Sterk bein

Það vakti athygli á dögunum þegar allir flokkar í bæjarstjórn Akureyrar mynduðu saman meirihluta. Sumum fannst þar vera sleginn nýr tónn í stjórnmálum. Þar sem samvinna tekur við af deilum. Þetta kemur þó ekki til af góðu. Akureyrarbær, eins og alltof mörg sveitarfélög, var engan veginn búinn undir kreppuna sem nú er skollin á okkur af fullum þunga.

Auðvitað var ekkert okkar tilbúið fyrir verstu kreppu í heila öld. En það átti að vera öllum ljóst að það kæmi niðursveifla eftir góðæri síðustu ára. Rétt eins og í hruninu fyrir tólf árum er ríkið vel búið til að takast á við þetta, eftir mikla niðurgreiðslu skulda árin á undan. Annað er upp á teningnum hjá mörgum sveitarfélögum. Þau virðast mörg ekki einu sinni vera tilbúin til að takast á við eina miðlungsniðursveiflu.

Skuldir eru háar, skattar eru háir og mikil útgjöld fara í verkefni utan grunnþjónustu. Gæluverkefnin eru alltof mörg og alltof dýr. Afleiðingarnar eru slæmar. Ekkert svigrúm er hjá fólki eða fyrirtækjum til að greiða hærri skatta. Lítið svigrúm er til frekari skuldsetningar. Það mun verða nauðsynlegt að fara í sársaukafullan niðurskurð.

Þegar talað er fyrir aukinni ráðdeild í opinberum rekstri er það stundum málað af stjórnmálamönnum sem aðför að grunnþjónustu. Það er auðvitað tóm þvæla og í raun er því þveröfugt farið. Þar sem sýnd er ráðdeild þegar vel árar er meira svigrúm til að standa vörð um grunnþjónustu þegar illa árar. Það þarf sterk bein til að þola góða daga.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.