Stjórnendur 400 stærstu: Dýpkandi kórónukreppa

Útlit er fyrir áframhaldandi fækkun starfa á næstu sex mánuðum og skortur á starfsfólki er lítill, eins og verið hefur allt árið. Þá er gert ráð fyrir því að fjárfestingar muni dragast mikið saman milli ára. Þetta er meðal niðurstaðna Gallup könnunar meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sem sýnir atvinnulíf í djúpum og dýpkandi samdrætti. Á könnunartímabilinu voru sjö mánuðir liðnir frá upphafi kórónukreppunnar.

Slæmt ástand í öllum atvinnugreinum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er nálægt núlli eins og síðustu könnun í maí síðastliðnum. 85% stjórnenda telja aðstæður slæmar í atvinnulífinu, 2% telja þær góðar en 13% eru hlutlausir. Matið er lakast í byggingariðnaði þar sem allir telja aðstæður slæmar en jákvæðast í verslun þar sem 8% telja aðstæður góðar og 18% eru hlutlausir.

Vænta verri stöðu eftir 6 mánuði

Fleiri stjórnendur búast við því að ástandið verði verra eftir sex mánuði en að það verði betra. 43% stjórnenda telur að aðstæður versni en 26% að þær batni. Í flestum atvinnugreinum telja fleiri stjórnendur að ástandið verði verra eftir 6 mánuði. Í ferðaþjónustu er væntingar minnstar um bætta stöðu þar sem 61% stjórnenda telur að ástandið muni versna en 18% að það batni og í byggingarstarfsemi búast 54% við verri stöðu en 8% að það batni. Mestar væntingar um bata eru í fjármálastarfsemi þar sem 27% búast við verri stöðu en 46% við betri og þar á eftir kemur verslun þar sem 39% búast við verri stöðu en 38% betri.

Lítill skortur á starfsfólki

Lítill skortur er á starfsfólki og hafa þær aðstæður ekki breyst á árinu. 92% stjórnenda segja ekki skort á starfsfólki en 8% stjórnenda segja skort vera fyrir hendi. Skortur á starfsfólki er mestur í iðnaði.

Starfsmönnum gæti fækkað um 2.600 á næstu 6 mánuðum

29 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 34% stjórnenda búast við fækkun starfsmanna en 11% við fjölgun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 2% á næstu sex mánuðum sem er sama áætlaða fækkun og í könnuninni í maí síðastliðnum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 2.600 á næstu sex mánuðum. Fækkunin er 3.000 hjá þeim sem áætla fækkun en fjölgunin 400 hjá þeim sem áætla fjölgun.

Fækkun starfa er framundan í öllum atvinnugreinum. Stjórnendur í ferðaþjónustu sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en þar á eftir kemur fjármálastarfsemi, verslun og iðnaður. Minnst starfsmannafækkun er áætluð í sjávarútvegi en þar á eftir kemur byggingarstarfsemi og verslun.

Vænta verðbólgu nálægt markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda eru svipaðar og áður, eða 3% að ári liðnu. Þeir vænta þess einnig að verðbólgan verði 3% eftir tvö en að hún verði við verðbólgumarkmið Seðlabankans eftir fimm ár.

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 0,9% á innlendum markaði á næstu sex mánuðum sem samsvarar 1,8% á ársgrundvelli. Þá vænta þeir þess að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 3,7% sem samsvarar 7,5% á ársgrundvelli.

Vænta stöðugs gengis krónunnar

Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar veikist um 1,2% á næstu 12 mánuðum.

Fjárfestingar minnka á árinu í öllum atvinnugreinum

Könnunin getur til kynna mikinn samdrátt fjárfestinga í atvinnulífinu á árinu 2020. 46% stjórnenda búast við að fjárfestingar fyrirtækjanna dragist saman milli ára en 13% býst við aukningu. Horfur eru á miklum samdrætti fjárfestinga í öllum atvinnugreinum, en langmest í ferðaþjónustu.

Innan við helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu

70% stjórnenda telja ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu en 30% telja það nokkurt vandamál. Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrri könnunum.

Hagnaður minnkar milli ára í flestum greinum

Stjórnendur búast almennt við minni hagnaði fyrirtækjanna á þessu ári og því síðasta. 55% stjórnenda búast við minni hagnaði, en 21% meiri. Horfur um hagnað eru skástar í verslun.

Útlit fyrir mikinn samdrátt eftirspurnar á innlendum og erlendum markaði

Í heild búast stjórnendur við samdrætti innlendrar eftirspurnar á næstu 6 mánuðum. 33% búast við samdrætti, 15% við aukningu en helmingur óbreyttri eftirspurn. Horfur eru enn lakari á erlendum mörkuðum því 47% stjórnenda búast minnkandi eftirspurn þar en 17% búast við aukningu.

Launakostnaður hefur langmest áhrif á verðbólgu

Stjórnendur voru spurðir um þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu 6 mánuðum. Hækkun launakostnaðar vegur langþyngst þar sem 46% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni og 26% til viðbótar setja hann í annað sæti. Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 28% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 17% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var hún gerð á tímabilinu 2. til 23. september 2020 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 448 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svaraði  231, þannig að svarhlutfall var 52%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.