Stefnan í launamálum hins opinbera verði ljós

Mikilvægt er að vita hvaða stefnu sveitarfélögin og ríkið taka í launamálum sinna starfsmanna, í kjölfar samninga á almennum vinnumarkaði, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Morgunblaðinu í dag. Vilhjálmur segist jafnframt ekki telja tímabært að ríkisstjórnin komi með innlegg sitt til lausnar kjaraviðræðna fyrr en meiri skriður komist á viðræðurnar, þær séu í eðlilegum farvegi. Gert er ráð fyrir að fulltrúar SA og Starfsgreinasambands Íslands muni hittast á fimmtudaginn. Í samtali við Morgunblaðið segir Vilhjálmur mikilvægt að það fáist á hreint hvort menn séu tilbúnir að ræða saman á þeim grunni sem Samtök atvinnulífsins lögðu upp með, það er að nýta svigrúm til launahækkana til að hækka laun lágtekjufólks.