Sterkt atvinnulíf kemur í veg fyrir neyðarástand

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, sagði í erindi sínu á fundi SA að aðrar þjóðir dæli nú fjármagni inn í hagkerfi sín til að halda atvinnulífinu gangandi og forðast neyðarástand. Hér á landi megi ekki til þess hugsa að tugir þúsunda einstaklinga verði atvinnulausir og stjórnvöld hljóti að gera allt til að forðast slíkt ástand og afleiðingarnar sem því fylgi. Það verði best gert með því að atvinnulífið haldist gangandi og hafi aðgang að nauðsynlegu fjármagni.

Hermann sagði að dauðastríð bankanna hafi hafist fyrir alvöru í aprílmánuði síðastliðnum og þá hafi verið raunhæfur möguleiki á að afstýra hruni íslensks atvinnulífs. Síðan hafi krónan fallið stöðugt, einungis hafi boðist okurvextir á erlendum gjaldeyri, háir innlendir vextir hafi knúið áfram verðbólguna og gjaldeyrisskortur hafi farið vaxandi. Nú búi fyrirtækin við minnkandi eftirspurn, aukin vanskil, lausafjárskort og gjaldþrot viðskiptavina sem leiði til sífellt fleiri uppsagna verði ekki að gert.

Hermann segir fyrirtæki við þessar aðstæður draga úr útlánum til viðskiptavina sinna og stjórnendur séu áhyggjufullir vegna þeirrar ábyrgðar sem því fylgi að reka fyrirtæki með neikvætt eigið fé og eiga í erfiðleikum með að standa skil á vörslusköttum. Ábyrgð stjórnenda nái einnig til samstarfsmanna.

Hermann nefndi nokkrar aðgerðir sem til bóta gætu horft m.a. að einkaaðilar stofni hlutabréfasjóð með lífeyrissjóðum og ríkinu til að leggja hlutafé í stærri fyrirtæki, hugað verði að því stjórnendur verði ekki dæmdir í fangelsi fyrir að reyna til hins ýtrasta að bjarga rekstri fyrirtækja, að frekar verði reynt að minnka starfshlutfall en grípa til uppsagna, að felld verði niður fasteignagjöld af tómu atvinnuhúsnæði og að Samkeppnisstofnun úrskurði hratt í málum sem snúi að hagræðingu.

Glærur Hermanns (PPT)