Stjórnendur 400 stærstu: 80% telja aðstæður slæmar

Mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt reglubundinni könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt könnuninni, sem gerð var í mars 2011, telja 80% stjórnenda aðstæður slæmar, 19% að þær séu hvorki góðar né slæmar en 2% að þær séu góðar. Þetta er örlítið skárri niðurstaða en fékkst í desember síðastliðunum þegar 84% stjórnenda töldu aðstæður slæmar.

Mat stjórnenda á aðstæðum eftir 6 mánuði er svipað og verið hefur. 22% þeirra sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, 24% að aðstæður verði verri en 54% telja að þær breytist ekki. Meiri bjartsýni ríkir á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 25% telja aðstæður batna, en á landsbyggðinni, þar sem einungis 12% telja þær batna. Stjórnendur í fjármálastarfsemi, verslun og þjónustu eru bjartsýnni en í öðrum greinum en mest svartsýni ríkir í byggingarstarfsemi, sjávarútvegi og samgöngum.

Þegar litið er eitt ár fram í tímann telja 49% stjórnenda að aðstæður verði betri en nú, 33% að þær verði óbreyttar og 18% að þær verði verri. Þessi niðurstaða er svipuð og verið hefur frá bankahruninu 2008 en því miður hafa væntingar um betri tíma að ári ekki náð fram að ganga.

Vísitala efnahagslífsins

Allflest fyrirtæki hafa yfir að ráða nægu framboð af starfsfólki en einungis 8% búa við skort á starfsfólki. Sá litli skortur sem er á starfsfólki virðist bundinn við höfðuborgarsvæðið og ýmsa sérhæfða þjónustu þar. Ekki eru áform um fjölgun starfa í þessum hópi fyrirtækja þar sem 63% þeirra hyggjast halda óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum, 16% áforma fjölgun starfsmanna en 20% stefna að fækkun. Mesta fjölgunin er áformuð í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, en mesta fækkunin byggingarstarfsemi, sjávarútvegi og í iðnaði.

Langflest fyrirtækin búa við vannýtta framleiðslugetu. Tæp 80% telja það ekki vera neitt vandamál að mæta óvæntri aukningu í eftirspurn, 18% telja það nokkuð vandamál, en einungis 2% að það yrði erfitt. Yfir 90% telja að þetta ástand vari næstu sex mánuði.

Horfur um hagnað fyrirtækjanna eru þær að 45% búast við svipaðri afkomu á þessu ári og í fyrra, 24% að hann verði meiri en 31% að hann verði minni.

Búist er við að velta aukist örlítið milli ára. Yfir helmingur fyrirtækjanna telur innlenda eftirspurn standa í stað á næstu sex mánuðum, fjórðungur að hún aukist og fimmtungur að hún minnki. Mest er bjartsýnin í verslun og sérhæfðri þjónustu hvað þennan þátt varðar. Horfur á útflutningsmörkuðum eru betri þar sem 55% útflutningsfyrirtækjanna telja að eftirspurn aukist, 38% að hún standi í stað, en einungis 7% að hún minnki. Ekki er búist við miklum verðbreytingum á erlendum mörkuðum fyrir afurðir fyrirtækjanna.

Rúm 60% stjórnenda fyrirtækjanna búast við að laun hækki á næstunni en um þriðjungur að þau standi í stað. Að meðaltali búast stjórnendurnir við 2,1% launahækkun á næstu sex mánuðum. Að meðaltali er áætlað að laun muni hækka um 2,7% milli áranna 2010 og 2011.

45% stjórnendanna búast við að verð á vörum og þjónustu fyrirtækjanna muni hækka á árinu, 49% búast óbreyttum verðum en 6% reikna með verðlækkunum.

Rúmur helmingur stjórnenda telur að fjárfestingar fyrirtækjanna verði svipaðar á þessu ári og 2010, fimmtungur að þær verði meiri en rúmur fjórðungur að þær verði minni. Mesta aukningin í fjárfestingum kemur fram í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu og þar á eftir í iðnaði. Hjá þeim fyrirtækjum sem gáfu upp tölur fyrir bæði árin 2010 og 2011 er útlit fyrir samdrætti fjárfestinga um 9%.

29% stjórnenda telur framlegð fyrirtækjanna, EBITDA, muni aukast á næstu sex mánuðum, 31% að hún muni minnka en um 40% að hún verði svipuð. Á síðustu sex mánuðum hefur framlegðin aukist hjá fjórðungi fyrirtækjanna, minnkað hjá 36% þeirra og staðið í stað hjá 37%.

Loks telja stjórnendur að meðaltali stýrivextir verði 4,0% eftir 12 mánuði (nú 4,5%) og að verðbólgan verði 4,2% á næstu 12 mánuðum. Það er mikil hækkun frá síðustu könnun þegar stjórnendur væntu þess að verðbólgan yrði 2% á næstu 12 mánuðum. Þá búast þeir einnig við að verðbólgan verði rúm 4% eftir tvö ár.

42% stjórnenda telja að gengi krónunnar verði óbreytt eftir 12 mánuði, 23% að hún muni styrkjast en 35% að hún muni veikjast. Að meðaltali er búist við 0,6% veikingu krónunnar.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 14. febrúar til 13. mars 2011 og voru spurningar 32. Í úrtaki voru 424 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun) og var svarhlutfall 59,4% Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.