meiri í útflutningsgreinum en heimamarkaðsgreinum.

Búist við lítilsháttar fækkun starfsmanna á næstunni

Jafn hátt hlutfall stjórnenda fyrirtækjanna, 15%, býst við fjölgun og fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum, en 70% að starfsmannafjöldi verði óbreyttur. Fjölgun starfsmanna er einkum líkleg í ýmissi sérhæfðri þjónustu, og samgöngum og ferðaþjónustu, en fækkun í fjármálastarfsemi og iðnaði. Á höfuðborgarsvæðinu er fækkun starfslmanna líklegri en fjölgun en því er öfugt farið á landsbyggðinni. Hlutfallslega fleiri stór fyrirtæki áforma fækkun en þau minni.

Hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfa 32 þúsund manns. Í ljósi þess að hlutfallslega fleiri stór fyrirtæki áforma fækkun starfsmanna má gera ráð fyrir að starfsmönnum í heild fækki á næstu sex mánuðum. Samanvegið má ætla að starfsmönnum allra fyrirtækjanna í könnuninni fækki um 100 eða um 0,3%. Séu þær niðurstöður yfirfærðar á almenna vinnumarkaðinn í heild, sem telur rúmlega 100.000 launamenn, gefa þær vísbendingu um að störfum gæti fækkað um 350 á næstu sex mánuðum. Þetta er heldur lakari niðurstaða en í síðustu könnunum þar sem fram hafa komið horfur um óbreyttan starfsmannafjölda fyrirtækjanna.

Smelltu til að stækka!


Eftirspurn minnkandi innanlands en aukning erlendis

Stjórnendur fyrirtækjanna búast að jafnaði við vaxandi eftirspurn þar sem fjórðungur þeirra býst við aukningu en 10% við samdrætti. Gildir það bæði um erlendan og innlendan markað. Horfur um eftirspurn á innlendum markaði eru heldur betri þar sem 27% stjórnenda búast við aukningu en 9% við samdrætti, samanborið við að á erlendum mörkuðum búast 22% þeirra við aukningu eftirspurnar en 10% við samdrætti. Þetta er þó lakari niðurstaða en í síðustu könnun, einkum hvað erlenda markaði varðar.

Minnkandi verðbólguvæntingar

Að meðaltali búast stjórnendur við því að verðbólgan eftir eitt ár, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum, verði 3,9% samanborið við 4,0% í september og júní á þessu ári. Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa þannig farið minnkandi á árinu í takti við hjaðnandi verðbólgu á síðari hluta ársins.

Smelltu til að stækka!

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 12. til 29. nóvember 2013 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 404 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 269 þannig að svarhlutfall var 67%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.