Stefnir í mikinn niðurskurð og skattahækkanir ef ekki verður brugðist við

Umfangsmiklar skattahækkanir og niðurskurður opinberra útgjalda blasa við á næsta ári ef ekkert verður að gert að mati framkvæmdastjóra SA. Í stað þess að fyrirtæki fjárfesti blæði þeim út með tilheyrandi tekjusamdrætti ríkisins. Þetta kemur fram í forsíðuumfjöllun Fréttablaðsins í dag. Vilhjálmur Egilsson, segir í samtali við blaðið útlit fyrir 20-30 milljarða aukahalla á ríkissjóði vegna þess að hagvöxtur láti á sér standa og því stefni í meiri háttar skattahækkanir og niðurskurð árið 2012. Þessu megi þó forða með því að koma stórum fjárfestingarverkefnum á skrið, s.s. framkvæmdum við álver Norðuráls í Helguvík og tilheyrandi orkuframkvæmdum.

Vilhjálmur segir mjög mikilvægt að fjárfesting í atvinnulífinu taki við sér.

"Okkur er mjög í mun að þessum málum verði hraðað því atvinnulífinu í landinu er að blæða út. Fjárfestingar eru komnar mjög langt niður og fyrirtækin eru ekki að endurnýja sig. Það er hvorki eftirspurn eftir vinnuafli né er verið að byggja upp störf til lengri tíma. Við gröfum undan okkur þegar fjárfestingarnar eru svona litlar."

Vilhjálmur segir að þeir sem leggist gegn byggingu álvers í Helguvík séu um leið að boða skattahækkanir upp á tólf til fimmtán milljarða. Ef Helguvík væri komin á fullt myndi það skila ríkissjóði milljarði á mánuði. Framkvæmdir strandi aðeins á ákvörðun stjórnvalda. Næg orka sé til og hægt að klára samninga milli Norðuráls og orkufyrirtækjanna.

Fréttastofa RÚV fjallar einnig um fjárfestingar í atvinnulífinu í dag en þar kemur fram að Íslendingar verði að horfast í augu við aukið atvinnuleysi ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Um 100 milljarða vanti í fjárfestingarverkefni á árinu en auknar fjárfestingar séu forsenda þess að hægt sé að skapa ný störf.

Þá fjallar Morgunblaðið í dag um viðkvæma stöðu ríkissjóðs. Lítið megi bera útaf í ríkisfjármálunum og aukinn niðurskurður og skattahækkanir sem nemi tugmilljörðurm bíði stjórnmálamanna ef ekki takist að skapa öflugan hagvöxt á Íslandi á ný.

Hagvöxtur síðasta árs var neikvæður um 3,5% en þjóðhagsspá fyrir 2011 gerir ráð fyrir 1,9% hagvexti. Það þýðir áfram mikið atvinnuleysi og lök lífskjör. Lágmarkshagvöxtur þarf að vera 3,5% að meðaltali 2011-2015 til að þróunin snúist við en æskilegasta markmiðið væri 5% árlegur hagvöxtur. Þá endurheimtast lífskjör, atvinnuleysi minnkar hratt og hægt verður að greiða skuldir ríkissjóðs niður.

Samtök atvinnulífsins hafa sett fram sýn samtakanna á leiðina út úr kreppunni undir merkjum Atvinnuleiðarinnar. Í henni felst að skapa ný störf til skemmri og lengri tíma, þannig að atvinna verði í boði fyrir alla sem vilja vinna og atvinnuleysi minnki hratt.

Nánari umfjöllun um Atvinnuleiðin er hér að neðan.

Tengt efni:

Fréttablaðið 19. mars 2011

Umfjöllun fréttastofu RÚV 19. mars 2011

Umfjöllun á vef Morgunblaðsins

Atvinnuleiðin - ályktun stjórnar SA 1. febrúar 2011

Atvinnuleiðin - gögn frá kynningarfundi SA