Sterkar skoðanir á aðildarviðræðum Íslands við ESB

Mjög góð þátttaka var í könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja samtakanna um viðhorf stjórnenda þeirra til aðildarviðræðna Íslands við ESB. Aðeins var hægt að svara könnuninni í fjóra sólarhringa, frá hádegi fimmtudagsins 20. febrúar til hádegis mánudagsins 24. febrúar. Alls bárust rúmlega 700 svör og ef litið er til stærðar fyrirtækjanna þá vinna 60% starfsfólks aðildarfyrirtækja SA hjá þeim sem svöruðu.

Aðeins einu sinni hefur þátttaka í reglulegum könnunum SA verið meiri, þegar aðildarfyrirtæki samtakanna voru spurð í febrúar 2009 um ráðningar- og uppsagnaráform í kjölfar hrunsins haustið 2008 en sú könnun stóð í átta daga. Niðurstöðurnar nú sýna því mikinn áhuga og sterkar skoðanir aðildarfyrirtækja SA á aðildarviðræðum Íslands við ESB. Ekki reyndist marktækur munur á svörum minni og stærri fyrirtækja.

Í könnun SA var spurt eftirfarandi spurninga:

 • Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) að Íslendingar slíti aðildarviðræðum við ESB?

 • Viltu að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við ESB eða viltu það ekki?

Þeir sem sögðust vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu voru spurðir um mögulega tímasetningu hennar:

 • Ef efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við ESB hvenær vildir þú að hún yrði?

  • Samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor

  • Síðar á kjörtímabili Alþingis

  • Samhliða næstu Alþingiskosningum, sem verða vorið 2017

  • Á öðrum tíma => Hvaða? ______________

38,1% þeirra aðildarfyrirtækja SA sem svöruðu könnuninni vilja slíta aðildarviðræðum en 55,8% eru því andvíg. 6,1% tóku ekki afstöðu. Þegar einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu vilja 40,6% slíta viðræðum en 59,4% eru því andvíg.  

36,9% aðildarfyrirtækja SA vilja ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við ESB en 63,1% eru því fylgjandi.

Þeir sem vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu voru spurðir að því hvenær þeir vildu að hún færi helst fram. 85,2% svöruðu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. 8,6% svöruðu síðar á kjörtímabili Alþingis, 4,8% svöruðu samhliða næstu Alþingiskosningum sem verða vorið 2017 en 1,4% nefndu á öðrum tíma, t.d. þegar meirihluti væri fyrir aðild að ESB á Alþingi.