Stjórnarformaður HS Orku: Öflug nýsköpun í íslenskum orkuiðnaði

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, segir umtalsverða nýsköpun eiga sér stað í orkuiðnaði og á Íslandi sé mikil þörf fyrir vel menntaða sérfræðinga af ýmsu tagi. "Sem dæmi vil ég nefna að í orkuverum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi hafa verið framkvæmd fjölmörg flókin verk og tæknimál leyst, á máta sem aldrei hefur verið gert áður, hvergi í veröldinni." Þetta kom m.a. fram á opnum fundi SA um atvinnu- og efnahagsmál sl. föstudag þar sem kynnt var ný skýrsla SA, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara.

Ásgeir Margeirsson

Ásgeir segir eitt stærsta nýsköpunarverkefnið í jarðhitaiðnaði vera djúpborunarverkefnið svokallaða, en með því er vonast til að unnt verði að vinna mun meiri orku á hverjum stað en nú er. "Framgangur þess er að mínu mati algjörlega háður frekari uppbyggingu jarðhitaiðnaðar, því eitt leiðir af öðru í þróunarstarfi. Með öðrum orðum, ef ekki verður frekari uppbygging í jarðhitaiðnaði á Íslandi tel ég þess langt að bíða að djúpborunarverkefnið komist af rannsóknar- og þróunarstigi."

Í erindi sínu áréttaði Ásgeir að orkulind verði ekki að auðlind fyrr en við nýtingu. "Með nýtingu orkulinda landsins erum við ekki að eyða upp forðanum og taka frá framtíðarkynslóðum. Með skynsamlegri nýtingu er unnt að framleiða í marga-marga áratugi og jafnvel árhundruð. Orkufyrirtæki framleiða ekki orku fyrir sjálf sig. Orkufyrirtæki framleiða orku fyrir samfélagið allt; heimili, stofnanir og fyrirtæki, stór og smá. Nýting hreinna, endurnýjanlegra orkulinda gefur okkur Íslendingum veruleg tækifæri til atvinnusköpunar og velmegunar, sem vonandi getur orðið til þess að við verðum betur samkeppnishæf við umheiminn og að börn okkar og barnabörn vilja búa í landinu til framtíðar, við góð kjör."

Erindi Ásgeirs má lesa í heild hér að neðan:

"Raforkuiðnaður á Íslandi hefur gengist undir verulegar breytingar á undanförnum árum. Má þar helst nefna fjögur atriði:

  • Innleiðing raforkutilskipunar Evrópusambandsins um aðskilnað samkeppnisstarfsemi frá sérleyfisstarfsemi. Samkeppnisstarfsemi felst í framleiðslu og sölu raforku og sérleyfisstarfsemin felst í flutningi og dreifingu raforku.

  • Einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja, sem síðar leiddi til þess að HS Orka er nú ekki lengur í eigu opinberra aðila - og að stórum hluta í eigu erlends aðila.

  • Efnahagshrun.

  • Skattlagning orkufyrirtækja, það er orkuskattur og tekjuskattur.

Í samanburði við öll önnur lönd stendur Ísland afgerandi fremst að þrennu leyti;

  • Hreinleika orkuframleiðslu

  • Magni framleiddrar orku á hvern íbúa

  • Orkuverði, sem er afar lágt

Ástæður þessa forskots eru augljósar; tilvist endurnýjanlegra orkulinda sem gefa kost á hreinni, mjög hagkvæmri orkuframleiðslu, nefnilega vatnsafls og jarðhita - og þekkingar til að nýta orkulindirnar. Þetta hefur leitt til uppbyggingar iðnaðar og stóriðju, sem haft hefur verulega jákvæð áhrif á atvinnusköpun, útflutningstekjur og efnahag þjóðarbúsins. Uppbygging orkuiðnaðarins með þessum hætti hefur ennfremur haft ótvíræð jákvæð áhrif á samfélagið allt, þar sem hún hefur leitt til lægra orkuverðs og mun meira afhendingaröryggis en annars hefði verið.

Orkuverð á Íslandi er sem fyrr segir afar lágt í öllum samanburði, sérstaklega ef hreinleiki orkunnar er metinn að verðleikum. Ég sótti nýverið stóra jarðhitaráðstefnu í Bandaríkjunum. Þar kom fram að langtímamarkmið Bandaríkjamanna, sem eru stærstu raforkuframleiðendur heims með jarðhita, er að ná framleiðslukostnaði raforku frá jarðhitaverum niður í 6 cent, eða um 7 krónur á kílówattstund. Þetta er mörgum tugum prósenta hærra verð en söluverð orkufyrirtækja á Íslandi í dag. Hafa ber í huga að hér er ég að tala um raforkuframleiðslu, ekki flutning og dreifingu.

Þekkingu sína og forskot í jarðhitaiðnaði hafa íslensk fyrirtæki og sérfræðingar nýtt sér með margvíslegum hætti utan landssteinanna, og reyndar um allan jarðhitaheiminn. Ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki hafa um langa hríð sinnt fjölmörgum og fjölbreyttum verkefnum um allan heim. Er sú starfsemi í öruggum vexti um þessar mundir og færir Íslendingum talsverðar tekjur. Þekking þeirra hefði ekki orðið til ef ekki hefði verið virkjað hér.

Það er skoðun mín að forskot okkar geti verið í hættu ef verulega verður hægt á orkuuppbyggingu á Íslandi. Ég tel nefnilega að maður geti ekki verið bestur á sínu sviði ef maður getur ekki æft á heimavelli.

Um þessar mundir er mikið rætt um nýsköpun og þróun í atvinnulífinu, en hún er umtalsverð í orkuiðnaði og hér er mikil þörf fyrir vel menntaða sérfræðinga af ýmsu tagi. Sem dæmi vil ég nefna að í orkuverum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi hafa verið framkvæmd fjölmörg flókin verk og tæknimál leyst, á máta sem aldrei hefur verið gert áður, hvergi í veröldinni. Ég gæti staðið hér og talað í löngu máli eingöngu um nýsköpun og þróun sem á sér stað í orkuverum okkar um þessar mundir, með aðkomu fjölmargra aðila og sérfræðinga utan fyrirtækisins.

Eitt stærsta nýsköpunarverkefnið í jarðhitaiðnaði er djúpborunarverkefnið svokallaða, en með því er vonast til að unnt verði að vinna mun meiri orku á hverjum stað en nú er. Framgangur þess er að mínu mati algjörlega háður frekari uppbyggingu jarðhitaiðnaðar, því eitt leiðir af öðru í þróunarstarfi. Með öðrum orðum, ef ekki verður frekari uppbygging í jarðhitaiðnaði á Íslandi tel ég þess langt að bíða að djúpborunarverkefnið komist af rannsóknar- og þróunarstigi.

Þær veigamiklu breytingar á orkuiðnaðinum sem ég greindi frá hér að framan hafa haft mikil áhrif á rekstur orkufyrirtækjanna. Auk þess setti efnahagshrunið þau flest ef ekki öll í erfiða stöðu. Stærstu orkufyrirtækin eru hvað lánsfé varðar að mestu fjármögnuð með alvöru erlendum lánum og hafa reyndar flest nokkurn hluta tekna sinna í erlendri mynt. Ég segi alvöru erlendum lánum, því hér er um að ræða erlendar lánastofnanir og því er ekki um neinar leiðréttingar á umræddum lánum að ræða, eins og á gengistryggðum lánum hinna föllnu íslensku banka. Orkufyrirtæki eru auk þess almennt traust fyrirtæki til lengri tíma litið og því er ekki um neinar afskriftir skulda að ræða, líkt og hér hefur átt sér stað hjá fjölda fyrirtækja. Orkufyrirtækin þurfa einfaldlega að standa við sínar skuldbindingar að fullu, hverju sem á dynur.

Við þetta bætast svo fleiri þættir er varða starfsumhverfi orkufyrirtækjanna. Fyrst ber þar að nefna Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Nú styttist í að annar áfangi rammaáætlunar hljóti sína endanlegu afgreiðslu stjórnvalda. Það mun tæplega gerast á þessu ári og verður vonandi á næsta ári. Ég fagna tilkomu rammaáætlunar, þó ýmislegt sé að athuga við líklega útkomu einstakra verkefna í henni. Rammaáætlun skýrir línur mjög og afar mikilvægt er að við íhugum vel hvar skuli virkja og hvar ekki og vöndum í hvívetna til verka í sérhverju verkefni. Hitt er rétt að benda á að vinnu við þennan annan áfanga rammaáætlunar átti upphaflega að ljúka á árinu 2009. Töf á afgreiðslu rammaáætlunar hefur haft í för með sér tafir á framgangi margra þeirra orkuverkefna sem nú eru í vinnslu, sem aftur hefur neikvæð áhrif á verkefni og fjárfestingar orkukaupenda.

Í inngangi mínum vísaði ég til innleiðingar raforkutilskipunar Evrópusambandsins. Alþingi setti lög þar um vorið 2008, er taka skyldu gildi á miðju ári 2009. Lögin hafa enn ekki tekið gildi, en flest þau orkufyrirtæki sem breytingarnar ná til hafa þegar skipt upp sinni starfsemi, með tilheyrandi kostnaði. Líklegt er að lögin taki gildi um komandi áramót, tveimur og hálfu ári síðar en upphaflega stóð til.

Misvísandi og breytileg skilaboð yfirvalda, bæði sveitarfélaga og ríkis, hafa verið mörg og erfið viðureignar. Helst vil ég þar nefna Magma-málið svokallaða, sem komst í hámæli á síðasta ári. Verulegrar andstöðu varð þar vart, við mál sem sýndi sig vera að fullu í samræmi við lög og reglur. Skipulagsmál eru annar þáttur, sem hvílir mikið á sveitarfélögum. Varðar þetta bæði orkumannvirki og flutningskerfi raforku. Verulegar tafir hafa orðið á mörgum flutningsmálum vegna mismunandi sjónarmiða sveitarfélaga er varðar skipulag fyrir flutningslínur. Nýjasta dæmið er varðandi suðvesturlínu, suður Reykjanesskagann, er sveitarfélagið Vogar lagðist gegn loftlínu, sem áður hafði verið ráðgerð og fer fram á að lagður verði jarðstrengur í hennar stað.  Þetta hefði veruleg áhrif til kostnaðarhækkunar raforku. Orkunotendur yrðu að greiða þá hækkun í hærri flutningsgjöldum. Rétt er að benda á í þessu samhengi að suðvesturlína sem slík tengist ekki eingöngu framkvæmdum í Helguvík, hluti verkefnisins er í raun nauðsynlegur til að tryggja flutningsöryggi orku til og frá Suðurnesjum, í núverandi ástandi.

Annar þáttur er hálfgerður heymóttarskapur okkar Íslendinga, er varðar flutning orku milli sveitarfélaga eða héraða. Almennt er æskilegt að flytja orku um sem stystan veg en það er ekki alltaf gerlegt, með tilliti til staðsetningar orkumannvirkja og notenda. Þetta sjónarmið hefur verið fjölmörgum verkefnum til trafala, sem getur þá leitt til verri niðurstöðu fyrir heildina en ella.

Títt er deilt um getu jarðhitasvæða til orkuvinnslu og þykir mér furðu sæta hve margir virðast hafa á því skoðun, án þess að hafa þekkingu á viðfangsefninu eða á viðkomandi svæðum og tala hikstalaust gegn áliti færustu sérfræðinga. Virðist mér sem slík sjónarmið séu oft sett fram til þess eins að reyna að vinna gegn slíkum verkefnum.

Nýlega var birt orkustefna fyrir Ísland. Henni ber að fagna, hún er áhugaverð og þar kemur margt gott fram. En ég vara við hugmyndum um leigutíma orkulinda sem er mun skemmri en skynsamlegur afskriftartími orkumannvirkja. Slíkt leiðir til verulegrar hækkunar orkuverðs - og hver vill bera þann kostnað?

Það er rétt og eðlilegt að orkuvinnsla greiði sanngjarnt afgjald af auðlindum þeim sem nýttar eru. Þið takið kannski eftir því að fyrr í erindinu talaði ég um orkulindir en hér um auðlindir. Ég lít svo á að orkulind verði að auðlind ef hún er nýtt. Ég vil taka dæmi um þær auðlindir sem HS Orka nýtir á Suðurnesjum. Auðlindagjald þar er mun hærra en áður hefur þekkst fyrir stór orkuverkefni hér á landi og vel í samræmi við það sem þekkist í öðrum löndum. Auðlindagjaldið greiðist til eigenda, í þessu tilviki ríkis og sveitarfélaga.

Að lokum: Með nýtingu orkulinda landsins erum við ekki að eyða upp forðanum og taka frá framtíðarkynslóðum. Með skynsamlegri nýtingu er unnt að framleiða í marga-marga áratugi og jafnvel árhundruð. Orkufyrirtæki framleiða ekki orku fyrir sjálf sig. Orkufyrirtæki framleiða orku fyrir samfélagið allt; heimili, stofnanir og fyrirtæki, stór og smá. Nýting hreinna, endurnýjanlegra orkulinda gefur okkur Íslendingum veruleg tækifæri til atvinnusköpunar og velmegunar, sem vonandi getur orðið til þess að við verðum betur samkeppnishæf við umheiminn og að börn okkar og barnabörn vilja búa í landinu til framtíðar, við góð kjör."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)