Sterk staða starfsmenntasjóða

Staða starfsmenntasjóðanna Landsmenntar og Starfsafls er mjög góð og ástæða til að hvetja stjórnendur að sækja sér styrki í þessa sjóði. Góð staða í árslok 2007 byggðist einkum á því að Atvinnuleysistryggingarsjóður greiddi einnig til sjóðanna en þau framlög hættu um áramót. Þá var mikil þensla á vinnumarkaði og þess vegna minna sótt í sjóðina en oft áður en framlög atvinnurekenda rífleg af sömu ástæðu. Full ástæða er til að hvetja forráðamenn fyrirtækja  til að láta menntamál til sín taka á nýbyrjuðu ári og nýta sjóðina við þá uppbyggingu.

Í starfsmenntasjóðnum Starfsafli eru góðar líkur á að verði nægt fé á næstu árum fyrir þá sem vilja efla menntun almennra starfsmanna sinna. Auk þess að styrkja einstaklinga og fyrirtæki í margskonar menntunarstarfi  rekur Starfsafl tilraunaverkefni í starfsmannaráðgjöf, ásamt Landsmennt o.fl., sem ætlað er að  aðstoða fyrirtæki og starfsmenn þeirra við markvissa starfsþróun innan fyrirtækja m.a. til að draga úr starfsmannaveltu og þá einkum meðal nýrra starfsmanna. Hjá Starfsafli voru veittir rúmlega 40 styrkir til fyrirtækja árið 2007 og nam upphæð þeirra rúmum 7 milljónum króna. Einstaklingsstyrkir voru rúmlega 1200 að upphæð samtals rúmar 26 milljónir króna. Starfsafl er sjóður sem stofnað var til í kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins til að byggja upp menntun almennra starfsmanna. Styrkir til íslenskukennslu bæði til einstaklinga og fyrirtækja sem tekið hafa til sín stóran hluta úthlutana undanfarin ár hafa lækkað umtalsvert í krónum talið í framhaldi af auknum fjárframlögum menntamálaráðuneytisins til að kenna erlendu starfsfólki íslensku.

Fræðslusjóðurinn Landsmennt stendur líka vel , þar er einnig fyrirsjáanlegt að úr nægu fé verði að moða fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni sem hafa áhuga á að auka menntun almennra starfsmanna sinna. Landsmennt er fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni. Það dró úr styrkveitingum sjóðsins í krónum talið en ekki fjölda á síðasta ári, og munaði mestu um lægri upphæðir úr sjóðum til íslenskunámskeiða fyrir útlendinga eftir aðkomu menntamálaráðuneytisins að því verkefni. Rúmlega 1600 einstaklingsstyrkir voru veittir úr Landsmennt  árið 2007 að upphæð samtals um 39 milljónir króna. Styrkir til fyrirtækja  sem stóðu að námsskeiðum fyrir sitt fólk voru um 60 talsins og námu rúmlega 10 milljónum króna. 

Á heimasíðum Landsmenntar og Starfsafls er að finna greinargóðar upplýsingar um reglur um styrki  til fyrirtækja.