Stimpilgjöld - sérstaða Íslands

Ísland er nánast eina vestræna ríkið sem leggur stimpilgjald á öll skuldabréfaviðskipti, bæði veðskuldabréf og aðrar tegundir skuldabréfa. Í nágrannalöndunum takmarkast slíkur skattur almennt  við fasteignaviðskipti. Ísland er einnig með sérstöðu í álagningu stimpilgjalds á útgáfu hlutabréfa. Stimpilgjaldið dregur þannig úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs því  keppinautar íslenskra fyrirtækja þurfa ekki að greiða slíkan skatt.  Hvað einstaklinga varðar leggst stimpilgjald einkum á þá í tengslum við fasteignakaup.  Þannig má ætla að skatturinn sé í ríkum mæli borinn af  ungu fólki sem er að koma sér upp eigin húsnæði í fyrsta sinn. Þar sem skatturinn veitir rétt til vaxtabóta er hann þó að hluta til endurgreiddur einstaklingum ári eftir að hann er innheimtur. Almennt þekkist ekki á hinum Norðurlöndunum að lagt sé á stimpilgjald í annað sinn í tengslum við endurfjármögnun lána.

Skattstofn og álagningarhlutfall stimpilgjalds
Samkvæmt 3. gr. laga um stimpilgjald er skattstofn gjaldsins svonefnd stimpilskyld skjöl sem eru í aðalatriðum eftirfarandi:

  1. Skuldabréf.  1,5% stimpilgjald leggst á öll skuldabréf, hvort sem þau eru tryggð með veði eða ábyrgð.

  2. Afsöl. Afsöl fyrir fasteignum hér á landi og skipum, sem hér eru skrásett. Skatthlufallið er 0,4% og leggst á fasteignamat en kaupverð í tilviki skipa.

  3. Víxlar. Á víxla er lagt 0,25% stimpilgjald.

  4. Hlutabréf.  Stimpilgjald er 0,5% á frumútgáfu hlutabréfa í félögum með takmarkaða ábyrgð en framsal hlutabréfa og jöfnunarhlutabréf eru skattfrjáls.

  5. Vátryggingarskjöl, ef þau snerta fasteignir eða verðmæti hér á landi. Sjóvátryggingar á varningi, tryggingar á varning fluttum með flugvélum eða landfarartækjum og farangurstryggingar bera 0,024% stimpilgjald vátryggingarfjárhæðar.

Hverjir greiða stimpilgjald?
Skatttekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi eru tæpur þrír og hálfur milljarður króna skv. fjárlögum 2004. Skipting stimpilgjaldsins eftir tegundum skattstofna eða hópum greiðenda liggur hins vegar ekki fyrir. Þó er næsta víst að verulegur hluti gjaldsins kemur til vegna fasteignaviðskipta og lántöku þeim tengdum. Gróflega má ætla að 1-1,5 milljarður króna komi til vegna lánveitinga Íbúðalánasjóðs og afsala fyrir  fasteignum. Þá má ætla að stimpilgjald vegna skuldabréfalána fjármálafyrirtækja til einstaklinga nemi um einum milljarði króna.  Þannig bera einstaklingar um 2,0-2,5 milljarða króna af stimpilgjaldinu eða í kringum 60% skattsins.  Líklega leggst þessi skattur þyngst á þá einstaklinga sem eru að eignast eigið húsnæði í fyrsta sinn þar sem lánsfjármögnun er væntanlega hærri hjá þeim en öðrum íbúðakaupendum.  Ætla má að skatturinn leggist þyngra á minni fyrirtæki en þau stærri þar sem þau fyrrnefndu hafa minni möguleika á að fá erlent lánsfjármagn.

Ríkið tekur og ríkið gefur
Í 68. gr. b laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem fjallar um vaxtabætur, er kveðið á um að stimpilgjöld séu meðal þeirra gjalda sem veita rétt til vaxtabóta. Ef rétt er að verulegur hluti stimpilgjaldsins sé til kominn vegna fasteignaviðskipta einstaklinga er ljóst að stór hluti skattsins er endurgreiddur í formi vaxtabóta ári eftir greiðslu hans. Þegar það er haft í huga þá eru nettó skatttekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi mun minni en þrír og hálfur milljarður vegna þess að verulegur hluti þess greiðist til baka.  Fróðlegt væri að fá upplýst hversu stór hluti vaxtabóta stafar af endurgreiddu stimpilgjaldi þannig að svar fengist við því hverjar nettótekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi séu í raun og þannig hve miklu tekjutapi ríkissjóður yrði fyrir í raun við lækkun eða afnám skattsins.

Rök stjórnvalda
Í vefriti fjármálaráðuneytisins þann 2. sept sl. voru stimpilgjöld gerð að umtalsefni. Samkvæmt könnun ráðuneytsins eru sambærilegir skattar við stimpilgjöld innheimtir í öllum nálægum löndum. Voru rök færð fyrir því að við samanburð á skattlagningu milli landa ætti bæði að líta til stimpilgjalda á lánsskjölum og á skjölum er varða eignayfirfærslu á fasteignum. Af samanburði á samanlögðum skatthlutföllum á lánsskjöl og fasteignaviðskipti komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að heildarstimpilgjald í tengslum við fasteignakaup væri lægra hér á landi en víðast hvar annars staðar. Í umræðum í kjölfarið hafa þessar upplýsingar verið túlkaðar sem rök gegn breytingum á skattinum eða afnámi hans.

Rök Samtaka atvinnulífsins gegn stimpilgjaldi
Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir því að stimpilgjaldið væri afnumið og hafa í því sambandi lagt áherslu á útgáfu og viðskipti með viðskiptabréf. Óvíða er stimpilgjald lagt á önnur skuldabréf en veðskuldabréf eins og gert er hér á landi og þar sem það er gert er það yfirleitt mun lægra og skattstofninn þrengri. Álagning stimpilgjaldsins felur í sér ýmiss konar ójafnræði. Hún skekkir samkeppnisstöðu innlendra fjármálafyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum sem ekki búa við slíka skattheimtu. Skatturinn bitnar harðar á smærri fyrirtækjum en stærri þar sem þau eiga ekki jafn marga möguleika, til að mynda að taka erlend lán. Nýlegar tegundir verðbréfa, eins og t.d. afleiður, hafa ekki fallið undir gjaldskylduna og skatturinn hleðst upp við endurfjármögnun eldri lána. Hið síðastnefnda hefur öðlast aukið vægi með nýtilkominni samkeppni fjármálafyrirtækja við Íbúðalánasjóð um fjármögnun fasteignalána landsmanna, en óbreytt skipan hamlar því að lántakendur geti endurskipulagt fjármál sín og lækkað kostnað.

Há stimpilgjöld á fasteignaviðskipti á Norðurlöndum
Sambærilegir skattar við stimpilgjöld ganga undir mismunandi nöfnum á Norðurlöndunum, þ.e. skjalagjald, stimpilskattur eða þinglýsingargjald. Öll löndin leggja skattinn á við eignaskipti á fasteignum en þrjú af fimm leggja hann á við þinglýsingu veðskuldabréfa. Í Noregi gengur skattur þessi undir heitinu dokumentavgift1  og nemur hann 2,5% af kaupverði fasteignar. Í Svíþjóð nemur stimpilgjaldið 1,5% af verðmæti fasteignar í eigu einstaklings en 3% ef um fyrirtæki er að ræða. Í Svíþjóð greiðist stimpilgjald af lánum ef þau eru tryggð með veði í fasteign og nemur það 2%. Í Finnlandi nemur skatturinn 4% af kaupverði fasteignar. Í Danmörku3  var heitið stimpilgjald (stempelafgift) aflagt árið 2000 og heitir þessi skattur nú þinglýsingargjald (tinglysningsafgift). Við þinglýsingu eignar er greitt 0,6% gjald af kaupverði auk 1.400 Dkr. og við þinglýsingu veðskuldabréfs er greitt 1,5% gjald af kaupverði auk 1.400 Dkr. Skattlagning lána á Íslandi er víðtækari en í Svíþjóð og Danmörku þar sem það er ekki gert að skilyrði hér á landi að um veðlán sé að ræða. Greitt er 1,5% stimpilgjald jafnt af veðskuldabréfum sem skuldabréfum með ábyrgð.

Sérstaða Íslands varðandi stimpilgjöld við endurfjármögnun fasteignalána
Ísland er sér á parti meðal Norðurlandanna hvað varðar álagningu stimpilgjalds í tengslum við endurfjármögnun húsnæðislána. Hérlendis leggst 1,5% stimpilgjald á veðskuldabréfið í slíkum tilvikum, meðan ekkert stimpilgjald leggst á í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Í Danmörku er einungis greitt framangreint 1.400 DKR fast gjald við slíka endurfjármögnun og í Noregi greiðist 2.112 NKR þinglýsingargjald.

Alþjóðlegur samanburður KPMG
Í maí 2001 kynntu SA skýrsluna Samkeppnishæft skattaumhverfi þar sem m.a. var birt tafla sem sýndi stimpilgjöld á viðskipti með verðbréf hjá vestur-evrópskum OECD-ríkjum árið 2000. Í því yfirliti var ekki fjallað um skattlagningu skjala sem tengjast fasteignaviðskiptum. SA hafa nú fengið endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið KPMG til að taka saman ítarlegt og sundurliðað yfirlit yfir álagningu sambærilegra skatta við stimpilgjald í 17 löndum auk Íslands. Þar er staðfest að Ísland er í hópi örfárra ríkja Evrópu sem innheimta stimpilgjöld af viðskiptabréfum sem ekki tengjast fasteignaviðskiptum.

Í yfirlitinu kemur fram að stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu á fasteignum er lagt á í öllum löndunum. Er gjaldið yfirleitt mun hærra en hér á landi, en það er 0,4%, og verður hæst á Ítalíu, 3%-18%. Í yfirlitinu kemur ennfremur fram að fátíðara er að lagt sé stimpilgjald á veðskuldabréf sem útgefin eru í tengslum við fasteignaviðskipti. Í 7 löndum af 18 er stimpilgjald ekki lagt á veðskuldabréf og einungis í Grikklandi, Ítalíu, Svíþjóð og Danmörku er það jafn hátt eða hærra en hér (sama prósenta í Danmörku og hér, en þar bætast við 1.400 DKR við). Síðast en ekki síst þá er Ísland nánast eitt um það að leggja skatt á skuldabréf sem ekki eru tryggð með fasteignaveði, þ.e. að leggja stimpilgjald á óveðtryggð skuldbréf.

Stimpilgjöld í 18 löndum

Stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu á fasteignum

Stimpilgjöld af verðskuldabréfum útgefnum í tengslum við fasteignaviðskipti

Stimpilgjöld af útgáfu annarra skuldabréfa en veðskuldabréfa

Austurríki

3,5%

1%

0%

Belgía

12,5%

0,3%

0%

Danmörk

0,6% + DKR 1.400

1,5% + DKR 1.400

0%

Finnland

4%

0%

0%

Frakkland

4,89%

0%

0%

Grikkland

7%

4%

0%

Holland

6%

0%

0%

Írland

0-9%

12,5 evrur

0%

Ísland

0,4%

1,5%

1,5%4

Ítalía

3-18%

2% + 130 evrur

0%

Lúxemborg

6-7%

0%

0%

Noregur

2,5%

0%

Uþb. 1.200 NOK

Portúgal

6,5%

0,8%

0%

Spánn

6-7%

0,5%

0,5%

Bretland

0-4%

0%

0%

Sviss

0%

0,15% á innlend bréf
0,30% á erlend bréf

0,15% á innlend bréf
0,30% á erlend bréf

Svíþjóð

1,5%-3%

2%

0%

Þýskaland

3,5%

0%

0%Heimild KPMG

Jafnframt sýnir samantekt KPMG að af löndunum 18 leggja einvörðungu fimm stimpilgjald á útgáfu hlutabréfa, þ.e. Ísland, Austurríki, Írland, Spánn og Sviss.

1 Lov nr. 59 1975 om dokumentavgift
2 Lag (1984:404) om stämpelskatt vid inskrivningsmyndigheter.
3 Lov nr. 382 af 2. juni 1999 om afgift af tinglysning og registrering af ejer-
  og panterettigheder mv.

4 0,25% af víxlum og tékkum